Börnin í betri stöðu

Lionshreyfingin á Íslandi                                                                                                                               Reykjavík 22. 1. 2024

Börnin í betri stöðu

Blindrafélagið þakkar Lionshreyfingunni á Íslandi fyrir tækifærið til að kynna fyrir Lionsfélögum hugmynd að kærkomnu samstarfi við sölu Rauðu Fjaðrarinnar. Tillaga okkar miðar að því að fjármagna annarsvegar búnað sem bætir aðstæður sjónskertra barna og ungmenna og hins vegar að því að uppfæra búnað og tæki Sjónstöðvarinnar sem þar með nýtist einnig öllum blindum og sjónskertum einstaklingum á Íslandi á öllum aldri.

Við höfum undirbúið þessa umsókn í samstarfi við Sjónstöðina. Verkefnistillaga ber yfirskriftina, „Börnin í betri stöðu“ og

felur í sér eftirfarandi þrjá málaflokka. Sjá nánari útlistun og myndir í viðhengi.

  • Skólastofan í sjónhendingu
  • Sjónörvun ungra barna
  • Betri aðstöðu fyrir öll

Baklandið

Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnaskerðingu (Sjónstöðin) sinnir m.a. endurhæfingu og umferlisráðgjöf fyrir alla aldurshópa. Ásamt því býður sjónstöðin upp á sjónörvun og snemmtæka íhlutun barna og kennsluráðgjöf á öllum skólastigum.

Með dyggum stuðningi Lionshreyfingarinnar hefur Blindrafélagið í samstarfi við Sjónstöðina útvegað félagsmönnum leiðsöguhunda og erum við ykkur ævinlega þakklát. Aftur á móti snýr markmið okkar annað að þessu sinni og langar okkur til að kaupa inn og bæta búnað fyrir ungmenni á skólaaldri sem og ung börn til þess að stuðla að betra aðgengi til menntunar, þroska og sjónörvunar sem og búnað allra þeirra sem leita sér þjónustu á Sjónstöðinni.

 

Verkefnislýsing

Skólastofan í sjónhendingu

Tækið sem við kynnum hér nýtist í grunn- og framhaldsskólum og gefur nemendum aukið frelsi og sjálfstæði. Því langar okkur til þess að geta veitt blindum og sjónskertum ungmennum á skólaaldri betri aðgengi að skólastofunni sinni, þ.m.t. fyrirlestrar gögnum, lesefni og því sem kennarinn skrifa á töfluna með vörum frá norska fyrirtækinu AbleCon.

Hefðbundin lestæki sem geta leyst hluta af þessum atriðum eru stór og ómeðfærileg og flytjast ekki á milli skólastofa með nemandanum auk þess sem takmarkanir þeirra valda því að nemandinn einangrast eða hreinlega vill ekki nota hjálpartæki

Lausnin sem við kynnum hér kallast AbleCenter og samanstendur af tveimur tækjum þ.e. myndavél og því sem kallast grabber. Þessi tækni gerir það að verkum að nemandinn stýrir ferðinni og getur verið sjálfstæður og þarf ekki aðstoðarmann eða stuðningsfulltrúa með sér. Nemandin hefur fullt aðgengi að námsefni og því sem er að gerast í skólastofunni. Nemendur í Noregi sem nota þessa tækni segjast ekki vilja vera án þess og velja þetta fram yfir önnur hjálpartæki. Tækið sem slíkt kostar um 806.000 kr. og er okkar markmið að afla fjár fyrir a.m.k. sex slíkum tækjum.

Sjónörvun ungra barna

Fæstir gera sér grein fyrir að við notum sjónina mest af öllum okkar skynfærum, en 70-80% skynjunar fara fram í gegnum sjónina. Það er því mikilvægt að byrja snemma að vinna með sjón sjónskertra barna en slík vinna kallast sjónörvun

Blindrafélagið og sjónstöðin standa fyrir snemmtækri íhlutun barna og leggja áherslu á mikilvægi sjónörvunar. Með einfaldri sjónörvunartösku er hægt að tryggja að jákvæð sjónörvun sé tryggð í öllum aðstæðum sem jákvæður leikur. Ásamt sjónörvunartöskunni hefur Sjónstöðin beitt sér fyrir því að útvega foreldrum ljósaborð sem líka er til sjónörvunar. Best væri að foreldrar gætu eignast sjónörvunartösku og ljósaborð sem kostar samtals 60.000 kr. Okkar ósk er að eiga um 100 stykki.

Árið 2021 lauk verkefninu „Að hugsa sér“ en þá hafði verið sköpuð sería af bókum sér útbúnum fyrir blind og sjónskert börn. Bækurnar eru með áþreifanlegum myndum og texta á punktaletri. Kostnaðurinn við hverja bók nemur 500.000 kr. og okkar ósk er að eiga um 20 stykki.

Betri aðstöðu fyrir öll

Aðkallandi er að uppfæra tækjabúnað á Sjónstöðinni m.a. fyrir sérhæfða sjónathugunaraðstöðu með tilheyrandi búnaði, sem hægt er að aðlaga að þörfum fólks óháð hæð, þyngd eða notkun hjólastóls eða annarri fötlun. Aðstaða í sjónathugunarherbergjunum er vægast sagt ekki upp á sitt besta og flest af búnaðinum frá árinu 1985. Nútíma sjónprófunaraðstöðu fylgir m.a. stillanlegur stóll til aðlögunar að notendum og hægt að koma að hjólastól. Rafræn sjónmælingartafla með stillanlegum lita prófíl og færanleg, en það er nauðsynlegt til að geta metið sjónleifar við mismunandi litaskerpu, birtustig og fjarlægð. Einnig má nefna færanlegur raufarlampi sem nýtist vel með einstaklingum með fjölfötlun og gefur möguleikann á skoðun í heima húsi hjá notendum sem fá heimsókn vegna líkamlegrar færniskerðingar. Óskastaðan er að geta uppfært aðstöðuna þannig að nútíminn taki á móti notendum og starfsfólki með góðu aðgengi að fullbúnum tækjum sem gera heimsóknina eins góða og árangursríka og völ er á. Fullbúin sjónprófunaraðstaða með tilheyrandi búnaði kostar um tólf miljónir og þörf er á tveimur slíkum.

Söfnunarmarkmið

Eftirfarandi tillögu að söfnunarmarkmiði miðast við ýtrustu væntingar, en gengið er út frá að söfnunarfé yrði deilt á milli málaflokkanna í samráði við Lions.

  • Abler búnaður : 1.200.000 kr. * 6 = 7.200.000 k
  • Sjónörvunartaska og ljósaborð: 60.000 kr. * 100 = 6.000.000 kr.
  • Þreifibækur: 500.000 kr. * 20 = 10.000.000 kr.
  • Tækjabúnaður til sjónprófunar: 12.000.000 kr. * 2 = 24.000.000 kr.

Verði það niðurstaða Lionshreyfingarinnar að velja Blindrafélagið til samstarfs við söfnunarátakið Rauða fjöðrin til stuðnings blindum og sjónskertum börnum á Íslandi og búnaði Sjónstöðvarinnar, þá mun Blindrafélagið geta boðið öflugt liðsinni við verkefnið líkt og var gert við söfnunina 2022 þegar mynduð var sameiginleg verkefnastjórn. Félagið hefur eins og þá möguleika á að koma beinum skilaboðum til Bakhjarla félagsins sem telja nú rúmlega 7.000 manns. Einnig getur það meðal annars falist í öflugri kynningu á samfélagsmiðlum með efni sem væri samframleitt fyrir verkefnið. Að öðru leiti er félagið opið fyrir hverskonar liðsinni sem eykur líkur á góðri niðurstöðu úr sölu Rauðu Fjaðrarinnar.

Með góðri kveðju og þakklæti fyrir farsælt samstarf og velvilja í áranna rás.

Sigþór Unnsteinn Hallfreðsson
Formaður