Anna María Kristjánsdóttir

Siggi_Og_Anna_Mara

„Lions Hjón“

Mín fyrsta minning um Lions er af jólaballi á Hótel Höfn, og er það mjög ljúf minning um jólatré, góðar kökur, fullorðna fólkið að drekka kaffi og spjalla saman og við krakkarnir að dansa í kringum jólatréð.  Þetta er minnig sem vekur upp góðar tilfinningar, og finnst mér ég vera heppin að fá að upplifa þetta en pabbi var Lionsmaður á með við bjuggum á Hornafirði.  Í dag er maðurinn minn í sama klúbb og pabbi var í og ég ein af stofnfélögum í nýjum kvennaklúbb Kolgrímu hér á Hornafirði, og er ég afar stolt af því. 

Fyrir rúmu ári síðan þá man ég að ég var að lesa Lionsblaðið yfir öxlina á Sigga og las þar dánartilkynningu og ég man að ég hugsaði að ég vildi óska þess að vera hluti af félagsskap sem þessum þar sem eftir því væri tekið ef ég væri ekki til staðar, mér fannst þetta svo mikil virðing að vera minnst svona af félögunum eftir að vera fallinn frá. 

Klúbburinn minn er nýr og erum við enn að slípa starfið til, en í mínum huga snýst það að vera í Lions um það að vera í góðum félagsskap og eignast nýja vini og strykja vinabönd sem fyrir voru, því allt snýst þetta um félagsskapinn og að gera gott í þágu samfélagsins bæði nær og fjær. Mér finnst gott að hugsa til þess að ég geti gefið af mér til þeirra sem minna mega sín á sama tíma og ég styrki mig sjálfa félagslega og andlega. 

Við erum nú að sigla inn í fyrsta fulla starfsár Kolgrímu og hef ég tekið að mér starf formanns þetta árið og hlakka ég mikið til en auðvitað fylgir smá kvíði líka en þar sem ég veit að ég er að fara að starfa með góðum konum sem standa þétt við bakið á mér þá veit ég að þetta verður gott ár og við höfum margt nýtt og skemmtilegt á prjónunum sem við vonum að eigi eftir að mælast vel fyrir hjá okkar félögum.  Því að það er ekki stjórnin sem myndar klúbbinn heldur allir félagarnir sem ein heild.   Ég vona að við náum að fjölga enn í hópnum okkar í vetur því að það er minn draumur að fleiri ungar konur gangi í klúbbinn til að hann verði sem fjölbreyttastur.

Anna María Kristjánsdóttir Lkl Kolgrímu.