Ekki missa af neinu hjá Lions og skráðu netfangið þitt á póstlistann.
Fylgdu okkur á facebook
- Styrkja LCIF
- Um Lions
- Klúbbar
- Verkefni
- Minningar
- Lionsbúðin
- Fræðsla
- Lionssalurinn
- Lionsþing 2025
Ólafsvík verður miðstöð þinghaldsins og mun mannlíf bæjarins og næsta nágrennis að mestu leiti snúast um það. Fundarhald verður í Íþróttahúsi Snæfellsbæjar og safnaðarheimili Ólafsvíkurkirkju, skólar verða í grunnskóla Snæfellsbæjar í Ólafsvík. Allar þessar byggingar eru á sömu torfunni svo að ekki tekur nema 2-3 mínútur að ganga á milli húsa.
Kynningarkvöldið verður með hefðbundnu sniði að hætti Snæfellinga, á þinginu sem Ólsarar héldu 2007 var kynningarkvöldið í aflagðri fiskverkun á hafnarsvæðinu. Að þessu sinni höfum við ákveðið að flytja okkur til og höfum við fengið sal sem er einnig á hafnarsvæðinu en býður ekki síður upp á möguleika til að skemmta fólki. Gert er ráð fyrir lifandi tónlistarflutningi og ljúffengum veitingum sem bera þess merki að Ólafsvík er útgerðarbær.
Farið verður með maka í skoðunarferð laugardaginn 26. apríl um Snæfellsbæ en þar er margt að sjá og upplifa. Við gerum ráð fyrir að ferðin verði óvissuferð og því verður ekki gefið upp hvert verður farið, hvar verður áð eða hvað verður til skemmtunar í ferðinni. Makar þingfulltrúa eru velkomnir í ferðina, frítt er í ferðina fyrir þá.
Lokahófið verður haldið í Klifi, félagsheimilið Klif er eitt glæsilegasta félagsheimili landsins. Boðið verður upp á glæsilegan hátíðarkvöldverð og dansleik.
Í Ólafsvík eru fjögur hótel og gistiheimili: North star hótel, Við hafið, Welcome apartments og Bikers Paradise. Á Hellissandi og Rifi sem eru í um 7 mínútna akstursfjarlægð eru 2 til viðbótar, The Freezer hostel og Hótel Hellissandur. Samtals bjóða þessir staðir upp á gistingu fyrir um 230 manns. Í Staðarsveit og Breiðuvík sem eru rétt hinum megin við Fróðárheiði eru 9 hótel og gistiheimili sem bjóða upp á gistingu fyrir um 535 manns, má þar m.a. nefna Hótel Búðir, Hótel Hellnar, Kast guesthouse og Langaholt. í Grundarfirði sem er í 20 mínútna fjarlægð er hótel og fjöldi gistiheimila.
Til viðbótar við hótel og gistiheimili er mikið framboð af heimagistingu og svo er frábær aðstaða bæði á Hellissandi og í Ólafsvík fyrir tjöld, vagna og hjólhýsi.
Snæfellsnes hefur upp á margt að bjóða, afþreyingu og skoðun hverskonar. Ber þar fyrst að nefna Snæfellsjökul, kórónu Snæfellsness, svo fagran að annað þótti ótækt en að stofna um hann þjóðgarð. Þjóðgarðurinn var stofnaður 28. júní 2001 og þykir hann um margt merkilegur vegna sérstöðu svæðisins í jarðfræði og landmótun. En áhugaverðir staðir innan hans auk Snæfellsjökuls eru td. Arnarstapi, Djúpalónssandur, Dritvík, Gufuskálar, Lóndrangar, Saxhóll og Þúfubjarg. Miklir möguleikar eru til útivistar á svæðinu.
Ýmis söfn og sýningar eru í Snæfellsbæ svo sem Pakkhúsið í Ólafsvík, Gestastofa Þjóðgarðsins á Malarrifi, Sjóminjasafnið og Þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi og að sjálfsögðu Frystiklefinn á Rifi en hann er atvinnuleikhús og suðupottur alls kyns snilldarverka og tónleikahalds í bland við annað viðburðahald. Kirkjur Snæfellsbæjar eru sex talsins, á Staðarstað, Búðum, Hellnum, Brimilsvöllum, Ingjaldshóli og Ólafsvík. Ólafsvíkurkirkja er nokkuð sérstök í útliti en úr lofti er hún í laginu eins og flattur fiskur, Ingjaldshólskirkja er talin elsta óbreytta steinsteypta kirkja í heimi og er friðlýst. Gaman er að skoða hana ásamt þeim fjölmörgu áhugaverðu gripum sem eru í eigu hennar.
Ýmsu er hægt að kynnast á Snæfellsnesi. Hér er einna styðst í hvalaskoðun á landinu en boðið er upp á slíkar ferðir frá Ólafsvík. Einnig er hægt að fara í ógleymanlegar siglingar um innanverðan Breiðafjörð þar sem fjölbreytt náttúra eyjanna og fuglalíf eru skoðað, en við Breiðafjörð eru hafernir flestir á Íslandi. Víða við ströndina má sjá seli flatmaga í fjörunni og fuglalíf er fjölbreytt.
Möguleikar til útivistar eru miklir á Snæfellsnesi, ber þar fyrst að nefna ferðir á Snæfellsjökul, gönguleiðir innan þjóðgarðsins og utan eru fjölmargar og af öllum gerðum þannig að allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Rauðfelldargjá í Breiðuvík er eitthvað sem allir þurfa að skoða og eins er það mikil upplifun að heimsækja Vatnshelli. Þá eru möguleikar á stangveiði miklir á Nesinu þar sem sumar af bestu ám og vötnum landsins eru staðsett.
Fjórir 9 holu golfvellir eru á Snæfellsnesi, í Ólafsvík, í Grundarfirði, í Stykkishólmi og í Staðarsveit.
Sundlaug er í Ólafsvík og er stutt síðan hún var mikið endurbætt. Einnig er nýendurnýjuð útilaug á Lýsuhóli en hún er heilsulaug. Hestaleigur eru víða í Snæfellsbæ. Sjóminjasafn er að finna á Hellissandi, safnið er í uppbyggðri þurrabúð þannig að þar sést vel hvernig sjómennirnir bjuggu. Ýmis önnur söfn er að finna í sveitarfélaginu.
Allir fullgildir Lionsfélagar, þótt þeir séu ekki kjörnir þingfulltrúar, eiga rétt á setu á umdæmis- og fjölumdæmisþingi sem áheyrnarfulltrúar.
Við bjóðum því alla Lionsfélaga velkomna á þingið, Lionshátíðina og einstaka viðburði.
Sjáumst heil í Ólafsvík dagana 25. - 27. apríl 2025
Lionsklúbbur Ólafsvíkur og Lionsklúbburinn Rán
Lionsklúbbur Álftaness býður Lionsfélaga og gesti velkomna á árlegt þing Lionsfjölumdæmis 109 og Lionsumdæmis 109 A og B sem haldið verður á Álftanesi dagana 10. til 12. maí 2024. Lionsklúbbur Álftaness annast þingið með hjálp Lionsklúbbsins Seylu sem er Lionsklúbbur kvenna hér að nesinu. Þingið, sem er númer 69 í röðinni, fer fram í Íþróttamiðstöðinni á Álftanesi og í Álftanesskóla. Þar eru ágætar aðstæður til þinghalds og veisluhalda, nóg pláss og margar vistarverur.
Lionsfólk er hvatt til að tryggja sér gistingu á höfuðborgarsvæðinu sem allra fyrst, reynslan sýnir að betra er að vera þar í fyrra fallinu.
Dagskrá liggur fyrir hér á heimasíðunni ásamt upplýsingum um þingið og þingstörfin. Það auðveldar væntanlegum þingfulltrúum að fylla út skráningareyðublað og kjörbréf. Mikilvægt er að eyðublöðin séu vandlega útfyllt því þau liggja til grundvallar öllu skipulagi þingsins. Þinggjaldið er að þessu sinni 5.000 krónur.
Þingið verður sett í íþróttamiðstöðinni og mun bæjarstjóri Garðabæjar, Almar Guðmundsson, ávarpa þingfulltrúa og gesti. Ef veður leyfir verður gengið í skrúðgöngu um nágrennið.
Verið er að skipuleggja afþreyingu, meðal annars skoðunarferð með leiðsögn fyrir maka þingfulltrúa. Við munum vanda til makaferðarinnar, setja saman skemmtilegt kynningarkvöld og hafa hátíðlegt og fjölbreytt lokahóf.
Sérstakur gestur Lionshreyfingarinnar, Pirkko Vihavainen alþjóðastjórnarmaður frá Finnlandi mun bera boðskap alþjóðaforseta Lions til þingsins. Auk þess verða gestir frá öllum norðurlöndunum.
Gestur Lionsklúbbs Álftaness verður Dr. Katrín Þórarinsdóttir yfirlæknir gigtardeildar á Landspítalanum en hún hefur óskað eftir stuðningi Lionshreyfingarinnar við gigtarrannsókir á Íslandi. Hugmyndin, sem er í mótun, er að búa til "Center of Excelence" fyrir rannsóknir á sjálfsónæmissjúkdómum , þ.m.t. sóragigtar, iktsýki og skyldra sjúkdóma. Vegna smæðar landsins og sterkra innviða hafa Íslendingar einstakt tækifæri til að leggja hér sitt af mörkum og það mögulega á heimsvísu. Katrín mun kynna málið á þinginu.
Þinginu lýkur að venju með Lionshátíð á laugardagskvöldinu. Hún er opin öllu Lionsfólki jafnvel þó það hafi ekki skráð sig sem þingfulltrúa. Aðgangur að kynningarkvöldinu á föstudaginn er einnig opið fyrir alla.
Hvað Álftanesið sjálft varðar, þá var það áður sjálfstætt sveitarfélag en sameinaðist Garðabæ árið 2013. Hér búa vel á þriðja þúsund íbúa og uppbygging íbúðarhúsnæðis er hröð um þessar mundir. Þjónustan er borin uppi af Álftanesskóla, leikskólunum Krakkakoti og Holtakoti, Tónlistarskóla Garðabæjar, Álftaneslaug, golfvelli Golfklúbbs Álftaness, reiðhöll hestamannafélagsins Sóta, íþróttamiðstöðinni, skátahúsinu og Litlakoti, sem hýsir aðstöðu eldri borgara. Nesið hefur upp á margt að bjóða sem áhuga vekur. Það er þekkt fyrir að vera mikil náttúruparadís, útsýni er mikið og fagurt, bjartar tjarnir og auðugt fuglalíf. Hér er viðkomustaður margæsarinnar vor og haust. Nesið er kjörið til útivistar, gönguleiðir margar, víðátta mikil og heillandi fjara. Herminjar eru nokkrar við Breiðabólstaði og á Garðaholti.
Á nesinu eru Bessastaðir eins og allir vita, bústaður forseta Íslands og fyrrum aðsetur Bessastaðaskólans. Þar eru m.a. Bessastaðastofa (1766) og Bessastaðakirkja (vígð 1796). Á Bessastöðum hafa verið grafnar upp merkar fornminjar og mikil saga er við hvert fótmál.
Lionsklúbbur Álftaness, sem verður 40 ára á næsta ári, telur það mikinn heiður að fá að standa að Lionsþinginu að þessu sinni og mun gera allt til að vel takist til. Þingið er eins konar árshátíð Lionshreyfingarinnar hér á landi, hreyfingar sem á sér merkar hugsjónir sem speiglast í hinum geðþekku einkunnarorðum, "Við leggjum lið".
Stöndum saman Lionsmenn, karlar og konur, mætum á þingið, kynnumst, fræðumst og skemmtum okkur saman á Álftanesi 10. til 12. maí. Verið öll hjartanlega velkomin til okkar á nesið græna!
F.h. Lionsklúbbs Álftaness
Þorgeir Magnússon