_Umdæmi 109B

benni_nBenjamín Jósefsson umdæmisstjóri

Nú þegar nánast sjö mánuðir eru liðnir af starfsárinu, þá er ekki hægt að segja annað en að ég hafi gert víðreist. Þegar þetta er ritað hef ég heimsótt 28 klúbba og 2 deildir, ég á eftir að heimsækja níu klúbba og eina deild. Þó ég hafi verið mikið á ferðinni vil ég ekki meina að ég hafi verið mikið úti að aka, enda ekki búinn að keyra nema uppundir 14.000.- kílómetra það sem af er. Þetta hefur verið afar gaman og móttökurnar hafa verið frábærar, heimsóknirnar eru það skemmtilegasta við starfið, hins vegar þarf maður að passa sig því að veitingarnar eru ekki skornar við nögl og það er það hættulegasta í starfinu. Það hefur verið gaman að upplifa gleðina og kraftinn í starfsemi klúbbanna og fá innsýn í hvað klúbbarnir eru að gera, því þeir eru jafn ólíkir og þeir eru margir.

Kjörorð mitt þetta starfsár er „Verum sýnileg í Lionsstarfi“ Þá á ég við að við verðum að vera dugleg að koma verkum okkar á framfæri í gegnum fjölmiðla, þvi að það skapar kynningu á hreyfingunni og þar með verður léttara fyrir okkur að afla nýrra félaga. Það er mín einlæg skoðun að öll þau góðu verk sem Lionsklúbbarnir eru að vinna á heimasvæði sínu gefi jákvæða ímynd af hreyfingunni og það léttir okkur lífið í verkefnavinnunni.

Ég vil hvetja klúbba til þess að huga vel að félagafjölgun þessa síðustu fimm mánuði starfsársins og að vera duglegir að skila inn mánaðarskýrslunum því þær eru mikilvæg heimild um félagafjöldann á hverjum tíma.

Benjamín Jósefsson
Umdæmisstjóri 109 B
Starfsárið 2010 - 2011