Félagsstarfið

Reglulegir fundir klúbbsins hafa verið með hefðbundnum hætti  allt frá upphafi.  Upphaflega voru tveir fundir í mánuði annan og fjórða mánudag hvers mánaðar Fyrir nokkrum árum varð breyting á þessu og nú er einn reglulegur fundur sem er annan mánudag hvers mánaðar. Auk reglulegs fundar hefur almennt verið stefnt að óformlegri samveru félaganna í hverjum mánuði. Algengast er að fundir séu haldnir í Lionsheimilinu en stöku sinnum er breytt til og fundir haldnir á hinum ýmsu veitingahúsum borgarinnar. Þá hefur jólafundurinn nokkur undanfarin ár verið haldinn á heimili klúbbfélaga sem aukið hefur á jólastemninguna. Fastur liður í vetrarstarfinu er þorrablót félaga og gesta þar sem jafnan ríkir gleði og gaman.

Vorferðalög hafa verið fastir liðir gegnum tíðina og hefur verið farið víða um land. Í einni slíkri vorferðferð orti Ína Halldóra Jónasdóttir:

Létt er í Lionskonum,
loksins er komið vor,
með vaknandi þrám og vonum
sem eykur þeim kjark og þor.

Lánið við okkur leikur
leiðin er ekki löng.
Ferðar við skulum njóta
frjálsar við leik og söng.

Skemmtilegu vorferðalög innanlands nægðu þó ekki öllum. Þann 19. október 2000 lögðu 19 Engeyjarkonur af stað í víking til Skotlands og stefnan var sett á Edinborg. Síðan hefur verið farið til Prag, Madrid, Berlínar og Parísar.  

Í ársbyrjun 2008 var stofnaður sérstakur ferðaklúbbur innan klúbbsins sem gengst fyrir ferðum auk ferða á vegum ferðanefndar Engeyjar. Fyrsta ferð nýstofnaðs Ferðaklúbbs var helgarferð austur fyrir fjall og var þá gist og kvöldverður snæddur á Hótelinu Rangá.  Í október 2008 var farin helgarferð til Montreal í Kanada og í nóvember 2009 var farin aðventuferð til Wiesbaden. Einnig má geta þess að klúbburinn hefur gengist fyrir gönguferðum. Ferðir ferðaklúbbsins hafa verið vel heppnaðar þannig að ætla má að framhald verði á starfsemi hans.