Ekki missa af neinu hjá Lions og skráðu netfangið þitt á póstlistann.
Fylgdu okkur á facebook
- Styrkja LCIF
- Um Lions
- Klúbbar
- Verkefni
- Minningar
- Lionsbúðin
- Fræðsla
- Lionssalurinn
Ágætu félagar um land allt.
Enn hækkar sól á lofti og Lionsfélagar fara að taka á móti sumri og sól. Þannig byrjaði ég grein sem birtist í næsta Lionsblaði. Það er runnin upp sá mánuður sem Lionsstarfsárið er á enda. Svo er einnig með starf mitt sem Fjölumdæmisstjóra Lionshreyfingarinnar 2012 2013 en því líkur 30. júní 2013. Þetta er því tólfti og síðasti pistill minn sem Fjölumdæmisstjóri.
Hvað segir maður að leiðarlokum þessa einstaklega skemmtilega starfs innan Lions? Fyrst og fremst er það þakklæti til Lionsfélaga fyrir það að hafa gefið mér tækifæri til að þjóna hreyfingunni þetta starfsár. Þakklæti til allra sem veittu mér aðstoð sína af ómældu örlæti, miklum fróðleik og fórnfúsum vilja til að hjálpa mér við að leysa þau verkefni sem fyrir lágu eins vel og kostur var hverju sinni. Þar nefni ég engin nöfn en þeir eiga sem vita. Hafið þökk fyrir allt ykkar góða starf.
Það er von mín og vissa að Lionshreyfingin mun eflast og dafna með hverju árinu sem líður. Innan Lions er vettvangur til að mynda góð vinatengsl, upplifa góðar stundir og ekki síst með þátttöku sinni að koma góðu til leiðar í krafti þess góða orðspors sem Lions hefur meðal þjóðarinnar. Við söfnum og styðjum, við gleðjumst og fögnum, við fræðumst og leggjum góðum málum lið. Við erum Lions.
Þá er þingunum okkar lokið þetta starfsárið. Fjölumdæmisþingið sjálft var hefðbundið, engin átök um stefnu eða lagabreytingar. Það var þó sett fram tillaga um að þingin 2016 og 2017 yrðu haldin á höfuðborgarsvæðinu. Þar sem við Lionsmenn ákveðum jafnan þinghald tvö ár fram í tímann var þetta sett fram og minnt á þingsamþykkt frá 2002 um að þing skulu haldin að jafnaði þriðja hvert ár á höfuðborgarsvæðinu. Árið 2017 verður alþjóðahreyfing Lions 100 ára og verður því afmælisþing af þessu tilefni og tilhlýðilegt að Fjölumdæmi 109 verði þá þinghaldarar. Annað sem var gaman að standa að á þinginu var að afhenda séra Hildi Eir Bolladóttur gjafabréf að upphæð kr. 500.000- sem er styrkur frá Hjálparsjóð Fjölumdæmis 109 í söfnunarátak kirkjunnar. Við Lionsfélagar skiljum það kannski manna best hvað það er dýrmætt ef vel er tekið í safnanir til ákveðinna verka en í þessu tilfelli er söfnun kirkjunnar beint til kaupa á línuhraðli fyrir LSH en það var einmitt fyrir fyrsta línuhraðli á landinu sem Lionsmenn stóðu fyrir söfnun á, undir merki Rauðu fjarðarinnar. Ég vil geta þess hér að söfnun til Grensásdeildar var einnig mjög ánægjulegt verkefni en því lauk hinn 31. maí með afhendingu gjafabréfs fyrir tækjum að verðmæti kr. 2,5 milljón.
Það var eitt af verkefnum þessa starfsárs að koma á fót alíslenskri viðurkenningu innan samtaka okkar. Viðurkenningu sem við berum virðingu fyrir og sem við getum með veitingu hennar, þakkað framlag góðra félaga, sem með óeigingjörnum hætti hafa í gegnum langa tíð lagt fram tíma sinn, krafta og vinnu til eflingar því góða starfi sem Lions stendur fyrir í samfélagi okkar.
Við veitingu Kjaransorðunnar sem nú er komin til með að vera, hafði ég kost á því að hitta fyrir þá forystumenn fyrri ára sem með störfum sínum og elju settu sín spor á hreyfinguna. Það var í öllum tilfellum ánægjuleg stund og það sem allir höfðu á orði ,, Mikið þykir mér vænt um að vera ekki alveg gleymdur. Það að fá að taka þátt í því að veita þessum félögum smá þakklæti fyrir þeirra mikla og góða starf innan Lions, verður örugglega sterkasta minning mín, þegar amstur hversdagsins fer að feykja burtu mörgum og ljúfum minningum frá þessu starfsári mínu innan Lions sem senn er á enda. Það er hér grein inn á lions.is þar sem greint er frá þeim félögum okkar sem hlutu tilnefningu um Kjaransorðuna og vísa ég í hana en tel ekki hér upp nöfn þeirra. Ég ítreka hamingjuóskir mínar til þeirra níu félaga sem fengu Kjaransorðuna í fyrstu umferð. Þeir voru allir vel að henni komnir og megi þeir vel njóta.
Nú þegar ég er kominn á þann stað að senda ykkur í síðasta sinn pistil inn á lions.is sem Fjölumdæmisstjóri eru það einungis góðar og skemmtilegar minningar sem ég geymi í huga mér frá þessu starfsári, ánægjulegar stundir voru margar og gleði yfir því að hafa átt þess kost að taka að mér þetta feikilega skemmtilega starf. Ég vona að mér hafi tekist að stýra fram hjá boðaföllum og koma hreyfingunni jafn góðri fyrir höfðann eins og þegar ég tók við henni og að ég hafi ekki valdið vonbrigðum með það sem ég hef haft fram að færa í þessu embætti. Allavega gerði ég mitt besta á hverjum tíma þó svo að ég hefði viljað gera enn betur á öllum sviðum, þá leið tíminn úr greipum mér og starfsárið líka.
Öllum viðtakandi stjórnum og embættismönnum hreyfingarinnar næsta starfárs óska ég velfarnaðar á vegum lífsins og í Lionsstarfi. Verðandi Fjölumdæmisstjóra, Benjamín Jósefssyni óska ég alls hins besta á komandi starfsári svo og öllum sem með honum munu starfa í Fjölumdæmisráði.
Kæru vinir og félagar. Það var mér heiður og heilmikil áskorun að taka að mér þetta embætti. Ég met það mikils að hafa verið trúað fyrir hreyfingunni okkar, starfsárið 2012 2013.
Lesandi góður!
Hafðu þökk fyrir að lesa þessar hugrenningar og megir þú njóta ríkulega uppskeru starfa þinna innan Lions.
Spor okkar eru fræ framtíðar,
Með kveðju,
Kristinn G. Kristjánsson
Fjölumdæmisstjóri 2012 - 2013
Ágætu félagar um land allt.
Ég vil byrja á að óska öllum gleðilegs sumars, öllu því fólki sem ég hef átt samstarf við innan Lions þetta starfsár, þakka ég fyrir veturinn. Megi öll þau góðu kynni og jafnframt sá Lionsandi sem ég hef svo ríkulega fundið fyrir vera með okkur öllum um ókomin ár.
Þegar þessi orð eru sett á skjáinn er kominn 1. maí. Þó starfsári okkar Lionsfélaga sé ekki lokið fyrr en 30. júní er það viðtekin venja að lokafundir klúbba eru jafnan í maí. Því eru allar stjórnir og embættismenn að ganga frá uppgjöri og líta yfir störf og árangur vetrarins. Ég hef sent skýrslu mína til birtingar með þinggögnum og nú streyma í hús skýrslur embættismanna. Ég mun því ekki setja í þennan pistil neitt um þau verkefni sem hafa verið á dagskrá, munu verða og eða lokið er. Margt af því sem gert hefur verið á þessu starfsári hefur verið sagt frá í fyrri pistlum eða komið fram í skýrslum embættismanna og í fundargerðum.
Þetta er ellefti og þar með næst síðasti pistillinn sem ég mun senda frá mér sem Fjölumdæmisstjóri. Og ef satt skal segja hefur þetta ár liðið með leifturhraða. Ég hef á hverjum degi reynt að festa hönd á það sem gera þarf, það sem hefði verið gaman að gera, og þá ekki síður það sem mig hefði langað til að gera, en stundum finnst mér eins og tíminn skilji mig eftir og allt það sem ég vildi hafa gert varð eftir og komst ekki á dagskrá.
Nú um aðra helgi höldum við Lionsfélagar, okkar 58. Fjölumdæmisþing. Ég þekki nokkuð til undirbúnings slíkra þinga þar sem ég fyrir alllöngu síðan, var í hópi þeirra sem stóðu að þinghaldi. Ég man að þetta krafðist mikils undirbúnings en nú er ég að sumu leyti hinu megin borðs. Nú kem ég að því sem yfirstjórn hreyfingarinnar þarf að gera til undirbúnings þinghalds. Þar er ekki síður verk að vinna. Því sendi ég öllum þeim mörgu félögum sem lagt hafa fram mikið starf við undirbúning þingsins, mínar einlægustu þakkir fyrir allt þeirra mikla framlag í þágu Lions. Þingið okkar verður án efa skemmtilegt, fróðlegt, glæsilegt og mun efla og styrkja alla þá Lionsfélaga sem eiga þess kost að upplifa það.
Ég vænti þess að Lionsfélagar í klúbbum á Norðurlandi, ekki bara viðtakandi stjórnir, heldur félagar frá öllu Norðurlandi komi á þingstað og þá kannski bara á laugardeginum eða mæti á kynningarkvöldið á föstudeginu og hitti þar fyrir félaga frá öllu landinu. Maður er manns gaman og að upplifa kraftinn sem hreyfingin okkar býr yfir kemur ekki hvað síst fram á þingum okkar. Það er eftirvænting í loftinu frá öllum þeim mörgu Lionsfélögum sem ætla að sækja Akureyri heim og vera í skólum og á Umdæmis- og Fjölumdæmisþingum Lions á Akureyri 10. og 11. maí n.k.
Á síðasta vetrardag var haldinn sameiginlegur fundur Umdæmisstjórna- og Fjölumdæmisráðs. Þetta var fundur þar sem félagar úr þessum stjórnum hittast til að eiga saman notalegt kvöld og þakka samstarfið í vetur. Á svona fundum er oft rætt óhefðbundið um Lionsmálefni og geta skapast góðar umræður manna á milli, jafnvel svo að þar séu lögð drög að verkefnum og félagsstarfi sem verði til að efla og styrkja hreyfinguna.
Framundan eru lok ýmissa verkefna, má þar nefna heimsókn á Grensásdeildina sem fyrirhuguð er 31. maí og varður þar afhent gjafabréf vegna klúbbaátaks til söfnunar fyrir Grenásdeild. Einnig er fyrirhugað að færa þjóðkirkjunni gjafabréf á þinginu okkar í tilefni af landsátaki þeirra til eflingar á tækjakaupum fyrir LHS.
Lesandi góður!
Hafðu þökk fyrir að lesa þessar hugrenningar og megir þú njóta ríkulega uppskeru starfa þinna innan Lions.
Kristinn G. Kristjánsson
Fjölumdæmisstjóri 109
Ágætu félagar um land allt.
Það fer ekki hjá því að nú er farið að vora og páskahelgin senn á enda. Þessa síðustu daga mars mánaðar hefur nokkur fjöldi Lionsfélaga tekið á móti alþjóðaforseta Lions, Wayne Madden og Lindu konu hans. Þau komu til landsins 28. mars og fara héðan í fyrramálið, 2.
Alþjóðaforseti Wyane A. Madden, kona hans Linda, Thelma Rós Kristins- dóttir, Aðalheiður Dúfa Kristinsdóttir og Kristinn G. Kristjánsson fjölumdæmisstjóri. Vagninum er barnabarn Kristins og Dúfu. |
apríl. Ég hygg að enginn alþjóðaforseti Lions, ásamt eiginkonu, hafi dvalið jafn lengi í heimsókn sinni til Íslands og Wayne hjónin. Hann hafði á orði að sem barn hafi hann lesið sögu Jules Verne, ,,Ferðin til miðju jarðar og þar með hafi hann alltaf vitað um Ísland. Það var því ósk hans að fá að sjá þennan hluta jarðar sem heitir Snæfellsjökull. Það var því ákveðið að taka páskadag til ferðar fyrir jökul og hitta í leiðinni Lionsfélaga á Snæfellsnesi. Dagskrá þessara sex daga var kynnt Lionsfélögum inn á lions.is. Þessir dagar voru mjög ánægjulegir og vona ég að alþjóðaforsetahjónin hafi notið þeirra. Ég held að heimsóknin hafi tekist í alla staði hið besta. Þau hjón báðu um kærar kveðjur til allra Lionsfélaga á Íslandi og óskuðu þeim velfarnaðar.
Hinn 2. mars var haldinn fundur í Fjölumdæmisráði Lions. Þessi fundur var haldinn á Hótel Sögu þar sem Lionsheimilið okkar var í útleigu. Ég vil hér þakka Herði Sigurjónssyni, kynningarstjóra okkar sérstaklega fyrir að greiða götu okkar og get þess hér að á meðan við leigðum út salinn í Lionsheimilinu, greiddum við ekkert fyrir aðstöðuna fyrir fundinn okkar (alltaf að vera hagsýnir, við Lionsmenn). Þessi fundur tókst að flestra mati mjög vel, þó kom fram að betra hefði verið að hafa færri málefni til fyrirtöku og vera þess í stað með tvo fundi, svo betur mætti fara í einstaka mál og þá einnig mál sem efst væru á baugi. Þetta er mál sem viðtakandi Fjölumdæmisstjórn gæti hugað að, t.d. að skipta málefnum innan Fjölumdæmisráðs á tvo fundi með eins mánaðar millibili. Að koma vel undirbúinn á fund og hafa lesið allar skýrslur sem á að taka fyrir gefur miklu betra færi á að fundirnir skili árangri. Síðan er alltaf sú kvöð á stjórnendum að fylgja málefnum eftir en láta þau ekki daga uppi í umræðu og aðgerðaleysi.
Að fá klapp á bakið er gott. Ef einhver leggur sig allan fram og honum finnst sem enginn taki eftir því, eða að öllum sé sama, er ávísun á að hinn sami gefist upp og falli í þann hóp ,,að vera alveg sama. Því er það mikið langt frá því að vera sýndarmennska að veita viðurkenningu og hrós, þeim sem hafa skilað starfi sínu með sóma. Það hefur flogið fyrir að sumum finnist þetta óþarfi en þær raddir eru hjáróma. Við eigum að vera óspör á að láta félaga vita ef þeir hafa staðið fyrir góðu starfi eða gert góða hluti. Mér verður hugsað til svæðisstjóranna allra sem taka að sér eitt skemmtilegasta starfið innan Lions. Klúbbstjórnir þeirra eiga að fylgjast með starfi þeirra og þakka þeim fyrir að hafa tekið að sér þetta starf, því það er heiður fyrir klúbbinn og því ætti klúbburinn að veita þeim sérstakar þakkir. Vissulega fá sumir svæðisstjórar klapp á bakið frá Umdæmisstjóra sínum en ég hygg að það fari alltof oft fram hjá félögum í klúbbnum. Því ætti að þakka svæðisstjórum líka af hálfu klúbbsins að starfsári loknu, t.d. á síðasta fundi starfsársins eða fyrsta fundi þess næsta. Þeir eru að auka hróður klúbbsins og koma fram sem fulltrúar hans.
Í framhaldi af þessum vangaveltum vil ég vekja sérstaka athygli verðandi formanna á reglum um Kjaransorðuna sem birtar voru með síðasta pistli. Lionshreyfingin á Íslandi hefur ekki átt sitt aðalsmerki, sitt aðalstolt, til að gleðja félaga fyrir áralangt, farsælt og mikið starf innan íslensku Lionshreyfingarinnar eða einstakt starf innan klúbbsins. Það eru vissulega gerðar kröfur um að þarna sé vel vandað til orðuveitingar. Í 4. grein í reglunum segir:
Kjaransorðuna má veita íslenskum sem og erlendum einstaklingum fyrir vel unnin störf í þágu íslensku Lionshreyfingarinnar eða einstaklega mikla og góða þjónustu við Lionsklúbb.
Ennfremur segir í 12. og 13. grein:
12. Hámarksfjöldi Kjaransorðuveitinga ár hvert skal vera þrjár, veittar af Fjölumdæmisstjórn og hið mesta fimm, veittar með tilnefningu frá klúbbum.
13. Berist fleiri en fimm tilnefningar frá klúbbum á sama starfsári skal orðunefnd velja þær fimm, sem verðugastar þykja til viðurkenningar á næsta Fjölumdæmisþingi eða á klúbbsamkomu.
Ég vil benda formönnum á að tímamörk eru 30. nóvember ár hvert til að skila inn beiðni um að fá að veita þessa orðu á yfirstandandi starfsári. Það er því rétt að fara að huga að verðugum einstaklingum innan klúbbsins, hafi klúbbstjórnir í hyggju að sækja um leyfi til orðunefndar um að fá að veita þessa orðu. Ég vil undirstrika hér að þessi orða er allt annað og um allt ólík æðstu viðurkenningu Lions innan LCI sem er Melvin Jones viðurkenningin og verður sú viðurkenning aldrei í neinum skugga eða minni metum, þó svo að við hér á Íslandi eigum okkar sérstöku Kjaransorðu sem við getum heiðrað félaga okkar með fyrir einstaka þjónustu við Lions á Íslandi. Á þinginu í vor verður kosinn formaður Kjaransorðunefndar en fyrir þetta fyrsta ár sem orðan er til, var skipuð nefnd sem lætur af störfum nú í sumar.
Formenn góðir! Ef ykkur vantar upplýsingar um Kjaransorðuna eru núverandi Fjölumdæmisstjóri og vara Fjölumdæmisstjóri fúsir til að veita ykkur allar upplýsingar og vera ykkur innan handar á allan hátt.
Ég vil vekja athygli á því að það kann að myndast nokkurra ára bið til að geta fengið leyfi til orðuveitingar ef ásóknin verður mikil. Því er rétt að skoða málið í tíma.
Hafið í huga: Að gleðja, Að hrósa, Að þakka, Að samfagna, Að taka eftir, eru hugtök sem alltaf eru í gildi.
Það var óframfærinn og feiminn Lionsfélagi sem tók að sér að vera svæðisstjóri á svæði 4 endur fyrir löngu. Kannski sinnti hann starfi sínu sæmilega en að loknu starfsári var hann kallaður á svið á þinginu á Akureyri 1991 og veitt viðurkenning. Að félagar hans úr yfirstjórn Lionshreyfingarinnar tækju eftir því og þökkuðu framlag hans til Lions sem svæðisstjóri, yljaði þessum litla Lionsfélaga um hjartarætur. Kannski var það vegna þessa þakklætis félaga hans að hann hafði þor til að taka að sér fleiri störf innan Lions. Kannski var það smá hrós sem til þurfti, en ekki er ég dómbær á eftirleikinn hvort það var gott fyrir hreyfinguna okkar, en nú á þessu vori er þessi sami Lionsfélagi að skila af sér Fjölumdæmisstjóraembætti fyrir hreyfinguna sem honum þykir svo einlæglega vænt um.
Nú er allt á fullu hjá yfirstjórninni að undirbúa lok starfársins. Gera fjárhagsáætlun, undirbúa þingið á Akureyri, huga að verðandi embættismönnum og gera lokaskil fyrir þetta starfsár. Megi okkur öllum vel ganga og bera gæfu til að finna áhugasama og ötula félaga til að halda kyndli Lions á lofti inn í komandi framtíð. Ég set hér inn kjörorð mitt fyrir þetta starfsár sem á að undirstrika að allt sem við gerum getur markað komandi framtíð.
,,Spor okkar eru fræ framtíðar
Lesandi góður!
Hafðu þökk fyrir að lesa þessar hugrenningar og megir þú njóta ríkulega uppskeru starfa þinna innan Lions.
Kristinn G. Kristjánsson
Fjölumdæmisstjóri 109
Ágætu félagar um land allt.
Þessi s.l. febrúarmánuður er búinn að vera mjög stuttur, ekki nemea 28 dagar, alltaf gott veður og vorið farið að kræla á sér. Nú síðustu daga hef ég verið að undirbúa Fjölumdæmisráðsfund sem haldinn verður að Hótel Sögu hinn 2. mars n.k. Það hefur verið sett nokkuð annað form á þennan komandi fund og er tilhlökkun að vita hvernig til tekst. Borist hafa 25 skýrslur þar sem þeir sem setu eiga í Fjölumdæmisráði hafa gert grein fyrir þeim fjölbreyttu störfum sem þeir sinna innan Fjölumdæmisráðs. Síðan var þetta sett upp í eitt stórt skjal (alls 44 bls.) og sent til allra fulltrúa ráðsins. Það er því búið að vinna margra tíma verk þegar fulltrúar mæta á fundinn og hafa eflaust margs að spyrja og eiga vonandi eftir að fræðast mikið um hvað helst brennur á hverjum málaflokki. Meiningin er að fjallað verði síðan efnislega um framlagðar skýrslur, sjá hvað fulltúar hafa í hyggju hvað varðar fjárhagsáætlun og freista þess að fá sýn á það hvar við erum í vanda og hvar betur má gera. Allir sem eru kjörnir eða skipaðir til setu í Fjölumdæmisráði koma þannig til með að hjálpa hverjir öðrum og liðsinna. Síðan vitum við jú, öll sem erum í Lions, að á bak við okkur er stór hópur sem tilbúinn er að leggjast á árarnar þegar blásið er til atlögu um áhugaverð verkefni.
Ég vil í framhaldi af þessu hvetja Lionsfélaga til að fylgjast með því þegar fundargerð þessa fundar verður komin inn á lions.is og allar þessar skýrslur verða þar aðgengilegar.
Nú í febrúar var fyrri hluti leiðtogaskólans haldinn í Munaðarnesi. Ég hef ekki fengið fréttir að þeirri helgi en veit að þar hefur allt gengið vel. Ég hlakka til að mæta sem gestur á seinni hluta skólans og hitta þetta góða Lionsfólk, bæði nemendur og kennara sem hefur lagt sig fram um að gera veg skólans sem mestan og á ég þar bæði við kennara og nemendur.
Hinn 15. febrúar rann út frestur til að bjóða fram til embætta. Klúbbar bjóða fram dugmikla einstaklinga úr klúbbi sínum til þess að gegna embætti annars Umdæmisstjóra, fyrsta Umdæmisstjóra og Umdæmisstjóra til starfa á næsta starfsári. Komið hafa fram tvö framboð til annars Umdæmisstjóra í 109b, þannig að þar stefnir í kosningu sem er hið besta mál. Síðan eru framkomnir einstaklingar sem taka að sér embætti fyrsta Umdæmisstjóra 109 a og b, einnig framboð til Umdæmisstjóra 109a og b. Þá er vöntun á framboðum til annars Umdæmisstjóra í 109a. Einsaklingar bjóða sig fram til embættis Fjölumdæmisstjóra og vara-Fjölumdæmisstjóra. Kominn er fram einstaklingur sem verður sjálfkjörinn í embætti Fjölumdæmisstjóra og tveir hafa gefið kost á sér til embættis vara-Fjölumdæmisstjóra, þannig að þar fer fram kosning sem er líka gott. Laust er embætti Formanns Hjálparsjóðsins og laganefndar. Einnig eru laus embætti sem skipa þarf í af hálfu Umdæmis- og Fjölumdæmisstjóra. Ágætu félagar! Látið vita af ykkur ef þið getið tekið að ykkur, skemmtileg- ögrandi- áhrifamikil- og heillandi störf innan Lions.
Nú í mars verður aðallega tekið til við að vinna fjárhagsáætlun Lionsumdæmisins á Íslandi og undirbúa ýmislegt fyrir þingið á Akureyri. Mörg verkefni eru í fullum gangi og verða það einnig á næsta ári. Síðan eru einnig mörg verkefni sem ljúka þarf fyrir þingið í vor. Eitt af verkefnum sem sett var af stað fyrir nokkru síðan var að ljúka vinnu við reglur um veitingu og útliti á Kjaransorðu hreyfingarinnar. Nú hafa reglurnar farið fyrir nefnd og síðan yfirfarnar í Fjölumdæmisstjórn. Fjölumdæmisstjórn samþykkti fram komnar reglur og útlit orðunnar. Mér er því ljúft og skylt að kynna þessar reglur og birti ég þær hér neðanmáls við greinina eftir að þetta hefur verið kynnt í Fjölumdæmisráði hinn 2. mars 2013.
Lesandi góður!
Hafðu þökk fyrir að lesa þessar hugrenningar og megir þú og klúbbur þinn dafna og þroskast í Lionsstarfi.
Kristinn G. Kristjánsson
Fjölumdæmisstjóri 109
Reglur um Kjaransorðuna >>>>>>