Lionsklúbburinn Rán er einn af þeim klúbbum á Íslandi sem hefur mjög lágan meðalaldur klúbbfélaga þó að við höfum nokkra eldri reynslubolta með okkur. Það gengur mjög vel að fá ungar og ferskar konur í klúbbinn til okkar enda er alltaf líf og fjör á fundum hjá Ránarkonum. Í vetur fengum við Elínborgu Sturludóttur til að vera með erindi sem bar nafnið Konur eru konum bestar og var það alveg yndislegt. Eitt af því skemmtilegasta sem við gerum er að spila bingó með eldriborgurum á sumardaginn fyrsta og nú í ár var engin breyting á en nýverið var tekið í notkun nýtt og glæsilegt dvalarheimili og við ásamt Lionsklúbbi Ólafsvíkur ætlum að gefa heimilisfólkinu hægindastóla svo að það geti nú slakað almennilega á í ellinni. Veturinn hefur verið mjög skemmtilegur og við höfum styrkt mörg góð málefni, svo bíðum við spenntar eftir næsta starfsári. Gleðilegt sumar kæru Lionsfélagar um allt land.