Jóhann Þór

johann thorStundum vakna spurningar í lífinu sem fá mann til að hugsa aðeins út fyrir kassann, svona eins og er í tísku að segja í dag.  Ein af þeim spurningum sem hefur komið upp í huga minn er, af hverju að vera í Lions?

Svarið við þessari spurningu er ekki kannski alveg augljóst, En ekki þarf að grafa lengi til að átta sig á því að svarið við þessari spurningu er (allavega í mínu tilviki) nokkuð margþætt og skemmtilegt.  Ég man mjög vel eftir mínum fyrsta fundi en ég ásamt konu minni fékk boð frá tengdaföður mínum, að mæta á árshátíð hjá Lionsklúbbi Siglufjarðar.  Í fyrstu þá fékk ég vægan hroll, nú af hverju spyrja sig sumir örugglega núna.  Jú í mínum huga var þetta ekki sá félagsskapur sem heillaði ungan mann á þeim tíma, rétt skriðinn í tvítugt og kannski ekki alveg eins þenkjandi og hann er í dag.  En á hátíðina var farið og er skemmst frá því að segja að þetta var það skemmtilegt, að minningin lifir, nú 25 árum seinna, líkt og þetta hafi gerst í gær.

Í Lionshreyfinguna gekk ég samt ekki fyrr en 15 árum seinna, nánar tiltekið á haustmánuðum árið 2000.  Mín sýn á Lions, frá fyrstu stundu, hafði ekkert breyst, félagsstarfið fræðandi, skemmtilegt og ekki síður gefandi. Þetta orð, gefandi, er nefnilega ein af höfuð ástæðum þess að ég gæti ekki hugsað mér, hina líðandi stundu, án Lions.  Það er heldur ekki óskemmtilegt að vera hér á Snæfellsnesinu sem Lionsmaður, því að öðrum stöðum á landinu ólöstuðum þá er hægt að fullyrða að á hvergi á landinu er eins blómlegt starf, á vegum Lions, og hér á nesinu.  Raunar má fullyrða að þetta gildi um allan heiminn, svona miðað við hina margfrægu höfðatölu.

Til marks um það hversu starfið er öflugt þá verður næsta Lionsþing haldið í Stykkishólmi 6. – 7. maí og unglingabúðir Lions, í júlí árið 2011.

 

Jóhann Þór Ragnarsson Lkl. Grundarfjarðar.

Svæðisstjóri svæði 3 109B.