Ekki missa af neinu hjá Lions og skráðu netfangið þitt á póstlistann.
Fylgdu okkur á facebook
- Styrkja LCIF
- Um Lions
- Klúbbar
- Verkefni
- Minningar
- Lionsbúðin
- Fræðsla
- Lionssalurinn
Þriðjudaginn 7. desember héldum við Æsukonur jólafundinn okkar í Hótel Keflavík. Við áttum þar góða, hátíðlega og skemmtilega stund saman. 3ja rétta máltíð var borin fram en inn á milli rétta héldum við dagskrá. Eftir forréttinn, sem samanstóð af lax annars vegar og bayonne skinku hins vegar komu ,,BlómaFróðu“ konurnar okkar, en á þessum fundi voru það þær Ingibjörg Þorsteinsdóttir og Valdís Þórarinsdóttir. Þær fræddu okkur um hengiplöntuna: Brúðarauga – Lobelía og Jólastjörnuna sem sumir kalla Jólarós. Eftir þann fróðleik tókum við lagið við undirleik formannsins Geirþrúðar og sungum saman lagið ,,Yfir fannhvíta jörð“. Yfirþjónninn kom svo til okkar seinna og sagði að hinir gestirnir í húsinu hefðu haldið að hér væri kvennakór á ferð svo flottur var söngurinn.
Þegar alþjóðaforseti var hér á ferð í síðasta mánuði sæmdi hann nokkra lionsfélaga hér á Íslandi bæði orðum og viðurkenningum. Ein af þeim var Geirþrúður Fanney Bogadóttir, formaðurinn okkar, GMT stjórinn í 109 og fyrrverandi umdæmisstjóri. Þar sem hún átti ekki heimangengt kom það í hlut Sigfríðar Andradóttur, en hún var umdæmisstjóri sama ár og Geirþrúður, að afhenda henni orðuna. Voru Æsukonur glaðar og stoltar yfir sinni konu og sögðu að orðan væri sannarlega komin á réttan stað.
Þá var komið að aðalréttinum kalkúnn með sveppajafning ofl. Því næst flutti Guðný Hallgrímsdóttir prestur fatlaðra okkur fallega hugvekju þar sem hún rifjaði upp bernskuárin og minningarnar um afa sinn og ömmu og boðskapinn sem hún lærði þar.
Eftir hugvekjuna mættu í hús þau Marína Ósk sem söng nokkur jólalög í blússtíl með undirleik Mikaels Mána gítarleikara með meiru. Alveg frábært hjá þeim.
Þá kom eftirrétturinn á borðið en það var bakað epli með berjasósu og ís.
Í lokin voru svo afhentir pakkar en að venju komu allar konur með pakka sem var númeraður og konur drógu svo út númer og fengu þann pakka. Við gengum saddar og sælar út í vetrarnóttina endurnærðar eftir þennan jólafund okkar.
Við Æsukonur óskum ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári