Jón Gröndal

jn grndalVið erum Lions ! Góðir vinir sem hjálpa öðrum !

Lions eru  klúbbar fólks, karla og kvenna, um allan heim sem vilja nota hluta frítíma síns til að leggja lið þeim sem  búa við skarðan hlut eða rýrð lífsgæði. Í stuttu máli góðir vinir sem hjálpa öðrum.

Lions félagar starfa saman í 45 þúsund klúbbum í yfir 200 löndum. Stærsta þjónustuhreyfing í heimi. Venjulegt fólk á öllum aldri. Engin leynd er yfir starfi Lionsfélaga og hreyfingin er óháð öllum trúar- og stjórnmálastefnum. Markmið hreyfingarinnar er að skapa góðu fólki vettvang til að hjálpa til innan síns samfélags og sinna alþjóðlegu hjálparstarfi. Leggja lið á erlendum vettvangi í gegnum LCIF alþjóða hjálparsjóð Lions.

Ein af grunnþörfum manna þegar frumþörfunum hefur verið sinnt er að hjálpa þeim sem minna mega sín, okkar minnstu bræðrum og systrum. Um leið og við gerum það skemmtum við okkur saman og eignumst fullt af nýjum vinum og kunningjum. Meðal þess sem við gerum heimafyrir má nefna: skemmtikvöld fyrir aldraða, vímuvarnir, fræðsla og búnaður. Tækjakaup fyrir heilbrigðisstofnanir, fjárstuðningur til ungra tónlistarmanna, íþróttakeppnir fyrir fatlaða, skógrækt og landgræðsla, sykursýkisvarnir svo nokkuð sé talið.

Á erlendum vettvangi styrkjum við myndarlega baráttuna gegn þarflausri blindu, útrýmingu svefnsýki, bólusetjum gegn mislingum og tökum slaginn við sjúkdóma eins og malaríuna.

Lionshreyfingin bæði kostar og sendir sjálboðaliða út af örkinni til að vinna verkin.  Alþjóðlegi hjálparsjóður Lions veitir líka neyðarstyrki þega nátturu-hamfarir verða. Ísland naut góðs af því þegar sjóðurinn lagði mikla peninga til uppbyggingar eftir gosið í Vestmannaeyjum og snjóflóðin á Flateyri. Einnig eftir jaðskjálftana á Suðurlandi.

Fyrst og fremst höfum gaman saman í góðra vina hópi. Lions býður allt gott fólk velkomið sem vill aukna lífsfyllingu og njóta þess að hjálpa öðrum.

 Jón Gröndal, Lkl. Njörður.