Ekki missa af neinu hjá Lions og skráðu netfangið þitt á póstlistann.
Fylgdu okkur á facebook
- Styrkja LCIF
- Um Lions
- Klúbbar
- Verkefni
- Minningar
- Lionsbúðin
- Fræðsla
- Lionssalurinn
Nú er að ljúka sextugasta starfsári Lionshreyfingarinnar á Íslandi en fyrsti klúbburinn, Lionsklúbbur Reykjavíkur, var stofnaður 14. ágúst 1951. Lions...
Nú er að ljúka sextugasta starfsári Lionshreyfingarinnar á Íslandi en fyrsti klúbburinn, Lionsklúbbur Reykjavíkur, var stofnaður 14. ágúst 1951. Lionsfélagar af öllu landinu hafa með margvíslegum hætti fagnað þessum tímamótum undanfarið ár og haldið um leið hátt á lofti merkjum og gildum Lions sem er fjölmennasta þjónustuhreyfing í heimi, stofnuð árið 1917 og er nú skipuð yfir 1,3 milljónum félaga í um 45.000 klúbbum í yfir 200 löndum.
Sjá í Morgunblaðinu 20. apríl 2012
Ísland er eitt af þessum löndum og hér starfa 89 Lionsklúbbar og einn Lionessuklúbbur með um 2.300 félaga. Lions er vettvangur fyrir konur og karla á öllum aldri sem vilja láta gott af sér leiða á sviðum mannúðar og menningar. Við leggjum fjölmörgum verkefnum lið þar sem við tökum til hendinni í orðsins fyllstu merkingu, söfnum fjármunum til kaupa á margvíslegum búnaði, ekki síst fyrir heilbrigðisstofnanir víðs vegar um landið. En um leið og ekki síður erum við félagsskapur fólks héðan og þaðan úr samfélaginu sem nýtur þess samfélags sem er grundvöllurinn að öllu okkar starfi. Við myndum sterk vináttubönd sem fléttast saman í klúbbunum og milli þeirra, hér á landi og um allan heim.
Hver klúbbur leitast við að styðja byggðarlagið sitt en félagarnir taka einnig þátt í verkefnum á lands- og jafnvel heimsvísu. Enda starfrækir alþjóðahreyfing Lions m.a. öflugan hjálparsjóð sem veitir fjármuni til ýmissa fjárfrekra verkefna sem ætlað er að styrkja innviði samfélaga. Það er okkur Íslendingum bæði ánægja og heiður að sjóðurinn hefur nú ákveðið að leggja hátt í 10 milljónir króna til kaupa á augnlækningatæki fyrir Landspítala - háskólasjúkrahús sem Lions færir þjóðinni í tilefni af 60 ára afmælinu. Við sjálf, Lionshreyfingin á Íslandi, söfnum öðru eins því tækið kostar um 20 milljónir króna.
Gjöfin er táknræn því alþjóðlega Lionshreyfingin hefur frá upphafi kappkostað að veita blindum og sjónskertum sérstakan stuðning. Að sama skapi var það Lionsfólki dýrmætur heiður á afmælisári að Blindrafélag Íslands skyldi veita hreyfingunni »Samfélagslampann« í þakklætisskyni fyrir dyggan stuðning í áranna rás.
Í raun má segja að meginhlutverk Lionsfólks sé að virkja samfélagið til þátttöku og stuðnings við samborgara sína sem á þurfa að halda, oft tímabundið en stundum til lengri tíma. Auk þess að standa vörð um blinda og sjónskerta höfum við t.d. unnið að verkefnum sem tengjast annarri fötlun, sjúkdómum, börnum og öldruðum og við vinnum einnig að því að bæta umhverfi okkar, s.s. með skógrækt.
Þannig er Lionshreyfingin ein af driffjöðrum samfélagsins, einn af máttarstólpunum, skipuð samheldnum sjálfboðaliðum sem njóta þess að vinna öðrum til heilla. Fyrir hönd fjölumdæmisráðs færi ég öllu Lionsfólki mínar bestu þakkir fyrir frábært starf undanfarin 60 ár um leið og við minnumst stofnendanna og þeirra sem fallnir eru frá en helguðu þjóðinni krafta sína og starf undir merkjum Lions. Og sérstakar þakkir færum við þjóðinni sem af örlæti sínu hefur stutt Lionshreyfinguna með fjárframlögum og öðrum hætti um áratugaskeið með von um áframhaldandi farsælt samstarf um ókomin ár.
ÁRNI V. FRIÐRIKSSON,
fjölumdæmisstjóri Lions
á Íslandi.