Ekki missa af neinu hjá Lions og skráðu netfangið þitt á póstlistann.
Fylgdu okkur á facebook
- Styrkja LCIF
- Um Lions
- Klúbbar
- Verkefni
- Minningar
- Lionsbúðin
- Fræðsla
- Lionssalurinn
FAST 112 hetjurnar eru verðlaunað fræðsluefni sem ætlað er að auka þekkingu á einkennum heilaslags (heilablóðfalls) og kenna mikilvæga lífsleikni. Verkefnið hófst hér á landi síðastliðið haust og hafa 28 skólar á Íslandi nú tekið þátt í fræðslunni. „Einn af hverjum fjórum má búast við að fá heilaslag á lífsleiðinni og því er til mikils að vinna að þekkja einkenni þess og rétt viðbrögð. Í FAST 112 verkefninu læra börn lífsleikni í gegnum leik og skemmtilegar teiknimyndir og eru svo hvött til að senda ömmu og afa skemmtilegt fræðsluefni um heilaslag og segja frá því sem þau hafa lært. Verkefnið er alþjóðlegt og nýlega birt rannsókn sýnir að efnið skilar sér vel til barna og fjölskyldna þeirra. Það hefur nú þegar leitt til þess að rétt viðbrögð hefur verið beitt í auknum mæli og fleira fólk fengið meðferð á spítala. Rétt viðbrögð bjarga færni og jafnvel lífi fólks,“segir Marianne E. Klinke, verkefnastjóri FAST 112 hetjanna á Íslandi, og bætir við að bæði kennurum og nemendum finnist verkefnið skemmtilegt, sem kemur alls ekki að sök.
Lionshreyfingin styrkir verkefnið um allan heim
Alþjóðlega Lions hreyfingin er einn stærsti styrktaraðili átaksins sem fer nú fram víða um heim, frá Brasilíu, Suður-Afríku og Bandaríkjunum til Úkraínu, Kyrgistan og Þýskalands. Anna Fr. Blöndal, umdæmisstjóri 109B hjá Lionshreyfingunni á Íslandi, segir verkefnið gríðarlega mikilvægt og því sé samtökunum ljúft að styðja við það. „Heilaslag er önnur algengasta orsök dauða og algengasta orsök áunninnar örorku. Góðu fréttirnar eru þær að ef fólk þekkir einkennin og fær strax rétta meðhöndlun þá eykur það líkurnar á því að fólk lifi af og geti haldið áfram lífi sínu án verulegrar skerðingar á lífsgæðum. Það er því til mikils að vinna. Það er okkur sönn ánægja að styrkja FAST 112 hetjurnar hér á Íslandi og börn á aldrinum 5-9 ára sem fá það skemmtilega hlutverk að segja stórfjölskyldunni frá flottum teiknimyndahetjum – og lauma lífsbjargandi þekkingu þannig til allra.“
Styrknum verður varið í að framleiða FAST hetju grímu-buff fyrir börn sem hafa tekið þátt og verðlauna þannig fyrir góða frammistöðu og þakka þeim um leið fyrir að miðla mikilvægri þekkingu!
Mynd, frá vinstri:
Anna Fr. Blöndal, umdæmisstjóri 109B, Þorkell Cýrusson, fjölumdæmisstjóri 109 og Þóra B. Guðmundsdóttir, umdæmisstjóri 109A, afhenda FAST 112 hetjunum styrkinn en á móti honum taka Kristján Nielsen Viðarsson og Sóley Hulda Nielsen Viðarsdóttir. Með á mynd eru FAST 112 hetjurnar Kata kennari og Tómas tímanlegi.