LIONSHREYFINGIN OG MEDICALERT Á ÍSLANDI.

LIONSHREYFINGIN  OG MEDICALERT Á ÍSLANDI.
Hér má sjá alla greinina um Lions og Medicalert á Íslandi passamsvhv Lúðvík Andreasson, formaður MedicAlert á Íslandi. Í október hefur Lionshreyfingin á Íslandi staðið fyrir Alþjóða sjónverndardeginum eins og komið hefur fram í fjölmiðlum undanfarið. Lions á Íslandi hefur um langt árabil styrkt sjónvernd og gefið nokkur tæki í þeirri þágu.  Í nóvember voru Lionsfélagar um allt land með sykursýkismælingar sem gengu mjög vel. Færri vita að Lionshreyfingin hér á landi hefur rekið MEDICALERT sem er sjálfseignastofnun sem starfar án ágóða undir verndarvæng Lions hér á Íslandi. Lionsfélagar vinna við þetta verkefni í sjálfboðavinnu og hafa gert frá upphafi. En hvað er MedicAlert og hvert er hlutverk þess?  MedicAlert – merki sem getur bjargað mannslífum. MedicAlert eru alþjóðleg öryggissamtök, rekin án ágóða, sem veita upplýsingar um merkisbera á neyðarstundu. Í næstum þrjá áratugi hefur Lionshreyfingin annast MedicAlert á Íslandi eða síðan 1985 og nota um 5000 manns á landinu merkið. Það bera nú um 4 milljónir manna í 40 löndum í fimm heimsálfum. Lionshreyfingin vinnur að því að uppfæra og kynna MedicAlert með ýmsum hætti. Afar brýnt er til að mynda að heilbrigðisstarfsmenn, sjúkraflutningafólk og allir þeir sem koma að slysum eða hættuástandi þekki merkið. Einnig kynnum við nú MedicAlert fyrir skólafólki og leggjum við einnig áherslu á að læknar og starfsfólk heilbrigðisstofnana fái upplýsingar um MedicAlert og tilgang þess. Mikil og góð samvinna er hjá MedicAlert á Íslandi og LSH en tölvukerfi þessara eru tengd saman þar sem skrá meðlima er geymd hjá þeim. Tilgangur MedicAlert er að koma á og starfrækja aðvörunarkerfi fyrir sjúklinga með alvarlega sjúkdóma eins og t.d. sykursýki eða ofnæmi, sem af einhverjum ástæðum gætu veikst þannig, að þeir verði ófærir um að gera grein fyrir veikindum sínum og gætu þar af leiðandi átt á hættu að fá ranga meðferð. Aðvörunarkerfið MedicAlert er þríþætt; merki, upplýsingaspjald og tölvuskrá.
  • Í fyrsta lagi er um að ræða málmmerki sem borið er í keðju um háls eða með arbandi um úlnlið og greinir helstu áhættuþætti merkisbera. Til eru mismunandi arbönd og útlit á merkinu.
  • Í öðru lagi fylgir plastspjald í kreditkortastærð fyrir veski þar sem fram koma fyllri upplýsingar um viðkomandi sjúkling, sjúkdómsgreining og eða ábending um meðferð sjúkdómsins.
  • Loks er að finna ítarlegar upplýsingar í tölvuskrá, sem er í vörslu Slysa- og bráðadeildar Landspítalans. Þar er gjaldfrjáls sólarhrings vaktþjónusta fyrir neyðarnúmer MedicAlert.
Skristofa MedicAlert er í Sóltúni 20 í Reykjavík og er síminn þar 533 4567. Heimasíða MedicAlert er www.medicalert.is. Á heimasíðunni má sjá margar mismunandi útfærslu á þeim merkjum sem eru í boði bæði fyrir börn og fullorðna. Umsóknareyðublöð er að finna bæði á heimasíðu og einnig á skrifstofu. Læknir þarf að skrifa upp á umsókn til að staðfesta sjúkdómseinkenni viðkomandi. Medicalert-merki