Lionsklúbburinn fer í heimsókn til Grindavíkur

Lionsklúbburinn Geysir í biskupstungum brá undir sig betri fætinum á aðventunni og fórí opinbera heimsókn til Suðurnesja með sérstaka áherslu á Grindavík.

Ekið var um hinn nýja Suðurstrandarveg og tóku forystumenn Lionsklúbbs Grindavíkur á móti hópnum á mörkum Árnessýslu og Gullbringusýslu. Sérstakur leiðsögumaður var Aðalgeir Johansen vert á veitingastaðnum Bryggjunni.  Sá maður fór gjörsamlega á kostum, enda þekkjandi hverja þúfu og hvern stein í sínum heimabæ. Grindavík er hinn myndarlegasti bær og margt þar að sjá. Saga einstakra húsa og hverfa var rakin. Auk þess var hópurinn fræddur um hin mörgu skipsströnd sem átt hafa sér stað við strönd bæjarins. Staðurinn hefur vaxið jafnt og þétt og eru íbúar um 2.900 talsins. Klúbbfélögum var sýnd fiskvinnsla hjá fyrirtækinu Stakkavík. Það var nýstárlegt fyrir þessa miklu landkrabba. Í Stakkavík er snyrtimennskan greinilega í fyrirrúmi.

Lkl_Geysir_nov_og_des_Stakkavik
Gestgjafarnir í Grindavík sýna Lionsmönnum og mökum þeirra, fiskvinnslu Stakkavíkur.

Dýrindis humarsúpa var snædd á Bryggjunni, þar var saga staðarins rakin ennfrekar í máli og myndum. Haldið var að Stað og þar tekið hús í tilraunafiskeldisstöð Hafrannsóknarstofnunar. Þar er Matthías Oddgeirsson formaður Lionsklúbbs Grindavíkur húsbóndi. Hann leiddi okkur í allan sannleika um starfsemina. Meðal þeirra lífdýra sem þar bar fyrir augu var sandhverfa sem ku vera mjög dýr matfiskur. Þessi starfsemi hefur verið í gangi á þriðja áratug. Eftir að hafa kvatt Grindvíkinga lá leiðin að Ásbrú, gamla svæði bandaríkahers á Keflavíkurflugvelli. Þar heimsótti hópurinn Ragnar Sæ Ragnarsson fyrrum sveitarstjóra Bláskógabyggðar. En hann rekur þarna hið glæsilegasta heilsuhótel. Starfsemina kynnti hann ítarlega. Boðið er upp á tveggja vikna heilsumeðferð sem byggir á andlegri og líkamlegri uppbyggingu auk þess má meðal annars fara í svokallað Detox. Að þessu loknu var snæddur kvöldverður í Hafnafirði og ekið heim á leið yfir Hellisheiði.  Þessi ferð var afar vel heppnuð og minnir okkur á að það þarf ekki alltaf að fara um langan veg til að sjá eitthvað fróðlegt og framandi. Um 25 manns tóku þátt í ferðinni og voru nokkrir makar meðtaldir.

Fyrir hönd Lkl Geysis Kristófer Tómasson