Lionsklúbburinn Muninn var stofnaður 29. apríl 1971

Stofnfélagar voru 23. Nú eru félagar 27 en flestir hafa þeir verið 36. Aðalhvatamaður að stofnun Munins var Friðrik Haraldsson sem var einn af  stofnfélögum Lionsklúbbs Kópavogs 1959. Hann var fyrsti formaður Munins og hefur verið í þeim klúbbi allar götur síðan. Lkl. Muninn hefur meðal annars stutt skátastarf í Kópavogi, Ösp, íþróttafélag fatlaðra og samtökin Vímulaus æska/Foreldrahús. Einnig hafa félagar málað Hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð að utan þriðja til fjórða hvert ár og lagt til málningu með stuðningi frá viðeigandi fyrirtækjum. Fyrir hver jól hafa ein til þrjár fjölskyldur sem vitað var að ættu í erfiðleikum verið aðstoðaðar með fjárframlögum. Í um það bil 30 ár hefur Muninn boðið eldri borgurum í Kópavogi til kirjuferðar á höfuðborgarsvæðinu. Hafa allar kirkjur sem geta tekið á móti að minnsta kosti 100 manns til viðbótar við aðra kirkjugesti verið heimsóttar og sumar oftar en einu sinni. Konur í Lkl. Ýr hafa síðan boðið til kaffidrykkju á eftir. Í samvinnu við Lkl. Kópavogs hefur í mörg ár verið efnt til nýjársfagnaðar fyrir eldri borgara í lok janúarmánaðar. Þátttaka hefur verið allt að 200 manns.

Fjáröflunarverkefni hafa verið mismunandi. Þar til fyrir um það bil 15  árum var gengið í hús í Kópavogi í októbermánuði og ljósaperur boðnar til sölu en ekki er lengur grundvöllur fyrir þeirri fjáröflun. Í nokkur ár var Kópavogsbúum boðin mold til sölu í garða sína og gafst sú leið vel á þeim tíma! Aðalfjáröfun undanfarin á hefur verið sala jóladagatala og fer sala þeirra fram í nokkrum verslunum í Kópavogi án þess að þær þiggi gjald fyrir. Fjáröflun Lionsklúbbsins  Munins eins og allra annarra Lionsklúbba er til þess að styðja góð málefni, aðallega innan bæjarfélagsins. Allt fé sem þannig aflast fer óskipt til góðgerðarmála. Þeir sem ekki þekkja til mála halda að við söfnum peningum handa okkur sjáfum og étum svo drekkum fyrir! Það er mikill misskilningur. Flestir klúbbar eru með tvo fundi í mánuði og sé um matarfund að ræða borgar hver félagi 2000 - 3000 krónur fyrir matinn í hvert skipti og þar að auki árgjald sem er um eða yfir 20.000 krónur á ári.

Lkl. Muninn og Lkl. Ýr keyptu 1990 lagerhúsnæði að Auðbrekku 25-27 og innréttuðu það sameiginlega. Aðalsalurinn getur rúmað allt að 200 manns í sæti. Svo mikið var að gera um tíma við innréttingu að við lá að biðja þyrfti um frí hjá Lions til þess að geta stundað vinnu sína! Lionsklúbbur Kópavogs varð meðeigandi nokkru seinna. Hver klúbbur hefur eigið herbergi til afnota en leigutaki hefur aðalsalinn og eldhús til umráða og sér um fundi klúbbanna  og aðrar samskomur sem þeir standa fyrir.

Í tilefni af 40 ára afmæli klúbbsins verður efnt til tónleika með K.K. í Salnum í Kópavogi. Hagnaður rennur óskiptur til samtakanna Vímulaus æska.