Lkl. Víðarr tekur inn nýjan félaga

Miðvikudagkvöldið 5. febrúar var fundur hjá Lionsklúbbnum Víðarri.  Dagskrárnefnd hafði undirbúið fundinn.  Ánægjulegast var að á fundinum var tekin inn nýr félagi, Þórður Ásgeirsson.  Þórður hefur verið samferða félögunum um nokkra hríð því kona hans Guðríður Thorarensen er félagi í Lkl. Eir sem er systurklúbbur Lkl Víðarrs.

Vidarr_8951Óskar Guðjónsson formaður, Guðmundur S. Guðmundsson varaformaður, Þórður Ásgeirsson nýr félagi með blómvönd til konunar og Örn Vigfússon meðmælandi. Myndin er tekin eftir að varaformaður hafði lesið markmið Lions.

Að lokinni inntökuathöfninni flutti Axel Sigurðsson hjartalæknir erindi, sem hann nefndi "Hjartans mál" og fjallaði um fyrirbyggingu hjarta- og æðasjúkdóma. Rannsóknir sýna að dánartíðni á Íslandi af völdum kransæðasjúkdóma hefur fallið um 70% frá 1970. Orsakirnar eru taldar liggja í breyttum lífsstíl, minna áti á mettuðum fitum sem hefur lækkað kólesterol gildin og hækkað hlutfall hagstæðs HDL móti lækkuðum gildum óhagstæðs LDL, verulegri minnkun reykinga (um 14% fólks nú móti um 64% áður), lækkun blóðþrýstings  og meiri hreyfingu. Hins vegar sé nú veruleg aukning á offitu (um 20%) sem trúlega eigi eftir að skila sér í aukningu annarra sjúkdóma eins og t.d. sykursýki af gerð tvö. Orsökin sé trúlegast aukin inntaka kolvetna í stað fitu til að fá orkuna sem þarf.

Vidarr_8955
Axel Sigurðsson hjartalæknir.

Ráðlegging dagsins sé að neyta sem minnst af unnum matvörum, sem innihalda þá mjög oft óhagstæð kolvetni (hvítan sykur) og óhagstæðar mettaðar fitur (transfitur nú reyndar bannaðar). Hins vegar að borða mest óunnar matvörur, fisk a.m.k tvisvar í viku og þá líka feitan fisk (lax, silung, makríl, o.s.frv.sem inniheldur ómettaðar ómega 3 fitur), heilkorna brauð, svokallað miðjarðarhafs fæði, fiskmeti, olíur og ávexti.

Góðar umræður urðu um málið að loknu erindi Axels.