Saga klúbbsins

Stofnskr_Lionsklbbs_Borgarness-2Á fundi 2. apríl 1957 sem haldinn var að Hótel Borgarnes var Lionsklúbbur Borgarness stofnaður. Móðurklúbbur var Lionsklúbbur Akraness þá ársgamall. Stofnfélagar voru 15. Sigurður Gíslason var fremstur í flokki þeirra manna sem höfðu sýnt því áhuga að stofna klúbbinn og varð hann fyrsti formaður hans. Ásamt Sigurði voru í fyrstu stjórn þeir Hjörtur Magnússon, ritari, Þorkell Magnússon, gjaldkeri og Þórður Magnússon, temjari. Auk stofnfélaga mættu á fundinn fjórir aðkomumenn þeir Magnús Kjaran frv. umdæmisstjóri, Árni Kristjánsson, vara umdæmisstjóri, Albert Guðmundsson umdæmisritari og Jón Ben Ásmundsson ritari Lionsklúbbs Akraness sem var reyndar fæddur og uppalinn Borgnesingur. Starf klúbbsins hefur eins og Jón Eyjólfur Einarsson, sagði í ræðu sem hann flutti á 25. ára afmæli klúbbsins verið tvíþætt, annars vegar starf sem er til góðs fyrir samborgara okkar og hins vegar innra starf klúbbsins, sem miðar að því að gera félagana ánægða og áhugasama klúbbfélaga og samhenta. Síðari þátturinn hefur aðallega verið ræktur með því að hafa klúbbfundi áhugaverða og skemmtilega og eins með því að stofna til skemmtikvölda, skemmtiferða og fleira slíkt. Klúbburinn er sá ellefti í röð Lionsklúbba á Íslandi.

Þann 21. september 1957 var síðan haldinn Stofnskrárfundur en það var áttundi fundur klúbbsins. Þetta var nokkurs konar skírnarathöfn þar sem félagarnir voru formlega teknir í alþjóðasamtök Lionsmanna. Á fundinn mætti þáverandi umdæmisstjóri Einvarður Hallvarðsson og afhenti hann Sigurði Gíslasyni stofnskrána. Stofnskrárfundinn sóttu, auk umdæmisstjóra, um 20 gestir frá umdæmisstjórn og nálægum klúbbum, þar á meðal Guðbrandur Magnússon fyrrverandi umdæmisstjóri og Þór Guðjónsson, umdæmisritari.  

Eftir stofnfundinn var strax efnt til reglulegra funda, annan hvern þriðjudag. Fyrsta verkefni klúbbsins var strax næsta sumar sett af stað, en það var að koma barnaleikvelli hér í nothæft ástand, og tókst það vel með sjálfboðavinnu klúbbfélaga og í samstarfi við hreppsfélagið.

Fyrsta konukvöldið var haldið þriðjudaginn 21. maí 1957 og var það tengt 5. fundi klúbbsins. Í fyrrnendri ræðu sem Jón flutti segir hann frá einmitt þessu konukvöldi en þar skenkti Þórður Magnússon þáverandi ljónatemjari Ljónakokteil, fluttur var skemmtiþáttur af stálþræði um klúbbfélaga, Eyvindur Ásmundsson mælti fyrir minni kvenna, Oddný Þorkelsdóttir las kvæði og fjórir menn héldu stuttar ræður, Þorkell Magnússon um hænsnarækt, Eyvindur Ásmundsson um mjólkurbú, Jóhann Kr. Jóhannesson um hrognkelsaveiðar og Ólafur Ingvarsson um kvikmyndir og villtar meyjar. Þetta konukvöld var það vel heppnað og naut það mikilla vinsælda að það leið ekki nema fram til 7. desember sama ár að næsta konukvöld var haldið. Þar dönsuðu menn í 20 mínútur við konur sínar, en ekki annara manna konur, ef marka má fundargerðarbók.

Fyrsta veturinn mótaðist margt í fastar skorður og m.a. var fyrsta árshátíðin haldin 8. febrúar 1958 ásamt móðurklúbbnum, Lionsklúbbi Akraness. Hélst það í mörg ár að Lionsklúbbarnir á Akranesi og Borgarnesi héldu sameiginlega árshátíð þrátt fyrir það að Borgarfjörður væri þá ekki brúaður.

Þá fóru klúbbfélagar í fyrstu sumarferðina 1958 og var farið á Snæfellsnes og út í Elliðaey á Breiðafirði. Sama haust var einnig farið í berjaferð í Haukadal í Dalasýslu. Sumarferðir voru síðan árviss atburður hjá klúbbnum í mörg ár og sem dæmi í annarri ferðinni sem farin var til Víkur í Mýrdal fóru 21 klúbbfélagi, konur og gestir alls 43 á 10 bílum. Í þeirri ferð var þessi minningarsálmur til:

Þörf var á svefni þrastar í skógum
Þar var þó hörgull á tjaldstæðum nógum
Sum sváfu í bílum í faömlögum fríðum
Á fjöðrum svo þíðum með gluggatjöldum síðum.

Eins og fyrr er getið er Lionsklúbbur Akraness okkar móðurklúbbur, en aftur á móti er Lionsklúbbur Borgarness móðurklúbbur þriggja klúbba og eru það: Lionsklúbbur Búðardals, Lionsklúbbur Borgarfjarðar ( sem reyndar hefur verið lagður niður ) og Lionessuklúbburinn Agla sem nú heitir Lionsklúbburinn Agla.

Félagar í klúbbnum hafa tekið að sér hin ýmis störf fyrir hreyfinguna og meðal klúbbfélaga hafa sem dæmi tveir félagar gegnt starfi umdæmis- og fjölumdæmisstjóra þeir Ólafur Sverrisson og Ingi Ingimundarson.

Þess má einnig geta að Jón Ben Ásmundsson, einn af frumkvöðlum að stofnun Lionsklúbbs Borgarness, var starfandi hjá Ísafjarðarkaupstað og jafnframt umdæmisstjóri Lionshreyfingarinnar þegar hann lést í hörmulegu slysi í Eyjafjarðará. Var Jón Ben öllum harmdauði sem til hans þekktu.

Í upphafi starfsárs 2003 – 2004 eru klúbbfélagar 37 en alls hafa á annað hundrað félaga starfað í klúbbnum frá upphafi.

Lionsklúbbur Borgarness hefur fært Dvalarheimili aldraðra, heilsugæslustöðinni, grunnskólanum, Björgunarsveitinni Brák og ótal mörgum aðilum góðar gjafir. Einnig hafa þeir veitt framlag til kaupa á íbúð í viðbyggingu við Dvalarheimilið ,styrkt kaup á vökvaklippum til að bjarga fólki úr bílflökum á slysstað, flóðlýst Borgarneskirkju, sem var eitt af fyrstu verkefnum klúbbsins, smíðað klukknaport í kirkjugarð, fært öldruðum gjafir á hverjum jólum, boðið þeim til kvöldfagnaðar ár hvert, börðust ár eftir ár við að koma upp skautasvelli fyrir börnin, annast þrettándabrennu mörg ár og svo mætti lengi telja.

Borgnesingum og héraðsbúum er öllum þakkaður góður stuðningur. Án þátttöku þeirra og skilnings hefði árangur í starfi orðið harla lítill. Væntum við áframhaldandi trausts þeirra og hvatningar til góðra verka.

Tekið saman af Skúla G. Ingvarssyni  í desember 2003.