Umdæmi 109A Kristófer

Kristofer_1Kristófer A. Tómasson umdæmisstjóri

Í Góulokin.

Þegar við höfum nú  þreytt Þorrann og Góuna er ljóst að það styttist í umdæmisþing og í lok starfsársins.

Eins gildir um flest hefur þetta starfsár liðið hraðar en maður bjóst við. Satt best að segja efast ég stundum um að árið líði á þess að allt komist í verk sem vonir stóðu til þegar starfsárið rann upp. Eitt er víst að ég er orðinn betur að mér um störf Linsklúbbanna í umdæminu og mörgum vinum ríkari eftir veturinn og enn sannfærðari um að við erum með sterka Lionshreyfingu á Íslandi. Enn og aftur segi ég ,,verum stolt“.

Eitt af því sem ég hef lagt mikla áherslu á í vetur er félagasjóður í hverjum klúbbi.  Ég hef mikla trú á að sá ágæti sjóður geti verið mikill áhrifavaldur í starfi sérhvers klúbbs. Við getum fóðrað félagasjóðinn með fleiru en að greiða í hann félagsgjöldin. Lionsklúbbar geta til að mynda haldið samkomur eða matarveislur þar sem eingöngu Lionsfélagar úr öðrum klúbbum eru boðaðir. Klúbbfélagar geta selt hverjir öðrum einhvern varning til dæmis klósettpappír eða harðfisk. Ef klúbbar finna sér farveg af þessu tagi. Þá getur það skapað umtalsverða tekjulind fyrir félagasjóðinn. Hann getur þá dugað til að borga til dæmis mat eða rútukostnað við vorferð.  Ég hef lengi verið talsmaður þess að Lionshreyfingin eigi að vera fyrir bæði þá sem minna hafa milli handa og þá sem meira hafa. Sumir finna verulega fyrir því að þurfa að reiða fram aura þegar eitthvað er gert sér til gamans í nafni klúbbsins og ef greiða þarf há félagsgjöld. Sterkur félagasjóður getur þar jafnað aðstöðu manna. Víðast hvar virðast mér félagsgjöldin skikkanlega.  Allt frá 12 – 25.000 króna yfir árið. Í nokkrum tilfellum er matarkostnaður alls vetrarins settur inn í gjaldið og er þá heildargjaldið gjarnan eitthvað á fjórða tug þúsunda. Í framhaldi vil ég meina að öflugur félagasjóður myndi aðdráttarafl fyrir nýja félaga. Það spyrst fljótt út ef Lionsfólk gerir sér glaðan dag og þarf jafnvel ekki að bera allan kostnað beint af því sjálft. Það býr til hvata til betri mætinga og góðar mætingar þjappa klúbbfélögum saman. Af því vil ég meina að það leiði af sér enn öflugra starf sem vænlegt er til að skila meiru til líknarmála. Ég segi fullum fetum verið ekki feimin við að styðja vel við félagasjóðinn. Ég fullyrði eftir heimsóknir mínar í klúbbanna að það megi finna sterkt samhengi milli sterks félagasjóðs og öflugs starfs í klúbbunum. Öflugur og samheldin hópur félaga er mjög líklegur til að skila góðu starfi.

lkl._seyla 202Félagar í Lkl. Seylu við stofnun klúbbsins.

Hvað félagamálin snertir þá áttu þau gleðilegu tíðindi sér stað að stofnaður var kvennaklúbbur á Álftanesi þann 1.mars síðastliðinn. Félagar eru 22. Þetta er mikill áfangi og á Guðrún Össurardóttir svæðisstjóri á svæði 6 stærstan þátt í að þessi klúbbur er orðinn að veruleika. Margir klúbbar hafa verið að taka inn einn og sumir talsvert fleiri félaga að undanförnu og veit ég um væntanlega inntökur félaga nú með vorinu og við erum að sjá talsvert af ungu fólki koma í klúbbana. Ég fagna því og mig langar að biðja þá klúbba sem ekki hafa bætt við sig í vetur en hafa fullan hug á því, að taka allavega einn félaga inn fyrir vorið. Við þekkjum öll hvað það er góð tilfinning að taka inn nýjan félaga. Í nýju hverfunum í Kópavogi erum við nokkur í forystusveitinni að gera okkur vonir um að takist að stofna nýjan klúbb áður en vetrinum líkur. Ég er því bjartsýnn á að við verðum allnokkru fleiri í umdæminu þegar  starfsárinu líkur en við vorum í upphafi þess.

Nú er ljóst að það verður kosið um embætti 2. Varaumdæmisstjóra að þessu sinni. Einar Þórðarson í lkl Fjörgyn og Jóhanna Valdimarsdóttir í lkl Kaldá hafa tilkynnt um framboð. Mér skilst að þessi staða sé mjög óvenjuleg og jafnvel einsdæmi. Ég vona að það gefi til kynna að það sé eftirsóknarvert að verða umdæmisstjóri, sem það sannarlega er. Ég bendi á að það verður tekið á móti framboðum fram undir umdæmisþing og ef einhverjir hafa áhuga þá hvet ég fólk til að gefa kost á sér. En rétt er að benda á að skilyrði fyrir embætti sem þessu er að viðkomandi hafi gegnt starfi svæðisstjóra og eða verið umdæmisritari eða umdæmisgjaldkeri.

Hvað sem því líður vonast ég til að sjá sem allra flesta á umdæmis og fjölumdæmisþinginu 20-21 apríl næstkomandi. Sérstaklega hvet ég viðtakandi stjórnir klúbba til að mæta og sitja embættismannaskólana. Ekki má gleyma að það er gaman að hitta kollega úr öðrum klúbbum og blanda við þá geði.

Ég vil minna Lionsfólk á söfnun fyrir augnskurðargerðartæki sem við vinnum nú að. Við erum bjartsýn á að við fáum styrk frá Alþjóðahjálparsjóðnum fyrir um helming fjárhæðarinnar c.a 9 milljónir en tækið mun kosta um 18-19 milljónir króna. Ég kann þeim klúbbum sem þegar hafa ákveðið að leggja tækjakaupunum lið með myndarlegu framlagi mínar bestu þakkir. Þeir eru býsna margir og vonandi bætast margir fleiri í þann hóp.

Í lokin minni ég á að Wing Kun Tam alþjóðaforseti hefur mikla trú á Íslendingum hvað trjárækt varðar,enda full ástæða til mjög margir klúbbar eiga sína trjáreiti. Ég veit því að það mun muna um okkar framlag í trjáræktinni þegar vorið og sumarið heilsar.

Lifið heil og góðar stundir

Kristófer


Gleðilegt ár kæru Lionsfélagar

Ég færi  Lionsfólki og landsmönnum öllum mínar bestu óskir um gleðilegt ár. Um leið þakka ég fyrir árið sem var að líða. Megi árið 2012 verða okkur Lionsfólki hagstætt og færa okkur kraft í starfinu og megi okkur vaxa fiskur um hrygg. Ég hef góða tilfinningu fyrir því að framundan séu umfram allt skemmtilegar samverustundir í klúbbunum.

Ég veit að það verður  ekki slegið neitt af í metnaðarfullum verkefnum við að leggja þeim lið sem minna mega sín. Á næstunni munu margir klúbbar standa fyrir samkomum á borð við herrakvöld, þorrablót og ekki síst kútmagakvöld. Þessar merku menningarsamkomur hafa vakið  athygli langt út fyrir raðir Lionsfólks og eru mikilvægar í öflun fjár til góðra verka. Þarna er ennfremur vettvangur sem ég hvet  til þess að kynna hið dýrmæta starf sem unnið er í Lionsklúbbunum. 

sumar_haust_2011_1021_L
Ungar Lionskonur í Lkl. Eden í Hveragerði ásamt guðföður sínum Birgi útbreiðslustjóra (Bigga bratta).

Í nokkrum klúbbum veit ég til þess að Lionsfélagar hafa lagt áherslu á það í janúar að taka með sér gesti á Lionsfundi.  Með það í huga að þeir muni verða Lionsmeðlimir, held ég að þessi mánuður henti vel til þess að kynna starfið,en það er yfirleitt á þessum  árstíma að starfið í klúbbunum er í hvað mestri virkni auk þess er oft skemmtileg eftirvænting í gangi og tilheyrandi undirbúningur þegar  framundan eru þessir skemmtilegu viðburðir  sem ég nefndi.

Logo---NSR---600-x-400-pixels_aFramundan er þing norrænna Lionsmanna (NSR) að þessu sinni bjóðum við í íslensku Lionshreyfingunni til þessa þings og verður það haldið á Hótel Sögu.  Íslenskt Lionsfólk er hvatt til að taka þátt í þinginu. Ég get fullyrt að það er bæði fróðlegt og gaman að hitta Lionsvini frá hinum Norðurlöndunum.  Þema þingsins að þessu sinni er ,, Framtíð og styrkur norrænnar Lionssamvinnu,,Nánari upplýsingar um þingið er að finna á meðfylgjandi slóð http://www.mmedia.is/kristh/NSR2012IS.htm

QUEST_LogoÁ næstunni mun ég meðal annars leggja áherslu á að við Lionsfólk kynnum Lions Quest og stefnt er að því að halda sérstakan dag þar sem  þetta áhugaverða námsefni verður kynnt. Síðar í vetur munum við standa fyrir fyrirlestri um Alsheimer og offitu barna svo fátt eitt sé nefnt.

Ég vil hvetja ykkur sem endranær til að njóta verunnar með félögunum í klúbbunum ykkar og þar sem þörf er á auknum liðsauka hvet ég ykkur til að vera í sambandi við mig  því eins og þið vitið kannski er það mikið áhugamál að vinna að félagamálum. Ef þið sjáið fyrir ykkur fólk sem gæti passað í Lions þá bið ég ykkur um að hika ekki við að bjóða þeim á Lionsfund. En félagarnir í klúbbunum  eru jú maskínan sem knýr okkur áfram í starfinu.

sumar_haust_2011_219_LUmdæmisstjóri á góðri stund ásamt erfingja sínum í embætti Guðmundi Helga Gunnarssyni í Lkl. Fjörgyn.

Ég mun heimsækja  á næstu vikum þá 10 klúbba sem ekki hafa fengið að berja mig augum og hlakka ég til þess. Ég vil minna á að ég er í þessu embætti fyrir ykkur og bið ykkur að vera  ófeimin við að setja ykkur í samband við mig ef spurningar vakna og ef þið viljið gagnrýna og deila skoðunum ykkar á starfinu í umdæminu með mér.  Gangi ykkur allt í haginn.

Með nýjárskveðju,  Kristófer

Höldum því jákvæða hátt á lofti.

Þá er aðventan runnin upp. Allt fram streymir endalaust eins og þar stendur. Þegar þetta er ritað hafa 40 klúbbar verið heimsóttir á síðustu þremur mánuðum. Það eru hrein forréttindi að fá að njóta þess einu sinni á lífsleiðinni að fara um hálft landið í þessum erindagjörðum og fá þessa  miklu innsýn í störf klúbbanna og þessa miklu mannlífs og menningarflóru. Ég hef lagt áherslu á það í mínum erindum hvað það er dýrmætt að vera hluti af þessum stóru hjálparsamtökum. Enn frekar hef ég gert mikið úr því hvað það er gaman að vera í þessum skemmtilega félagsskap og hvaða tækifæri við höfum til að gera klúbb á hverjum stað enn betri. Það verður að segjast að ég hef skynjað það sterkt að Lionsfólki sem hlustað hefur á mínar tölur hefur líkað það vel að ég skuli leggja mikið uppúr því sem jákvætt er og vel gert í Lionshreyfingunni. Ég segi það hispurslaust að við stefnum á að ná fyrri styrk í Lionshreyfingunni. Sterkasta leiðin til þess er að halda því hátt á lofti að við erum að njóta mikils með því að vera Lionsfólk og við erum að styðja við samfélagið með gríðarlega öflugum hætti. Sjálfur gerði ég mér ekki grein fyrir því fyrir nokkrum árum hvað Lionshreyfingin hefur komið miklu til leiðar.

Sudri_2242
Nýjir félagar teknir inn hjá Lkl. Suðra

Ég má til með að þakka þeim lionsmönnum sem lögðu blóðsykurmælingunum lið þann 14 nóvember síðastliðinn.  Þátttaka fór fram úr björtustu vonum og fengum við mjög góða athygli í íslensku samfélagi. Á nýju ári munum við finna fleiri tilefni til að koma okkur á framfæri með góðum verkum.

Í félagamálum ætlum við líka að sækja í okkur veðrið. Á undanfönum vikum hafa verið teknir inn nýjar félagar í allmörgum klúbbum og vænti ég þess að í upphafi nýs árs munum við sjá lionshópinn stækka. Gangi ykkur allt í haginn við jólaundirbúninginn.

Kristófer A Tómasson

 

Kristofer_2011Á öðrum degi vetrar

Samkvæmt almanaki okkar er veturinn runninn upp. Það segir okkur að flestir eða allir Lionsklúbbar hafa nú haldið nokkra fundi það sem af er starfsári. Fyrr í mánuðinum lagði ég ásamt konu og dóttur land undir fót og heimsótti Lionsklúbba á Austfjörðum. Það var ánægjulegt að finna að þar er áhugi mikill fyrir starfinu þrátt fyrir að stærð klúbba sé misjöfn. Maður finnur það jafnvel betur í þessum litlu byggðarlögum hvað Lionsklúbbar spila stórt hlutverk í samfélögunum. Þegar maður hlerar eftir því hjá fólki utan klúbbanna kemur það skýrt í ljós að klúbbarnir eru mikils metnir. Raunar er merkilegt hvað margir smáir klúbbar koma miklu í verk. Án þess að hallað sé á þá sem stærri eru. Í liðinni viku heimsótti ég ásamt Guðmundi Helga varaumdæmisstjóra Lionsklúbb nr 1. Lionsklúbb Reykjavíkur. Þar byrjaði þetta allt eins og við þekkjum. Sá klúbbur er í miklum blóma og tóku þeir inn á fundinum 34 félagann og sá 35 er væntanlegur fyrir áramót.

Einn var tekin inn í Árdísir á Selfoss. Það hafa verið teknir inn allmargir félagar í klúbbana á þessu hausti. En því miður hafa nokkrir yfirgefið lionshreyfinguna. Verið er að vinna markvisst með lista yfir fyrrverandi Lionsmenn sem flutt hafa milli svæða. Í mínu daglega starfi og víða þar sem ég hitt fólk á þess að um Lionserindi sé að ræða berst talið að Lionshreyfingunni og finn ég að fólk er forvitið um starfið og félagsskapinn sem slíkan. Ég gríp það gjarnan á lofti og geri það sem ég geri til að kynna Lionsstarfið. Ég hvet ykkur til að gera slíkt hið sama. Verum minnug þess að við erum þátttakendur í mjög sterkum hjálparsamtökum og ekki síður í skemmtilegum félagsskap. Höldum því á lofti.

Með samheldni vinnum við sigra.

Kristófer  Arnfjörð Tómasson

GeysirÚr skjóðu umdæmisstjóra A                       

Nú um réttaleytið eru klúbbarnir flestir að ýta vetrarstarfinu úr vör. Sá er þetta ritar hefur nýtt kvöldstundir að undarförnu til klúbbheimsókna og hefur þegar þetta er ritað rekið inn nefið í átta klúbbum, hér í Árnessýslu, Reykjavík Kraganum og á Suðurnesjum. Það eru forréttindi að eiga erindi í alla þessa klúbba og hefur mér verið afar vel tekið, ég hef sloppið við skammir hingað til. Klúbbarnir telja nú 52 í A umdæmi að meðtöldum fjórum deildum. Ekki fæ ég betur séð en starfið fari vel af stað og virðist mér mikill hugur í mönnum. Ekki er því þó að leyna að sumstaðar ber á áhyggjum vegna fækunar í klúbbunum og yfirvofandi fækunar vegna aldurs og annarra ástæðna. Ég hvet forystumenn klúbba til að eiga persónulegt samtal við hvern og einn klúbbfélaga og leita eftir skoðunum manna á klúbbstarfinu. Með því finna menn að það munar um þá í starfi klúbbsins og umhyggja er borin fyrir þeim. Sérstaklega þarf að hlúa að þeim sem hafa slegið slöku við mætingar. Slíkt er líklega vísbending um að eitthvað í fari klúbbsins höfði ekki til manna. Við þurfum sannarlega að leitast við að sporna við brottfallinu. Ég bið menn um að láta sér alls ekki fallast hendur þó eitthvað bakslag eigi sér stað. Sveiflur eru þekktar í okkar starfi. Ég bið Lionsmenn að líta í kringum sig í sínum vinahópi, frændgarði og á vinnustaðnum eftir fólki sem gæti passað í Lionshreyfinguna. Þá er ég ekki aðeins að tala um að afla félaga í sinn eigin klúbb heldur líka í öðrum landsvæðum. Það munar svo sannarlega um hvern félaga.

Það  er mín skoðun að innra starfið í klúbbunum sé grundvöllur alls Lionsstarfs. Það er í góðum farvegi ef samheldni er til staðar og mönnum líður vel á samverustundum með klúbbfélögunum. Afrakstur  þess skilar sér í góðu líknarstarfi.

Eitt af stórum viðfangsefnum okkar Lionsmanna þetta starfsárið er átak í kynningarmálum. Við ætlum okkur að ná betur til þjóðarinnar, einkum unga fólksins. Ég bind miklar vonir við störf Jóhanns Guðna Reynissonar sem ráðinn hefur verið til að leiðbeina okkur í þeim efnum. Honum til halds og trausts verður verkefnastjórn undir forystu Magnúsar Gunnarssonar í Lkl. Ásbirni.

Ég hef góða tilfinnigu fyrir því starfsári sem nú er farið af stað. Berum höfuðið hátt og verum stolt af því að vera Lionsfólk. Hugsum vel um félaga okkar innan og utan klúbbsins okkar ,, Með samheldni vinnum við sigra".

Kristófer A. Tómasson
Lkl. Geysi,    
umdæmisstjóri 109 A.

Í upphafi starfsárs

Nýtt starfsár er runnið upp hjá okkur Lionsmönnum og sá sem þetta ritar hefur tekið við embætti umdæmisstjóra í umdæmi 109 A.  Eftir að hafa starfað í Lionsklúbbnum Geysi frá árinu 1987.

Í  heil sextíu ár hefur Lionshreyfingin lagt Íslendingum lið, því ber að fagna. Ekki þarf að fjölyrða um að miklu hefur verið áorkað í starfinu á þessum tíma. Við skulum bera höfuðið hátt yfir því hvað okkar störf hafa skilað miklu til samfélagsins. Segja má að hin hliðin á starfinu séu þær ánægjustundir sem samvera í klúbbunum hefur fært félögum þær stundir verða ekki metnar til fjár.

Ég hlakka til að takast á við þau verkefni  sem í embættinu felast. Í  mínum huga er þó allra áhugaverðast að heimsækja  þá 48 klúbba og 4 deildir sem umdæminu tilheyra. Ég mun leitast við að kynnast sem flestum Lionsfélögum.  Ég veit að starfið í klúbbunum, verkefnin og félgslífið er fjölbreytt og útaf fyrir sig felst mikil menning í allri þeirra flóru.

Á mörgum svæðum er uppgangur  í starfi klúbbanna en á vissum svæðum hefur  hallað undan fæti. Því miður höfum við séð á eftir mörgum góðum félaganum sem einhverra hluta vegna hefur ekki fundið sig í starfinu. Ég legg áherslu á að þeir sem stýra klúbbunum geri sér far um að ná perósnulega samtali við hvern klúbbfélaga í upphafi  starfsins nú í haust.  Alveg sérstaklega ef útlit er fyrir að áhugi fari dvínandi hjá einstökum félögum. Þá er enn frekar þörf á að hlusta eftir því hvað veldur því, hlusta eftir því hvort viðkomandi vilja sjá breytingar eða fá áhrif.  Það er mikilvægt að ná inn nýjum félögum, enn dýrmætara er að halda félögum í hreyfingunni. Leggja þarf sem mest af mörkum til að nýjum félögum líði sem best og láta þá finna að þeir séu ekki síður mikilvægir en þeir sem hafa starfað lengur í klúbbnum.

Með samheldni vinnum við sigra verða mín kjörorð.

Megi starfsárið 2011-2012  verða okkur gjöfult.

Kristófer A. Tómasson