Umdæmi 109B_BJ

BjarneyBjarney Jörgensen umdæmisstjóri

Ágætu Lionsfélagar.

Þá fer að líða að seinni hluta starfsársins hjá mér sem umdæmisstjóri í B-inu. Ég er búin að heimsækja alla mína klúbba og deildir, og tókst nokkurn veginn að halda heimsóknarplanið.

Lionsstarfið í umdæminu er mjög öflugt. Fjölbreyttar fjáraflanir, verkefnin mörg og ólík, og félagsstarfið innan klúbbanna blómlegt. Gleði og gaman.

Verð að játa að umdæmisstjórastarfið er tímafrekara, en ég átti von á og mér telst til að á þessu  sex mánaða tímabili, sem heimsóknir mínar dreifðust á, þá hafi ég verið að heiman í um einn og hálfan mánuð. Hvað ekinn kílómetrafjöldi er mikill er ég ekki alveg klár á, eitthvað um 15 þúsund. Þrátt fyrir annríkið er þetta búið að vera ótrúlega skemmtilegur tími. Alls staðar fengið frábærara móttökur og eignast fullt af vinum, sem er ómetanlegt.

Næst á dagskrá hjá mér og mörgum ykkar líka er Lionsþingið, sem verður haldið í Reykjavík 20.-21. apríl næstkomandi. Vona að klúbbar verði duglegir að senda sitt fólk þangað, til að sýna sig og sjá aðra, og vonandi að öðlast einhverja Lionsvisku í leiðinni.

Bestu kveðjur,

Bjarney umdæmisstjóri 109 B.

Þá er komið að því, nýtt starfsár hafið hjá okkur Lionsfólki og undirrituð tekin við embætti umdæmisstjóra í umdæmi 109 B. Mér finnst það hafa verið í  gær, þegar leitað var til mín um að taka við þessu „stjórastarfi“, en það var víst vorið 2009. Ótrúlegt hvað tíminn líður.

Einkunnarorð mín, sem umdæmisstjóri verða: „Virðing, viska, víðsýni“ og tákn mitt verður Snæfellsjökull.  Ég var búin að velta því lengi fyrir mér hver yrðu mín einkunnarorð og alltaf endaði ég á sömu orðunum; virðing, viska og víðsýni. Kannski vegna þess, að þessi orð hafa verið áberandi í skólalífi barnanna minna, hvort sem var í grunnskóla eða menntaskóla og segja það sem ég vil leggja áherslu á í mínu starfi sem umdæmisstjóri.

Öll eigum við skilið að njóta virðingar. Virðing endurspeglast meðal annars í þeirri kurteisi sem við sýnum hvert öðru, hvernig við tölum við annað fólk og hvernig við tölum um það. Virðum skoðanir annarra, skoðanaskipti eru af hinu góða og auka visku okkar.

Lífið væri harla snautt án visku og það að fá að miðla þekkingu minni og uppfræða hinn almenna Lionsmann um Lionshreyfinguna er mér mikið hjartans mál. Hvort sem það tengist innra eða ytra starfi hreyfingarinnar, víðsýni tel ég af hinu góða.
Víðsýni felur í sér að vera opinn fyrir nýjum hugmyndum. Hugleiða þær og jafnvel ráðast í breytingar, ef þörf er á. Það er öllum hollt að endurmeta hlutina og sjá þá í nýju ljósi.

Ég efa ekki að næsta starfsár verði skemmtilegt og hlakka til að takast á við þetta starf og mun gera mitt besta við að sinna því vel. Ef ég klúðra nú einhverju, þar sem ég er algjör nýgræðingur í þessu, þá munið eftir siðareglum Lions: „Vertu gætinn í gagnrýni og örlátur á viðurkenningu. Byggðu upp, en rífðu ekki niður“.

Bjarney Jörgensen
umdæmisstjóri 109 B
Starfsárið 2011-2012

Bjarney heimsækir klúbbana umdæminu

Sunna_Bjarney

Bjarney í heimsókn hjá Lkl. Sunnu.  Auður Helgadóttir formað-
ur tekur við merkjum frá Bjarney Jörgensen Umdæmisstjóra.

 

Þá er ég lögst í ferðalög um B-umdæmið og þetta hefur bara gengið vel hingað til. Ég heimtaði að nagladekkin yrðu sett undir áður en ég færi af stað og vakti það dálitla furðu á mínu heimili. Hann Jón Þór minn hlýddi þó, því þessi elska veit að það þýðir ekkert að malda í móinn. Og vitið menn það fór að snjóa fyrir norðan, að vísu ekkert að ráði, en mikið var gott að vita af nöglunum.

Þegar þessi orð eru rituð, hef ég heimsótt 8 Lionsklúbba. Það eru Lionsklúbburinn Björk, Sauðárkróki, Lionsklúbbur Dalvíkur, Lionsklúbburinn Höfði, Hofsósi, Lionsklúbburinn Rán, Ólafsvík, Lionsklúbbur Sauðárkróks, Lionsklúbbur Skagastrandar, Lionsklúbburinn Sunna, Dalvík og Lionsklúbburinn Ösp, Akureyri. Mikið og gott Lionsstarf er unnið í þessum Lionsklúbbum. Allir hafa þeir sínar föstu fjáraflanir og verkefnin eru ótal mörg. Félagsstarfið innan klúbbanna er með miklum blóma og margt gert til að hafa fundina skemmtilega og líflega.

Ég hef skemmt mér vel í þessum heimsóknum mínum og kynnst mörgum Lionsfélögum. Móttökurnar hafa verið hreint út sagt frábærar og óhætt er að segja að Lionsfélagar séu höfðingjar heim að sækja. Ég legg allavega ekki af þennan mánuðinn, svo miklar kræsingar hafa verið á boðstólnum á þessum fundum.

Ég stefni á að heimsækja 8 aðra Lionsklúbba í októbermánuði og ég vona að það klikki ekki. Að blessaður veðurguðinn fari nú ekki að stríða mér, nenni ekki að standa í einhverju svoleiðis veseni þegar maður er búin að gera sína heimsóknaráætlun J

Bjarney Jörgensen

Umdæmisstjóri 109 B

Starfsárið 2011-2012