Ekki missa af neinu hjá Lions og skráðu netfangið þitt á póstlistann.
Fylgdu okkur á facebook
- Styrkja LCIF
- Um Lions
- Klúbbar
- Verkefni
- Minningar
- Lionsbúðin
- Fræðsla
- Lionssalurinn
Ágæta Lionsfólk.
Nú sígur á seinnihluta starfsársins. Fyrir mig er þetta búið að vera miklu annasamara en ég hafði búist við en þó ákaflega gefandi og skemmtilegt. Hápunkturinn verður svo á afmælisþinginu 20. og 21 apríl n.k. þegar alþjóðaforsetinn okkar Wing-Kun Tam heiðrar okkur með nærveru sinni. Þó að skráningarfrestur sé löngu liðinn er rétt að hvetja alla viðtakandi stjórnarmenn til að nýta sé skólana á þinginu á föstudeginum. Skrúðgangan verður kl. 16:00 og að henni lokinni verður setningarhátíðin í Neskirkju. Föstudeginum líkur svo með kynningarkvöldi og það er opið fyrir allt Lionsfólk og gesti þeirra.
Umdæmisþingin verða svo fyrir hádegi á laugardeginum og fjölumdæmisþingið eftir hádegi. Afmælishátíðin verður svo um kvöldið en auk alþjóðaforseta og margra erlendra gesta mun Forseti Íslands einnig heiðra okkur með nærveru sinni. Afmælishátíðin eru opin öllu Lionsfólki og gestum þeirra þó það hafi ekki setið þingið.
Leiðtogaskólinn.
Þann 12. mars sleit Kristján Kristjánsson leiðtogaskólanum í fyrsta sinn sem skólastjóri. Ég fékk þann heiður að vera viðstaddur og afhenda stoltum og ánægðum nemendunum skírteinin. Undanfarin nokkur ár hefur aðsóknin verið alveg skínandi, öll pláss fyllst og jafnvel myndast biðlisti. Nú voru að vísu bara 24 í skólanum en ég kýs að líta á það sem undantekningu. Kostnaðurinn er aðeins 20.000,- kr. á mann enda greiddur niður af framlagi frá alþjóðaskrifstofunni. Kennararnir eru í sjálfboðavinnu og þeir eiga sérstaka þakkir skyldar fyrir fórnfýsina.
Við þurfum á því að halda að fá fleiri Lionsfélaga í embætti svo enginn þurfi að gegna nema einu embætti hverju sinni. Mér heyrist viðtakandi umdæmisstjórar og fjölumdæmisstjóri vera nú þegar nánast búnir að manna sínar stjórnir.
Afmælisgjöfin.
Eins og fram kemur hér á síðunni höfum við sent inn umsókn til LCIF um framlag til kaupa á augnlækningatæki sem fyrir Landspítalann. Tækið mun nýtast til aðgerða innarlega í auganu svo sem á augnbotni, glerhlaupi og sjónhimnu. Það er von okkar að við fáum fullan styrk 75.000 US$ eða 9 mkr. en tækið mun kosta 18 19 mkr. Framlag frá LCIF getur aldrei orðið meira en 50% heildarkostnaðar. Von okkar er sú að við náum helmingi þess fjár sem uppá vantar frá klúbbum en hinum helmingnum frá fyrirtækjum og einstaklingum. Send hafa verið út bréf í alla klúbba með hvatningu um framlög í þessa söfnun. Við höfum nú þegar fengið jákvæð viðbrögð. Við erum að vonast til að geta tilkynnt um þetta tæki á afmælisþinginu okkar.
Herferð Lions gegn mislingum.
Nú er í gangi herferð Lions gegn mislingum. Mislingar eru einhver mest smitandi veirusjúkdómur sem til er og einn hættulegasti barnasjúkdómurinn. Alþjóðleg herferð gegn mislingum hófst 2001 að frumkvæði Sameinuðu þjóðanna og vegna gríðarlegrar þarfar gekk Lions til liðs við herferðina starfsárið 2010-2011. Með einaldri bólusetningu má verja börn gegn þessum vágesti og hver sprauta kostar ekki nema 100 kr. Á síðasta ári voru yfir 40 milljónir barna í Eþíópíu, Madagaskar, Malí og Nígeríu bólusett. Herferðin mun standa næstu ár og ástæða er til að hvetja klúbba til að leggja þessu átaki lið með framlögum í LCIF en nú veita öll framlög til LCIF rétt til tilnefningar Melvin Jones viðurkenningar.
Niðurlag.
Ég minni ykkur á tilmæli Tams, alþjóðaforsetans okkar um að gróðursetja tré.
Ágæta Lionsfólk.
Nú eru flestir klúbbar komnir á skrið, búnir að kalla saman stjórnarfundi og margir hafa þegar haldið almennan klúbbfund. Við í fjölumdæmisráði og umdæmisstjórnum höfum þegar haldið okkar fyrsta fund. Að þessu sinni vorum við í Munaðarnesi. Tókum eina helgi, vorum með málefnavinnu, hristum mannskapinn saman og skemmtum okkur vel við leik og störf. Vona ég að allir hafi snúið heim fullir áhuga og einhvers vísari.
Þetta ár er afmælisár.
Lions á íslandi varð 60. ára þann 14. ágúst síðastliðinn. Fyrsti Lionsklúbburinn á landinu var stofnaður þann dag árið 1951 af Magnúsi Kjaran. Það verður haldið upp á tímamótin með margvíslegum hætti.
Fyrrverandi alþjóðaforseti (nú stjórnarformaður alþjóða hjálparsjóðsins, LCIF) Sid Scruggs og kona hans Judy komu í heimsókn dagana 11. til 14. ágúst. Forsetahjónin fyrrverandi voru yfir sig ánægð enda dagskráin fjölbreytt og veðrið ótrúlega gott. Hápunktur heimsóknarinnar var afmælishátíðarkvöldverður í Lionsheimilinu að kvöldi 13. ágúst.
NSR (norræna samvinnan) er 50. ára og það verður sérstaklega haldið upp á þau tímamót á næsta NSR þingi í Reykjavík dagana 19. til 21. janúar. Ég hvet alla Lionsmenn til að sækja þingið og þess má geta að B umdæmið í Noregi hefur tilkynnt um 50 fulltrúa frá þeim þannig að norskir fulltrúar verða líklega nærri 70.
Kynningarmál.
Við höfum fengið styrk frá alþjóðastjórn til kynningarmála. Ætlunin er að gera átak í þeim málum og við höfum ráðið Jóhann Guðna Reynisson sem verkefnisstjóra kynningarmála. Honum til halds og trausts hefur verið skipuð 5 manna nefnd undir forystu Magnúsar Gunnarssonar Lkl. Ásbirni en með honum í nefndinni starfa þau Benjamín Jósefsson Lkl. Akraness, Rúna Kr. Sigurðardóttir Lkl. Sunnu, Lárus Páll Pálsson Lkl. Tý og Lena Grétarsdóttir Lkl. Ynju. Við munum kynna ykkur betur síðar hvernig þið getið notið hjálpar og leiðsagnar Jóhanns Guðna við að skrifa greinar, fréttatilkynningar og fl.
Leiðtogamál.
Leiðtogaskólinn verður haldinn í Munaðarnesi aðra helgina í febrúar og sömuleiðis aðra helgina í mars í vetur. Undanfarið hefur verið biðlisti og er það ánægjulegt. Þrátt fyrir leiðtogaskólann er alltaf skortur á að Lionsfólk bjóði sig fram til starfa fyrir Lionshreyfinguna. Ég tel að ég hafi fengið alveg frábært fólk í fjölumdæmisráðið en það er pláss fyrir fleiri því sumir gegna allt að þremur embættum. Það er óþarfi því við eigum fullt af frábæru fólki. Það þarf bara að láta vita af sér og bjóða sig fram.
Þetta á einnig við um embætti svæðisstjóra, umdæmisstjóra og fjölumdæmisstjóra.
Við erum í góðum málum hvað varaumdæmisstjórana varðar í báðum umdæmum þetta árið en það vantar dálítið upp á hvað varasvæðisstjórana varðar.
Félagamál.
Framundan er stofnskrárhátíð Lkl. Ylfu á Akureyri. Stofnun þess klúbbs (36 konur) finnst mér sanna að það er leikandi hægt að stofna fleiri klúbba, ekki síst kvennaklúbba. Það útheimtir mikla vinnu sem eins og oftast mæðir á fáum. Leiðtogi slíkrar vinnu þarf að þekkja til bæði í Lions og í því samfélagi sem hinn nýi klúbbur mun starfa. Í þessu sambandi er ekki síst horft til höfuðborgarsvæðisins en það eru einna fæstir Lionsfélagar miðað við fólksfjölda. Út úr vinnu GMT/GLT fulltrúana og kynningarátaksins þyrfti að koma til stofnunar nýrra klúbba og minna brottfalls úr núverandi klúbbum.
Niðurlag.
Þetta afmælisár verður án efa viðburðarríkur tími fyrir mig sem fjölumdæmisstjóra enda mikið starf framundan. Ég veit að það er blómlegt starf í klúbbunum út um allt land. Getið þið hugsað ykkur hvernig samfélagið væri án starfssemi Lionsklúbba? Ég býð ykkur öll velkomin til starfa og óska ykkur velfarnaðar í störfum ykkar í vetur!
Með Lionskveðju,
Árni V. Friðriksson
Fjölumdæmisstjóri