Fjölumdæmi-109 Pistlar 1 - 8

Kristinn_G._KristjnssonKristinn G. Kristjánsson 
fjölumdæmisstjóri MD 109

Pistill 8 –  1. febrúar 2013

Ágætu félagar um land allt.

Áfram er haldið

Janúarmánuður liðinn og Lionsstarf í fullum gangi. Allnokkur hópur félaga sótti NSR þingið sem að þessu sinni var haldið í Trollhattan í Svíþjóð. Þessi samstarfsvettvangur Norðurlandanna er einn hornsteinninn í Lionsstarfinu. Við hér heima gefum því kannski ekki mikinn gaum í okkar daglega klúbbstarfi, en tengslin eru sterk og hvílir það á nokkrum félögum að halda utanum þessi tengsl. Má þar nefna fyrrverandi alþjóðastjórnarmenn okkar, Alþjóðasamskiptastjóra, Fjölumdæmisstjóra og núverandi NSR Coordinator Norðurlanda sem er mjög annasamt embætti fyrir Norðurlöndin. Samstarfið innan NSR hvílir einnig á embættum Fjölumdæmisstjóra í hverju landi fyrir sig. Nú á þessu Norðurlandaþingi var sú nýbreytni tekin upp að varaumdæmisstjórar beggja umdæma voru boðaðir til þings og sátu meðal annars skóla fyrir verðandi umdæmisstjóra. Umdæmisstjórar alla landanna funda og er ekki vafi á að bæði óformlegar, jafnt sem formlegar umræður þeirra á milli eru mikils virði fyrir alla sem þátt taka í þessu starfi. Þá voru sameiginleg hagsmunamál landanna tekin fyrir og þar á meðal voru umræður um Orgester Norden. Er fyrirhugað að hljómsveitin fari til Hamborgar og komi fram á alþjóðaþinginu nú í sumar.

Ýmiskonar styrktarbeiðnir

Það  má segja að því meiri kynning sem er á starfi Lions hér heima, því fleiri óskir berast inn á borð Fjölumdæmisstjórnar um ýmiskonar aðstoð. Það er ljóst að almennt veit fólk ekki hvernig uppbyggingin er innan Lions er varðar beiðni um styrki og aðstoð. Sumir telja jafnvel að við séum eins og fyrirtæki sem eigi digra sjóði og óska eftir fjárframlögum. Oft þarf að svara þessum beiðnum með útskýringum um að Lions standi bara fyrir einni landssöfnun á nokkurra ára fresti og á ég þar við söfnun undir merkjum Rauðu fjaðrarinnar. Styrkir til rekstrarfélaga á hinum ýmsu sviðum falla því ekki undir þau verkefni sem við erum hvað helst að styðja. Við höfum einnig bent á að klúbbarnir séu með sjálfstæða verkefnasjóði og sinni helst verkefnum í nærumhverfi sínu. Síðan koma upp beiðnir sem Fjölumdæmisstjórn skoðar nánar og þar á meðal tók Fjölumdæmisstjórn þá ákvörðun að óska eftir við Hjálparsjóðinn okkar að við legðum lið við söfnun sem Biskup Íslands beitti sér fyrir til tækjakaupa fyrir LHS. Þeirri söfnun hefur ekki verið formlega ýtt af stað og bíðum við átekta um hvernig staðið verður að söfnuninni. Við höfum verið í sambandi við Biskupsstofu og skýrast þau mál innan tíðar. Fjölumdæmisstjórn skoðaði líka þá hugmynd sem kom frá nokkrum klúbbum um að safna inn á einn reikning, frjálsum framlögum frá klúbbunum til að færa Grensásdeild gjöf í tilefni af 40 ára afmæli deildarinnar. Í samráði við  stjórnendur og hollvinasamtök Grensásdeildar verður sú afhending í seinni hluta maí mánaðar og verður þá Lionsfélögum boðið að skoða deildina og kynna sér starfsemi hennar. Þetta verður kynnt þegar nær dregur.

Leiðtogaskólinn

Nú í febrúar, helgina 9. og 10. verður fyrri hluti leiðtogaskólans  haldinn. Það hefur verið mælst til þess að klúbbstjórnir sendu viðtakandi stjórn á þennan mjög svo góða skóla. Ég vil benda á hvatningu um skólann í janúarpistli mínum. Síðan veit ég að margir klúbbar hafa hug á að kynna sér BTB námskeiðið. Það er líka áhugavert fyrir samheldnina innan klúbbsins að fara í nokkurskonar sjálfsskoðun og sjá hvort eitthvað megi betur fara. Síðan eru til önnur námskeið eða fyrirlestrar sem gætu hentað fyrir klúbbfund.

Starfið framundan og svæðisstjórarnir

Nú liggur fyrir að boðað verði til Fjölumdæmisráðsfundar laugardaginn 2. mars og er undirbúningur að þeim fundi í fullum gangi. Þar fara Fjölumdæmisráðsstjórar yfir þau verkefni sem í gangi eru og hvað sé framundan. Hefð er fyrir því að Umdæmisstjórnarfundir eru jafnan á undan Fjölumdæmisráðsfundum og mun svo verða einnig nú. Það er því ærinn starfi hjá Umdæmisstjórunum okkar. Brátt fer vinna við fjárhagsáætlun næsta árs að hefjast og þarf að koma á framfæri við Fjölumdæmisstjórn ef félagar eru með hugmyndir sem skoða þarf fyrir gerð fjárhagsáætlunar. Síðan er verið að skoða þau atriði sem varða þingið okkar á Akureyri. Ég vil hvetja stjórnir klúbba að draga ekki um of að panta hótel- eða heimagistingu  og skrá félaga á þingið, því fyrr því betra. Annars er starfið í góðu jafnvægi. Verkefnin ærin og alltaf gaman að takast á við nýjar áskoranir.    

Framboðsfrestur og svæðisstjórarnir

Ég vil enn og aftur hætta mér út í það að tala fyrir þeirri hugmynd að óskað verði eftir framboði til svæðisstjóraembættis. Eins og þessu er fyrirkomið nú gengur sú skylda milli klúbba eftir ákveðinni röð að tilnefna svæðisstjóra. Ef svæðið hefur átta klúbba fær klúbbur tækifæri á að bjóða félaga sínum þetta einstaklega skemmtilega embætti áttunda hvert ár. Komi áhugasamur félagi til starfa á miðju tímabilinu og sé ekki alveg tilbúinn að taka að sér embættið gæti hann verið búinn að vera 12 til 13 ár í Lions þegar tækifæri gæfist til að taka að sér starf svæðisstjóra. Á sama tíma eru kannski þrír fjórir búnir að vera hálf píndir í verkið, bara af því að það er klúbburinn sem á að skaffa svæðisstjóra. Mín skoðun er sú að allir sem eru kjörgengir á svæðinu ættu að geta gefið kost á sér í embætti svæðisstjóra. Framboðsfrestur vari til 15. febrúar eins og er með ýmis embætti innan hreyfingarinnar. Ef engin framboð kæmu ( sem gæti bara ekki gerst ) fyrir tilskilinn frest, tæki skylda klúbbsins við að sjá til þess að góður félagi tæki við sem svæðisstjóri. Sú skylda gengi síðan eftir núverandi venjum. Enn betra fyndist mér að valið stæði um vara svæðisstjóra, þannig að við værum alltaf meðvituð um það, eitt ár fram í tímann, hver yrði svæðisstjóri. Það væri líka gott fyrir þann sem ætti að taka við, að hafa eins árs undirbúning. Það væri gaman að sjá tvo til þrjá gefa kost á sér á svæðisfundinum í mars, ( og þá helst til vara svæðisstjóra ). Þar myndu þeir kynna áherslur sínar og lýstu áhuga sínum. Síðan yrði kosning á þessum sama svæðisfundi til embættis vara-svæðisstjóra. Þetta gæfi embættinu meira vægi og áhugasömum félögum tækifæri á að gegna þessu embætti jafnvel miklu fyrr en núverandi vinnureglur gefa kost á.

Í framhaldi af þessum hugrenningum, minni ég á að frestur er til 15. febrúar n.k. til þess að gefa kost á sér til embætta innan Lions. Það eru fjölmörg embætti sem bíða eftir vinnufúsum höndum, þ.á.m. embætti Fjölumdæmisstjóra, Vara-Fjölumdæmisstjóra, Umdæmisstjóra, fyrsta og annars Vara-Umdæmisstjóra og einnig eru laus embætti, formanns Hjálparsjóðsins, formanns laganefndar og mörg önnur. Það er því skorað á Lionsfélaga að kynna sér málið og taka þátt í skemmtilegum verkefnum.

Lesandi góður!

Hafðu þökk fyrir að lesa þessar hugrenningar og megir þú og klúbbur þinn dafna og þroskast í Lionsstarfi.

Kristinn G. Kristjánsson

Fjölumdæmisstjóri 109

Pistill 7 –  1. janúar 2013

Ágætu Lionsfélagar um land allt.

Gleðilegt ár og ég þakka samstarfið á liðnum árum og þó sérstaklega á árinu sem var að líða. Megi nýtt ár færa okkur öllum farsæld og gleði með blóm í haga.

Við upphaf nýss árs

Við áramót er það jafnan siður að líta um öxl og sjá hvar maður er staddur og hvað sé framundan. Lionshreyfingin  hefur tímatal starfsársins nokkuð á annan veg. Það má segja að við áramót sé  nokkurskonar hálfleikur. Starfsárið er hálfnað. Hvað gerir þjálfarinn í hálfleik? Hann hvetur til frekari dáða og leggur grunn að seinni hálfleik. Ef við erum lið, hver er þá mótherjinn?

Öll þau verkefni sem heimurinn býður eftir að verði færð til betri  vegar, mannkyni og jörð til farsældar. Leikvöllur okkar er heimurinn allur. Liðið okkar er eitt stærsta og besta liðið með um 1,4 milljónir liðsmanna. Er það ekki bara gott, getum við ekki bara hallað okkur afturábak í stólnum og verið glöð með liðið okkar? Nei, kæru félagar, mótherjinn er stór og blasir hvarvetna við. Því vantar okkur fleiri liðsmenn. Því fleiri, því betra starf, því meiri árangur. Lionshreyfingin í heiminum er stækkuð mynd af grunnkjarna hreyfingarinnar, það má líkja LCI við klúbbinn minn og klúbbinn þinn. Getur kúbburinn þinn lagt öllum málum lið þar sem hjálpar er þörf? Nei, hann leggur lið þeim málum sem hann telur sig ráða við og hlúir að góðum verkefnum  í nærumhverfi sínu og tengir hluta starfs síns störfum innan LCF. Eins er með LCIF Alþjóðahjálparsjóðinn okkar. Hann leggur lið þar sem þörf er, eftir því sem kostur er og eins er með verkefnasjóði klúbbanna, þeir ráðast í þau verkefni sem þeir telja sig geta á sem bestan hátt ljáð hjálparhönd og lagt lið.

Kæru félagar, verum ávallt minnug þess að við erum félagar í þessu stóra liði og við eigum að leggjast á árina með því að byggja upp stærra samfélag heilbrigðrar hugsunar og samhjálpar fyrir þá  sem minna mega sín. Verum stolt af því sem áunnist hefur og notum það stolt til frekari dáða.

Liðsfjölgun

Ef til vill er þetta nú of háfleigur inngangur en það er nú svo að þegar álfar og tröll og jafnvel ýmiskonar vættir og forynjur eru á ferð, eins og gerist um áramót,  þá fer andinn á flug.

Hún var í anda liðsauka og eflingar starfsins, jólakveðjan sem ég fékk frá

GMT-stjóra Fjölumdæmissins, Kristóteri Tómassyni. Að fjölga í liðinu og kynna hreyfinguna enn meira, leggjast á árarnar og láta enn meira gott af sér leiða með því að vera vakandi yfir því að fá fleiri liðsmenn til að taka áralagið og þar með til enn stærri og meiri verkefna.

Nú er hálfleikur hjá öllum stjórnum klúbba líkt og í umdæmis- og hjá Fjölumdæminu. Því er ekki úr vegi að hvetja alla til að taka höndum saman um að efla liðið, fá fleiri með, þeim sjálfum, hreyfingunni og klúbbnum til framdráttar og eflingar, bæði í leik og starfi. Ég held að ef við höfum skýr svör um það, hvað við stöndum fyrir, hvað er gert á klúbbfundum og til hvers það leiðir að taka þátt í starfi innan Lions, þá sé fullt af hjálpfúsum höndum sem vilja koma og taka þátt í skemmtilegu starfi. Ég geri mér grein fyrir að það þarf átak til að hrista af sér slenið og fjölga í hópnum en það er þess virði og það er hægt. Fjölgun í klúbbnum kemur einungis innanfrá. Í því efni getur enginn utanaðkomandi tekið fram fyrir hendur á klúbbfélögunum sjálfum. Einungis er hægt að hvetja og styðja. Ég vil því beina því til klúbbstjórna  og til allra félaga í Lions að hafa augun opin fyrir nýjum félögum, klappa vinnufélaga, kunningja eða skyldmenni á bakið og segja ,,Það er þörf fyrir þig innan Lions“.    

Kynningarmál

Kæru félagar! Frá fjölgunarmálum í kynningarmál. Það er örugglega tvennt sem stendur uppúr á fyrri helming þessa starfsárs í kynningarmálum. Þar er fyrst að nefna, að Guðrún Yngvadóttir stóð fyrir vel undirbúinni afhendingu  á augnskurðartæki til LHS. Þá var fjallað um hreyfinguna okkar og síðan aftur þegar við blésum til átaks í sykursýkismælingum. Það er skoðun mín að fjölmiðlar séu okkur mjög hliðhollir ef við komum með vel framsettar greinar og getum tengt þær atburðum sem eru að gerast. Það er ekki of kveðin sú vísa að láta vita af því sem klúbbarnir um land allt eru að gera. Þau verkefni sem við vinnum eru stundum miklu stærri en þau sem sagt er frá í útvarpi og sjónvarpi. Við verðum að koma þessum verkefnum okkar á framfæri við fjölmiðla, ekki til að miklast af þeim, heldur til að fá aukin kraft til frekari verkefna. Þannig eigum við hægara um vik með að safna fé og ganga til góðra verka ef samfélagið er meðvitað um hvað við erum að gera og fyrir hvað við stöndum. Félagar, það er alltaf hægt að koma greinum í heimablöðin og stundum jafnvel í stóru fjölmiðlana en það er okkar að koma því á framfæri.

Starfið framundan

Með hækkandi sól færist gróska í starfið. Framundan er sumar og sól í sál og í sinni. Klúbbar landsins hittast nú á nýju ári með tilhlökkun og bjartsýni fyrir því sem framundan er. Hjá nokkrum hópi Lionsfélaga er næsta átak að sækja NSR þing sem haldið verður í Svíðþjóð dagana 18. til 20. janúar n.k. Við undirbúning og skipulag fyrir NSR þingið, hvílir mikið starf á Kristni Hannessyni sem gegnir embæti NSR Coordinator. Hann þarf að skipuleggja og halda utanum þau fjölmörgu mál sem þarf að hafa í huga á svona þingum. Ég hef áður minnst á það að þátttaka okkar í NSR er það starf innan Lions sem ekki hefur fengið mikla kynningu inn í klúbbana hér heima. NSR samstarfið er okkur mjög mikilvægt og kynni mín af því starfi sem þar fer fram er mjög góð. Það þéttir raðirnar að vita af félögum okkar á hinum Norðurlöndunum, kynnast starfi þeirra og vera þátttakendur í þessu sameiginlega Lionsstarfi.  Þetta gerir Norðurlöndin að öflugri einingu innan alþjóðasamstarfsins sem gefur síðan styrk inn í hreyfinguna í hverju landi fyrir sig.

Leiðtogaskólinn og viðtakandi stjórnir

Ég geri ráð fyrir því að allir klúbbar séu búnir að skipa í viðtakandi stjórn. Ég veit að umdæmisstjórarnir í  báðum umdæmum hafa hvatt til þess að Lionsfélagar um land allt komi í leiðtogaskólann okkar sem stendur yfir í  tvær helgar á hverju starfsári. Þessi skóli hefur verið starfræktur um margra ára skeið. Hann hefur þróast og allt kennsluefni sem þar er notað er margskoðað og fært upp eftir því sem við á hverju sinni. Það hefur nánast verið skylda fyrir viðtakandi stjórnir að mæta á föstudeginum fyrir þing ár hvert til að fara  lítilega yfir þau verkefni sem bíða stjórnarmanna. En hafi félagar tök á því að fara í leiðtogaskólann, þá er það miklu meira og tekur á mörgum þáttum mannlegra samskipa. Skólinn er ekki bara þroskandi  fyrir starfið innan Lions heldur gefur innsægji og þroska á allt umhverfi og starf, þess sem gefið hefur sér tíma til að upplifa og fræðast í skólanum okkar. Næst verður skólinn haldinn í Munaðarnesi, helgarnar 9.-10. febrúar og 9.– 10. mars. Umsóknarfrestur er til 25. janúar 2013. Nánari uppl. eru  inn á lions.is ( forsíðu ) og þar er smellt á linkinn Leiðtogaskólinn sem er hægra megin á síðunni. Kynnið ykkur málin og skráið ykkur í skólann, þetta er bara skemmtilegt um leið og það er fræðandi.    

Lesandi góður!

Hafðu þökk fyrir að lesa þessar hugrenningar. Nú hefst seinni hálfleikur og nú skulum við skora hátt og mikið.  

Kristinn G. Kristjánsson
Fjölumdæmisstjóri  109

Pistill 6 - 1. desember

Ágætu Lionsfélagar um land allt.

Þá er hann kominn, jólamánuðurinn. Þegar þessi pistill fer í loftið er ég staddur í Kaupmannahöfn á svonefndum CC fundi. Hvað er það, gæti ef til vill einhver spurt.CC stendur fyrir  Council Chairperson sem er embættisheiti Fjölumdæmisstjóra á ensku.

Norðurlandasamstarf

Fyrrnefndur CC fundur er sameiginlegur fundur Fjölumdæmisstjóra Norðurlanda. Þar eru rædd sameiginleg málefni Lions á Norðurlöndum og þá erum við komin í aðra skammstöfun sem er   NSR. Norrænt samstarfsráð, skammstafað NSR er myndað af Fjölumdæmisráðum Norðurlandanna fimm. Tilgangurinn með NSR, eins og hann er skilgreindur í sameiginlegum markmiðum er að styrkja og þróa Lions hugsjónina og Norrænu samkendina, að vinna saman í alþjóðahreyfingunni og aðstoða hjálparþurfi með sameiginlegum verkefnum. Innan NSR eru mörg og skemmtileg verkefni. Það verkefni sem nú er í brennidepli er kynning á Lions- Quest verkefninu í Kroatíu.

Fast verkefni til margra ára hefur verið Orkester Norden sem er eitt af mörgum Norrænum samstarfsverkefnum Lionshreyfingarinnar. Upphafið á sér rætur í Svíþjóð á árunum 1986 - 1987, þegar þáverandi alþjóðaforseti fól sænskum Lionsfélaga, Lennart Fridén, að finna samnorrænt verkefni fyrir ungt fólk á aldrinum 15 -25 ára.

Unglingaskipti / Ungmennaskipti Lions er eitt stærsta alþjóðlega verkefni Lions. Ungu fólki er gefin kostur á að kynnast daglegu lífi, starfi og menningu annarra þjóða með því að búa hjá fjölskyldum Lionsmanna í öðrum löndum, ásamt því að dvelja í unglingabúðum. Þetta verkefni hefur á margan hátt komið inn á NSR og hafa Norðurlöndin haft samvinnu og samstarf um þetta verkefni.

Mörg fleiri verkefni hafa verið á borði NSR. Mörgum er lokið sem átaksverkefnum, önnur hafa staðið árum saman og er samstarfið alltaf í skoðun. Lionsfélögum á Norðurlöndum þykir þetta samstarf svo til fyrirmyndar að haldið er árlega, sérstakt NSR þing til skiptis í löndunum fimm. Næsta NSR þing verður haldið í Trollhattan í Svíþjóð í janúar 2013.

Lionsblaðið okkar

Það vakti sérstaka athygli mína í síðasta Lionsblaði að þar var farið yfir hin ýmsu verkefni sem Lions stendur fyrir um þessar mundir. Verkefni eins og  Baráttan gegn ólæsi, MedicAlert verkefnið, Friðarveggspjalda- og ritgerðarsamkeppni um frið, one shot, one life, minnir okkur á Mislingaverkefnið og síðan er komið inn á í grein Guðrúnar Bjartar að alltaf er okkar aðalverkefni að styðja við baráttuna gegn blindu í heiminum. Allir Lionsfélagar eiga að taka það til sín að með þátttöku sinni innan Lions eru þeir að stuðla að öllum þessum verkefnum, bæði með beinum og óbeinum hætti. Félagar eiga að vera meðvitaðir um það, þegar spurt er ,, hvað eru þið að gera í Lions“ að geta vitnað í þessi fjölmörgu verkefni, ásamt verkefnum hjá sínum klúbbi.

Í næsta blaði kem ég lítilega inn á Fjölumdæmisráðsfund sem haldinn var þann 17. nóvember að Hótel Örk í Hveragerði. Einnig er sagt frá formannafundi sem var í Lionsheimilinu hinn 15. nóvember s.l. Fundargerðir beggja þessara funda eru inn á lions.is og tel ég því ekki ástæði til að fjalla frekar um þessa ágætu fundi í þessum pistli.

Sykursýkismælingar Lions

Það fór varla fram hjá nokkrum manni að Lions hefur staðið fyrir sykursýkismælingum í nóvember. Smátt og smátt er okkur að takast að vekja athygli á þessari litlu aðgerð sem þessi mæling er og því að vara þá við sem mælast með of hátt sykurhlutfall. Fjölmiðlar landsins, ásamt heilsugæslustöðvum og lyfjabúðum hafa nú tekið höndum saman um að aðstoða okkur Lionsfélaga með þetta verkefni. Á næsta ári verðum við að vera undirbúin með skrá inn á lions.is í upphafi nóvembermánaðar, hvar, hvenær og á hvaða tíma mælingar fara fram á hinum ýmsu stöðum, allt í kringum landið. Þetta er góð kynning á Lions og ekki síður það að þarna erum við að leggja lið við að finna sjúkdóm sem er mikill vágestur í okkar samfélagi.  

Kæru félagar!

Ég geri mér grein fyrir því að nú fer í hönd sá tími sem fjölskyldan er í fyrirrúmi. Sumir klúbbar nýta þó þennan tíma til sértækra fjáraflana í tilefni jólanna. Margir klúbbar eru með sérstaka jólafundi og er þá jafnan fjölskyldunni boðið á fund og er það vel. En hið almenna markvissa og mikla Lionsstarf fer í aðeins lægri gír nú næstu vikurnar.

Lesandi góður!

Hafðu þökk fyrir að lesa þessar hugrenningar. Ég óska öllum Lionsfélögum og fjölskyldum þeirra gleðilegrar hátíðar og ánægulegra áramóta. Megi nýtt ár færa okkur öllum styrk og þor til að takast á við verkefni komandi árs.

Kristinn G. Kristjánsson
Fjölumdæmisstjóri  109

Pistill 5 - 1. nóvember 2012

 Ágætu Lionsfélagar um land allt.

 Hratt flýgur stund og nú er kominn vetur. Þegar ég set þetta á blað er spáð feiknar roki eða eins og stundum er sagt ,,vonsku veðri“.

Og þá að Lionsstarfi. Frá síðasta pistli hefur starfið snúist um að undirbúa og ganga frá ferð á NSR í Svíþjóð og CC fund í Kaupmannahöfn. Undirbúa fjölumdæmisráðsfund, skoða aðstæður fyrir fjölumdæmisþing á Akureyri, vera í sambandi við félaga vítt og breitt um landið og fylgjast með gangi mála.

Samfundur á Akureyri og fundir í nóvember

Samfundur var haldinn á Akureyri hinn 6. október og mættu þar um 30 manns. Þar sem ég hef í gegnum árin helst verið í kringum klúbba í 109 a, var það mér mikil upplifun að koma í fyrsta sinn í sal Hængsmanna á Akureyri. Það er mikill styrkur fyrir Lionsfélaga á Akureyri að eiga slíkan samastað. Á fundinum var farið yfir stöðu mála, talað um þingið í vor og starfið framundan. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka góðar móttökur hjá Lionsfélögum á Akureyri.

Það er rétt að minna á að Guðmundur Helgi, umdæmisstjóri 109 a heldur umdæmisstjórnarfund í Lionsheimilinu, laugardaginn 3. nóvember og síðan er Tryggvi Kristjánsson, umdæmisstjóri 109 b með sinn umdæmisstjórnarfund daginn eftir eða á sunnudeginum 4. nóvember, einnig í Lionsheimilinu. Síðan verður fjölumdæmisráðsfundur laugardaginn 17. nóvember á Hótel Örk í Hveragerði. Ég vil einnig vekja sérstaka athygli á allir eru velkomnir á formannafund sem haldinn verður í Lionsheimilinu, miðvikudaginn 15. nóvember kl. 20:00      

Nóvember mánuður jafnvægis

 Þagar þessum tímamótum er náð í starfinu þ.e., komin fyrsti nóvember, finnst mér eins og starfið hjá hreyfingunni sé í jafnvægi, allir klúbbar komnir á fullt skrið, umdæmisstjórar okkar heimsækja nú hvern klúbbinn á fætur öðrum og fá upplýsingar um gang mála. Félagar okkar sem eru í umdæmisstjórnum og fjölumdæmisráði eru önnum kafnir við að halda utan um sína málaflokka. Ég hef fengið fréttir frá flestum um störf þeirra og eru margir þeirra að gera góða hluti.

Verkefnin í nóvember eru ærin en flestir klúbbar sinna verkefnum á svið sykursýkisvarna og miða þá gjarnan við að vera með verkefni sem næst 14. nóvember sem er dagur tileinkaður þessu verkefni. Nú eru allir klúbbar komnir með verkefni sín í skoðun og eða undirbúning og sumir komnir á fullt skrið. Margir klúbbar eru með verkefni sem tengjast jólahaldi. Má þar nefna, tónleika, undirbúning að jólakortasölu, útgáfu blaða, sölu á ýmsum varningi og margskonar verkefni sem tengjast næstu tveimur mánuðum.  

Námskeið svæðisstjóra

 Framundan er svæðisstjóranámskeið 3. nóvember og vona ég að allir svæðisstjórar nýti sér það að fara yfir verkefni og helstu áherslur sem starf svæðisstjóra felur í sér. Það hefur verið lögð heilmikil vinna við að yfirfara allt viðkomandi námsefni og ætti það að styrkja störf svæðisstjóra. Ef einhver af okkar góðu svæðisstjórum hefur ekki tök á því að mæta, ætti sá sem tekið hefur að sér svæðisstjórastarf að verða sér úti um gögn sem farið er yfir á námskeiðinu. Þó er það aldrei svo að það skili jafngóðum árangri. Best er að hafa leiðbeinanda og þar með umræður um námsefnið. Gera fyrirspurnir og fá skýringar, átta sig á hugtökum og deila því með þeim sem hafa reynslu og þekkingu.

 Að kjósa um félaga og fá félaga til að sækjast eftir embættum

 Það er freistandi fyrir mig, þar sem framundan er námskeið svæðisstjóra, að koma þeirri skoðun minni á framfæri, og þá jafnframt að afla henni fylgis, að við þurfum að stefna að því að svo margir verði í framboði til svæðisstjóra, að það verði regla að kjósa um félaga til að gegna þessu mikilvæga embætti. Ég sé það fyrir mér að sá klúbbur sem hingað til hefur verið skikkaður til að skaffa svæðisstjóra, verði gerður ábyrgur fyrir að fá félaga frá öllu svæðinu til að gefa kost á sér sem vara svæðisstjóra. Kosning færi fram eigi síðar en í febrúar ár hvert og sá er kosinn yrði tæki síðan við sem kjörinn vara svæðisstjóri 1. júlí sama ár. Vara svæðisstjóri gæti þá stutt og starfað með svæðisstjóra í eitt ár.

Til að rökstyðja þessa hugsun er nánast nægjanlegt að benda á að enginn yrði gerður formaður klúbbs á fyrsta ári. Allavega ekki nema þegar við erum að stofna nýjan klúbb. Að hafa eins árs aðlögun til undirbúnings skemmtilegu starfi, og gegna því svo næsta ár, væri góð regla. Tíminn mun líða svo hratt, að hver sem tekur þetta að sér, veit ekki fyrr en hann er orðin fráfarandi. Þá verður hans eina hugsun: ,,Mikið var þetta gaman, skyldi ég ná kosningu, ef ég byði mig fram aftur“. J   

Áður en ég læt þessum pistli lokið, vil ég minna alla Lionsmenn á, að gefa sér tíma til að fara inn á lions.is  og fylgjast með því mikla Lionsstarfi sem jafnan er í gangi um allt land. Þar koma inn fundargerðir umdæmisstjórna og fjölumdæmisráðs og margvíslegur fróðleikur, ásamt ýmsum upplýsingum frá yfirstjórn hreyfingarinnar. Ég vil benda á að ekki væri nú slæmt að fá stutt yfirlit úr fundargerð svæðisfunda þarna inn. Það mætti hugsa sér að gera eyðublað til að fylla út, þar sem helstu atriði væru dregin úr fundargerð. Þá væri þetta hnitmiðað og þar kæmu fram helstu fréttir af svæðum. Hver grípur boltann og tekur málið að sér?  

Lesandi góður! 

Hafðu þökk fyrir að lesa þessar hugrenningar. Ég óska þess að allir félagar í Lions eigi framundan veðurgóðann nóvembermánuð og árangursríkt Lionsstarf. 

Kristinn G. Kristjánsson
Fjölumdæmisstjóri  109

Pistill 4 - 1. október 2012

Ágætu Lionsfélagar um land allt.

Það er komið  haust og fjórði mánuður starfsársins fer nú í hönd. Þetta er mánuður sem hvatt er til fjölgunar í Lions, mánuður, þegar Lionsstarfið er hafið og allir vænta mikils af stjórnum klúbba sinna og nefnda.

Október hefur verið tileinkaður sjónvernd og tveir dagar standa þar fremst. Alþjóðlegi  sjónverndardagurinn er 11. október og dagur ,,Hvíta stafsins“ er 15. október. Þetta minnir okkur á að Lionshreyfingin hefur í áratugi haft sem aðalsmerki að styðja við verkefni sem á margvíslegan hátt hafa stuðlað að því að koma í veg fyrir blindu eða staðið fyrir rannsóknum og tækjagjöfum sem hjálpað hafa tugþúsundum manna að halda sjón eða endurheimta. Bara það eitt og sér að helga krafta sína þessum málaflokki er verðugt verkefni,  þó svo ekkert annað væri á dagskrá. Í þessum málaflokk er búið að lyfta ,,Grettistaki“ með fjáröflunum og styrkjum svo eftir er tekið um allan heim.

Allir Lionsfélagar vita að verkefnaval klúbba er svo fjölbreytt að vart er hægt að telja það allt upp. Ég er þess fullviss að öll þau verkefni sem Lionsklúbbar og hreyfingin í heild hafa staðið að eru gerð af heilum hug og koma að góðum þörfum. Það gæti þó læðst að manni sá grunur að ef til vill dreifum við kröftum okkar of mikið.

Mig langar að birta hér nokkur brot úr ræðu minni á fjölumdæmisráðsfundi sem haldinn var í Munaðarnesi 1. og 2. september s.l. og er þar fyrst fjallað um fjármál en síðan um hin ýmsu verkefni.

Fjármál hreyfingarinnar

Fjármál hreyfingarinnar hafa nú hin síðustu ár verið í ágætis jafnvægi hvað varðar tekjur og útgjöld, og það er vel. Síðan blasir sú spurning við, hversu lengi getum við vænst þess að félagar greiði að stórum hluta útgjöld vegna málaflokka sinna fyrir hreyfinguna. Félagar eru misvel í stakk búnir til að kosta af eigin fé, ferðir til fundarhalda, uppihald og jafnvel gistingu. Þegar ég fór að setja niður fyrir mér hversu hreyfingin er tæpt rekin, sá ég að ekkert má út af bera. Mæli ég í engu því bót, ef ekki er gætt ýtrasta sparnaðar við rekstur hreyfingainnar. En síðustu ár buðu ekki upp á hækkanir á framlögum félaga til Fjölumdæmissins. Það er hinsvegar staðreynd að árgjald til fjölumdæmissins er mjög knappt skorið. Þetta þarf að skoða til lengri tíma og sjá hvernig þróun mála gæti verið næstu þrjú til fimm árin......

Um verkefni hreyfingarinnar

Því verðum við að vera vakandi yfir því, hver eiga að vera stóru verkefnin, hafa þau fá, en geta gert betur í því sem við viljum virkilega styðja við. Marka skýra stefnu og sýn á það sem við erum að gera hverju sinni, en dreifa ekki kröftum okkar þannig, að lítið skili sér..

Við erum með Unglingaskipti. 10  til 15 unglingar heimsækja Ísland á okkar vegum. Hafa verið tekin viðtöl við þau og fengist birt í dagblöðum. Höfum við sjálf áhuga á að vita hvaðan þau koma og hvernig þeim fannst upplifun af því að vera á vegum Lions.......

Við erum með heila sinfóníuhljómsveit, kennda við Orgester Norden, undir flokknum Menningarmál. Höfum við spurt hvernig íslensku þátttakendurnir hafi staðið sig, eða hvort þeir hafi notið þess að vera á vegum Lions......

Við erum með umhverfismál á okkar vegum. Hvað viljum við sjá að gerist þar......

Við erum með Alþjóðasamskiptastjóraembætti .......  Ég hlakka til að fræðast meira um gildi og kosti þessa embættis .......

Við erum með Heilbrigðisstjóraembætti. Þar undir er sykursýki, heyrnarvernd, mislingar, sjónvernd og margt fleira...........  en hvernig er kynningin fyrir okkur sem Lions og hverjar eru eftirtekjurnar. Ég verð stundum svo sár, þegar mikið er lagt undir og bara nokkrir koma.

Við erum með LionsQuest. Einstaklega áhugavert verkefni á sínum tíma.......... Getum við siglt því þannig, að sómi sé að eða eru þetta máttleysisleg vinnubrögð.

Við erum með kynningarstjóraembætti. Þar er nýr maður í forystu. Á síðasta ári var tekið vel á í kynningarmálum. Vorum við þar á réttri leið? Eða eigum við að horfa til annarra leiða......

Við erum með Ungmennaverkefnastjóra. Það er vel því ekki státum við af Leóklúbbum......   

Við erum með Medi Alert verkefni. Þar höfum við nánast rekið dótturfélag. Höfum við ljáð því þá athygli sem þarf........

Við erum með íslenskann og alþjóðlegan hjálparsjóð og við biðjum um framlög til þeirra til skiptis. Ég skil málið, en þarf ekki að koma með markaða stefnu? Ég var fylgjandi tillögunni um tíund inn í alþjóðahjálparsjóðinn. Hún var ekki einu sinni skylda, heldur tilmæli, samt var hún feld, tillagan sú.

Við erum með skráða um 90 klúbba inn á netinu okkar. Það gera hið minnsta 90 verkefni á vegum klúbba um land allt ....

Þá er bara spurningin. Erum við að dreifa kröftum okkar í of margar áttir.......
Ágæti Lionsfélagi.

Þetta voru nokkur brot úr umfjöllun sem kom upp á Fjölumdæmiráðsfundinum  í Munaðarnesi um síðustu mánaðarmót. Er þetta eitthvað sem við Lionsfélagar þurfum að skoða? Þurfum við ekki  að hafa heildarsýn yfir þau verkefni sem Lions er að styðja. Þetta er hér sett fram til umhugsunsar.

Þá eru það fjölgunarmál:

Það getur stuðað, orðið ,,Fjölgun“. Af hverju er sumum svo umhugað um að fjölga? Við erum jú býsna mörg og erum í góðum félagsskap sem heitir Lions. Heildarfélagatal er um og í kringum 2.300 það er nú bara ekki svo lítið. Þeir sem best þekkja til uppbyggingar Lionhreyfingarinnar eiga góða skýringu á því að við eigum að fjölga í hreyfingunni. Hún er sú að alþjóðalög Lions segja að til að unnt sé að stofna ,,umdæmi“ þarf að vera á bak við það 1250 félagar. Við náðum þeim fjölda á níunda áratugnum enda eigum við íslenskir Lionsfélagar tvö umdæmi, þ.e. 109 a og 109 b. Er þá yfir nokkru að kvarta? Jú, annað og stundum bæði umdæmin fylla ekki upp skilyrði fyrir því að vera löglegt umdæmi. Þarna höfum við skýrt markmið. Við verðum að vera hið minnsta 2500 til að geta haft tvö lögleg umdæmi ( höfum verið á undanþágu í nokkur ár ). Ég er ekki viss um að hinn almenni klúbbfélagi sé neitt að velta þessu fyrir sér. En þegar kemur að allri stjórnun og skipulagi hefði það ógnvekjandi afleiðingar ef við misstum rétt á því að kallast fjölumdæmi. Koma þar margvísleg rök til og Lionshreyfingin á Íslandi yrði ekki söm eftir. Því segi ég markmið með fjölgun er að við séum ekki undir 2500. Þetta á að vera skýr stefna og ófrávíkjanleg ( og er það í reynd). Þá komum  við aftur að grunneiningunni í okkar starfi sem er Lionsklúbburinn. Skiptir þetta einhverju máli fyrir hann? Ef til vill sést það ekki fljótt á litið, svo þetta er ekki að angra klúbbanna að neinu marki. Sumir eru sælir með klúbbinn sinn en eru þó ekkert að flýka því við vini og kunningja, hvað það getur verið gaman í Lions. Einn daginn hefur klúbburinn svo elst um 15 ár. Þeir sem gengu til liðs við klúbbinn á þeim góða aldri t.d. 45 ára eru nú komnir á sjötugsaldur, ekkert slæmt við það en þá er komið of mikið kynslóðabil til að bjóða 35 ára einstakling í klúbbinn, þar sem allir eru yfir 60 ára. Þetta vandamál gerist ofur hægt en svo vakna klúbbfélagar upp einn daginn og sjá að þeir sofnuðu í vellíðan á verðinum í klúbbnum sínum með það að halda góðri aldursdreifingu. Ég man þá tíð fyrir 33 árum að mér fannst heiður af því að vera með jafnöldrum en í meirihluta, mér eldri mönnum, þegar ég gekk í Lions.

Ráð til þess að halda félagatölunni er að hafa það alltaf í huga að fá einn og einn nýjan félaga á hverju ári í hópinn. Ef við höldum vel utan um félaga okkar sem koma nýjir inn og missum þá ekki frá okkur aftur, þarf ekkert að vera að tala um fjölgun. Besta ráðið til að halda klúbbum gangandi er að styrkja starf klúbbsins á alla vegu. Hafa heppileg verkefni, hafa skemmtilega fundi sem oftast, hafa alvarlega fastmótaða fundi þar sem félagsmál klúbbsins eru tekin fyrir, þannig að nýjir félagar hafi sýn á markmið klúbbsins, verkefni hans og fjáraflanir. Það þarf að upplýsa nýja félaga um að þeir eru ekki bara klúbbfélagar í sínum klúbbi, heldur eru þeir þátttakendur í öflugustu frjálsu alþjóðasamtökum veraldar. Láta hvern félaga í klúbbnum vita það og skynja að með þátttöku sinni innan Lions er það ekki bara verkefni klúbbsins, sem stutt er við, heldur er hver og einn einstaklingur hlekkur í stórri alþjólegri keðju sem helgar sig því að láta gott af sér leiða. Ég tel það vera verkefni á svæðisgrunni eða á hendi Umdæmisstjórna að stuðla að því að stofna nýja klúbba. En það er á hendi hverrar stjórnar að koma  því svo fyrir að það komi minnst einn til tveir nýjir félagar í klúbbinn á hverju ári. Til að fá nýja félaga eru  til margar aðferðir, sumar góða, aðrar ófærar. Formenn eiga að ræða þetta á svæðisfundum og kanna hvernig þetta er gert í öðrum klúbbum. Hvað hefur gefist vel og hvað illa. Við skulum ekki tala um fjölgun, heldur hvað það er gaman í Lions og hvað Lions hefur áorkað miklu á sviði velferða og mannúðarmála. Segjum vinum og kunningjum frá því hvað Lions stendur fyrir og hvað starfið er í eðli sínu fjölbreitt. Látum það fréttast að það er gaman í Lions. Þá verður ekkert minnst á fjölgun, hún kemur af sjálfu sér.

Kristinn G. Kristjánsson

Fjölumdæmisstjóri  109 

Pistill 3 - 1. september 2012

Ágætu Lionsfélagar um land allt.

Þegar þessi pistill fer á netið er ég staddur í Munaðarnesi, ásamt um 50 öðrum Lionsfélögum. Að koma saman 50 manna ráðstefnu um málefnin Lions og til að blása þrótti og áhuga í þá félaga sem hafa tekið að sér forystu í stjórnun í hinum ýmsu málaflokkum, kallar á heilmikinn undirbúning. Það verður að segjast að það liggur mikill tími hjá mörgum félögum í undirbúning fyrir verkefni starfsársins. Ég fyllist stolti yfir að vera meðal þessa góða fólks sem fórnar tíma sínum í þágu þess málefnis sem við Lionsmenn stöndum fyrir, þ.e. ,,We serve“

Klúbbar að hefja vetrarstarf

Nú er að hefjast sá tími sem allir klúbbar hefja vetrarstarfið. Ég átti erindi við einn af nýrri félögunum í mínum klúbbi í vikunni. Ég var vart búinn að heilsa, þegar hann spurði. ,,Hvenær verður fyrsti fundur“ og það lá eftirvænting í orðum hans. Hann sagðist hlakka til að hitta félagana og koma á fyrsta fund. Þessa eftirvæntingu hef ég jafnan borið í brjósti á hverju hausti, og þá ekki síður nú, að fá tækifæri til að hitta alla sem tekið hafa að sér ómælda vinnu í yfirstjórn hreyfingarinnar. Að fá að vinna með þeim sem af elju og fórnfýsi leggja sig fram um að leiðbeina og hjálpa, gera átak um framvindu mála og eru boðnir og búnir til að koma á fundi, miðla af reynslu sinni, leggja í mikla undirbúningsvinnu til að koma málum áfram og standa vörð um einkunnarorð Lionsmanna. Við leggjum lið. 

Kynning í Norrænahúsinu 

Ég fékk tækifæri, miðvikudaginn 15. ágúst, til að vera í Norrænahúsinu Þar var saman kominn nokkur hópur manna til að vera við opnun á nýjum íslenskum talgervli. Það var ótrúleg upplifun að heyra lesið af tölvu, mjög erfið orð og orðabeygingar. Talgervillinn les margskonar skjöl, getur lesið af vefsíðum og mörgum öðrum rafrænum og nútímalegum samskiptamátum. Við Lionsmenn stóðum að þessu verkefni með fjárhagslegum stuðningi. Það var landssöfnun 2011, undir merkjum Rauðu fjarðrarinnar sem fór til þessa verkefnis og megum við Lionsmenn vera mjög stoltir af. Að  ljá blindum hjálparhönd hefur jú verið okkar aðalsmerki, nánast frá upphafi hreyfingarinnar. Það var frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti, sem opnaði formlega fyrir raddir þeirra Dóru og Kalla. Að heyra tölvu lesa, hnökralaust og nánast óaðfinnanlega, texta með öllum sínum fjölbreytileika í orðum og endingum, svo ég tali nú ekki um, þegar sum orð í íslansku eru skrifuð eins en borinn fram á allt annan veg, eftir þvi fyrir hvað þau standa.

Fundur, Ameríka > Norðurlönd  

Ég var líka stoltur af fyrrverandi alþóðastjórnarmanni okkar, Jóni Bjarna, þegar hann ávarpaði fjölumdæmisstjóra og GMT stjóra Norðurlanda í gegnum Webinar-kerfi í upphafi fróðlegs fundar og síðan aftur í lokin. Þetta var nærri klukkutíma fundur sem sendur var út frá  Bandaríkjunum ,,Í beinni“ með þátttöku fyrrgreindra Lionsfélaga. Efnið var meðal annars um það hvernig þróun klúbba er. Hvar eru veikleikar eða styrkur. Hvernig eru klúbbar, sem skara fram úr, byggðir upp. Hvernig koma verkefni þeirra fram. Þarna var fjallað um ,,Gullklúbba og Bláklúbba“ og sýnt fram á hvar veikleikarnir lægju. Þetta var einstaklega fróðlegt og væri gaman að sjá þessar rannsóknir settar fram fyrir okkur hér heima með skýringum. 

Umdæmisstjórarnir okkar 

Nú fer í hönd  annasamur tími hjá þeim Guðmundi Helga og Tryggva Kristjánssyni sem tóku að sér starf umdæmisstjóra í 109 A og B, þetta starfsár. Þeir hafa einsett sér að heimsækja alla klúbba í umdæmum sínum og kostar það mikinn tíma og skipulag. Ég veit þó af reynslu að þetta gefur þeim, sem fá þetta tækifæri, ómælda gleði og mikla ánægju. Ég hvet klúbbstjórnir til að taka vel á móti þeim og efa ekki að svo verði. Þeir koma með upplýsingar og fróðleik sem þeir geta miðlað inn í klúbbastarfið. Þeir eru tákn þess að við erum ein fjölskylda, einn samhljómur og erum alþjóðleg samtök. Þeir kynna áherslur alþjóðaforseta Lions og eru fulltrúar hans. Þeir munu hvetja klúbba til að starfa í anda mannúðar- og velferðarmála. 

Áður en ég læt þessum pistli lokið, vil ég minna Lionsmenn um land allt á að gefa sér tíma til að fara inn á lions.is  og renna yfir fundargerðir þeirra funda sem haldnir verða í Munaðarnesi 1. – 2. september.

Lesandi góður! 

Hafðu þökk fyrir að lesa þessar hugrenningar. Ég óska þess að allir félagar í Lions eigi framundan gott og árangursríkt Lionsstarf.

Kristinn G. Kristjánsson

Fjölumdæmisstjóri  109 

Pistill 2 - 1. ágúst 2012.

Ágætu Lionsfélagar um land allt.

Hratt flýgur stund og nú er fyrsti mánuður nýs starfsárs Lionsfélaga liðinn. Við hér á fróni höfum þá skipan á okkar Lionsstarfi að klúbbar gefa fundafrí, oftast frá miðjum maí og fram í september. Þó er í flestum klúbbum komið saman að sumri, til einhverra verka, skemmtana eða til þess sem hver klúbbur setur sér. Það er þó ekki svo að Lionsstarf liggi niðri þessa sumarmánuði. Stjórnir klúbba og embættismenn hreyfingarinnar nota þessi kaflaskil til að endurmeta og skipuleggja starfið framundan. Því er ágúst mánuður fullur af Lionsstarfi. Ég vil nú í upphafi þessa mánaðar hvetja allar stjórnir til að koma saman eins fljótt og unnt er. Því fyrr því betra. Setjast saman eitt kvöld og kortleggja þá áherslupunkta sem stjórnir og embættismenn vilja leggja áherslu á. Umdæmisstjórar beggja umdæmanna eru búnir að skipuleggja sitt starf og kortleggja það sem er framundan. Munu þeir örugglega hvetja svæðisstjóra og stjórnir klúbba til að efla andann og fylkja félögum saman um öll þau góðu mál sem Lions lætur sig varða.

Það er því í þessum anda sem ég hef ákveðið að kalla saman alla þá sem eru í fjölumdæmisráði og geta, með góðu móti, komið á fund um miðjan ágúst. Þetta væri fundur sem hefur ekki fyrirfram mótaða dagskrá, heldur væri varpað fram spurningum  um hin ýmsu málefni og skipst á skoðunum um þau. Má þar nefna, fjölgunarmál, verkefni vara- fjölumdæmisstjóra, fjármál hreyfingarinnar, fræðslumál, föst verkefni, skipan svæðisstjóra og margt fleira. Það er mín skoðun að á hefðbundnum fjölumdæmisráðsfundum fari tíminn meira í skýrsluskil og fyrirfram fastmótaðar umræður, þannig að almenn mál um hvaðeina innan Lions verði þar útundan.

Svona hugarflugsfundur gæti gefið mér innsýn í hvað brennur á fjölumdæmisráðsmönnum, hvar væri hægt að betrumbæta og hvar fleiri þyrftu að koma að verkefnum. Verum minnug þess að við eigum gífurlegan sjóð þekkingar um margvísleg málefni í góðum mannafla inna Lions. Ef við leitum til félaga eru þeir alltaf tilbúnir að leggja lið.

Fyrirlestur s.l. vor.

Eitt fyrsta embættisverk mitt sem staðgengill fjölumdæmisstjóra s.l starfsár var að setja fund í Norrænahúsinu hinn 24. apríl  í vor. Þar hafði Jón Bjarni fengið til liðs við hreyfinguna einstaklega áhugaverða fyrirlesara um málefnið  ,,offitu“  Það má segja að við höfum sennilega þjófstartað því að fleiri hefðu mátt mætta á fyrirlesturinn. Það var svo nokkru seinna að fjölmiðlar voru uppfullir af því að íslenska þjóðin væri að verða alltof þung og nú þyrfti að gera eitthvað. Ef einhver þjófstartar þá er hlaupið ræst aftur og efa ég ekki að við munum kanna möguleika að endurtaka eða hafa annan fyrirlestur um þetta efni.

Unglingabúðir og heimagisting

Mér var það heiður að mæta á setningu unglingabúða í Garðinum hinn 5. júlí s.l. Þar mætti ég í fyrsta skipti fyrir hönd hreyfingarinnar sem fjölumdæmisstjóri. Þarna var saman kominn glaðlegur hópur ungmenna á aldrinum 18 til 20 ára. Þetta voru 13 ungmenni og komu þau frá 11 löndum, auk þess er von á unglingi frá Japan í ágúst. Slíkar búðir eru kjörinn vettvangur til að efla skilning milli þjóða og kynnast menningu og lífsháttum í öðrum löndum.

Flest komu þau til landsins viku fyrr og höfðu dvalið í heimagistingu á svæði 3 í a umdæmi. Höfðu klúbbarnir á svæðinu skipulagt ferðir og tekið ungmennin inn á heimili sín. Síðan fengu þau rútuferð á Reykjanesið  þar sem búðirnar stóðu í tvær vikur á vegum svæðis  5 í a umdæmi. Þau gistu í grunnskólanum í Garði og þaðan voru síðan skipulagðar fræðsluferðir og margt til fróðaleiks gert. Unglingaskiptastjóri, Pálmi Hannesson og unglingaskipatafulltrúi 109 a, Jórunn Guðmundsdóttir voru skipuleggendur, ásamt klúbbunum á svæðinu. Þeir sem komu þarna að verki og höfðu veg og vanda af þessu verkefni eiga þakkir skyldar.

Starfið framundan.

Fjölumdæmisstjórn hefur ákveðið að halda fyrstu umdæmis- og fjölumdæmiráðsfundi starfsársins 2012 – 2013, helgina 1 – 2 september 2012. Við munum halda þessa fundi í Munaðarnesi og er staðarval ekki síst til þess fallið að jafna ferðalög sunnan og norðanmanna. Við munum samkeyra þá þætti sem eiga erindi til allra en síðan mun hver hópur halda sinn sér fund, þ.e. umdæmisstjórnir í sitthvoru lagi og fjölumdæmisráð mun verða með sinn sér fund. Ég vil hvetja félaga um land allt til að lesa fundargerðir þessara fundu. Þær munu koma inn á Lionsvefinn nokkrum dögum eftir fundina. Þarna er mörkuð stefna og getur verið fróðlegt að fylgjast með því hvað þarna fer fram.

Ég skrifaði í síðasta pistli að ég mundi koma inn á starf og stefnu þessa starfsárs í þessum pistli.

Það er þá fyrst til að taka. Ég hef hugsað mér að senda frá mér nokkrar línur inn á vefinn við hver mánaðarmót ( vildi helst ekki segja frá því, af því að þá verð ég að standa við það)  Á þessum vettvangi get ég skrifað með öðrum hætti en ef ég væri að senda pistil í Lionsblaðið okkar. Hér þarf ekki að gæta að plássi því þetta fer ekki í prentun. Ég get því skrifað meira og lengra mál í þessum pistlum en ef þetta væri fyrir blaðið. Ég hef því einnig ákveðið að vera með þeim mun styttri greinar í  blaðinu okkar, en benda þess í stað, félögum á að far inn á Lions.is, ef þeir vilja fylgjast með hvað er að gerast hjá fjölumdæminu frá mánuði til mánaðar.

Starf Lions á Íslandi er í nokkuð föstum skorðum, enda hreyfingin komin á sjötugs aldur hér heima. Það verða því ekki miklar breytingar en einhver blæbrigðamunur verður á málefnum og verkum, þegar nýir stýrimenn taka við.

Yfirstjórn og embætti

Fyrir þá sem ekki þekkja mikið til um yfirstjórn hreyfingarinnar þá vil ég skýra nokkur heiti.

  • Fjölumdæmisstjórn: Þar eiga sæti, Fjölumdæmisstjóri 109, Umdæmisstjóri 109a og umdæmisstjóri 109b. Þetta er æðsta stjórn Lionshreyfingarinnar á Íslandi milli fjölumdæmisþinga.
  • Fjölumdæmisráð: Þar eru skipaðir og eða kjörnir svo nefndir ,,stjórar“ t.d. kynningarstjóri, unglingaskiptastjóri, GMT stjóri, GLT stjóri  o.s.fr. Í fjölumdæmisráði eiga líka sæti fjölumdæmisritari og fjölumdæmisgjaldkeri. Þeir Lionsfélagar sem eru í fjölumdæmisráði eru hver og einn með sitt afmarkaða verkefni og er það á þeirra ábyrgð, ásamt því að gera fjölumdæmisstjórn grein fyrir stöðu mála. Í fjölumdæmisráði eru u.þ.b. 25  manns, getur verið breytilegt milli ára.
  • Umdæmisstjórn: Umdæmisstjóri er æðsti maður Lions í sínu umdæmi. Hann velur ( skipar ) félaga í umdæmisstjórn. Það er undir umdæmisstjóra komið hvað margir eru í umdæmisstjórn en oftast eru það um 25 félagar að meðtöldum svæðisstjórum umdæmisins. Síðan er til heiðursráð umdæmisins og lýtur það sér reglum, en félagar í heiðursráði eiga rétt til setu á umdæmisstjórnarfundum.  
  • Svæði og svæðisstjóri: Umdæmum er skipt niður í svæði,  ca. 8 – 12 svæði í umdæmi. Á hverju svæði er svæðisstjóri, skipaður af umdæmisstjóra. Á hverju svæði eru oftast 4 – 8 klúbbar. Ef svæðisstjóri vill gera fullkomna grein fyrir staðmerkingu embættis síns, tek ég sem dæmi svæðisstjóra á svæði 4 í a umdæmi. Hann  er þá Svæðisstjóri  í 109 a, svæði 4. Á sama hátt væri svæðisstjóri á svæði 3 í b umdæmi, Svæðisstjóri í 109 b, svæði 3. Svæðisstjóri er tengiliður milli klúbba og umdæmisstjórnar og er einn mikilvægasti tengiliður inna hreyfingarinnar.

Nokkrir punktar til áramóta.

Umdæmisstjórar munu hefja starf sitt af fullum krafti undir mánaðarmót ágúst , september. Fjölumdæmisstjóri, unglingaskiptastjóri og alþjóðasamskiptastjóri munu sækja Evrópuþing Lions í byrjun september. Fundur fjölumdæmisstjóra Norðurlanda verður í nóvember og er hann haldinn í Kaupmannahöfn. Fjölumdæmisráðs- og umdæmisstjórnarfundir eru áætlaðir í september og nóvember. Samfundur er fyrirhugaður í lok september eða í október og verður trúlega í Lionsheimilinu. Annar samfundur er fyrirhugaður fyrir áramót og verður trúlega á Akureyri. Margt annað er í farvatninu en læt þetta nægja að sinni um starfið framundan.

      Lesandi góður! 

Hafðu þökk fyrir að lesa þessar hugrenningar. Ég óska þess að allir félagar í Lions eigi framundan gott og árangursríkt Lionsstarf.

Kristinn G. Kristjánsson

Pistill 1 - 1. júlí 2012.

Ágætu Lionsfélagar um land allt.

Nú er gengið í garð nýtt starfsár hreyfingar okkar. Að baki er alþjóðaþingið í Busan í Suður - Kóreu.  Nýr alþjóðaforseti hefur verið kjörinn. Hann heitir Wayne A Madden og kemur frá Bandaríkjunum. Fráfarandi forseti,  Wing-Kun Tam, sýndi okkur íslenskum Lionsmönnum mikinn heiður, þegar það gerðist í fyrsta skipti, að alþjóðaforseti  mætti á  fjölumdæmisþing okkar sem haldið var í Reykjavík í apríl á þessu ári.

Ég vil við upphaf þessa starfsárs óska öllum sem kjörnir hafa verið til trúnaðarstarfa á þessu nýhafna starfsári til hamingju með þann heiður sem félagar þeirra í klúbbnum, á svæðum og í umdæmum hafa sýnt þeim vítt og breitt um landið með því að trúa þeim fyrir forystu í ýmsum málaflokkum, allt frá setu í nefndum til setu í umdæmisstjórnum og í fjölumdæmisráði.
Það er mér efst í huga mikið þakklæti fyrir það traust sem mér var sýnt með kjöri mínu til embættis Fjölumdæmisstjóra á nýliðnu þingi.  Ég mun leggja mig fram um að rísa undir þeim væntingum sem til mín eru gerðar og gera mitt besta til að hlúa að og styrkja þá köllun sem allir Lionsmenn bera í brjósti sér,  það er að þjóna samfélagi okkar bæði heima fyrir og í fjarlægum löndum. Rétta fram hjálparhönd öðrum til heilla og samfélaginu til góðs.

Kjörorð mitt fyrir þetta starfsár er ,, Spor okkar eru fræ framtíðar“.  Ég vil undir þessu kjörorði hvetja félaga til að sýna gott fordæmi í störfum sínum því þeir eru fyrirmynd þeirra sem á eftir koma.
Skari einstaklingur eða klúbbur framúr hækkar viðmið þeirra sem á eftir koma og vilja gera enn betur. Þannig eflum við starfið, styrkjum  góðan félagsanda og eflum það góða orðspor sem Lionshreyfingin hefur meðal þegna þjóða.

Um leið og ég óska öllum velfarnaðar í starfi á komandi starfsári innan Lions vil ég þakka öllum sem réttu fram vinnufúsar hendur og lögðu sig fram um að vinna fyrir Lionshreyfinguna á síðastliðnu starfsári. Þar voru margir tilkallaðir og halda margir áfram af fullum krafti. Hafið mikla þökk, kæru félagar fyrir allt ykkar mikla starf undir merki Lions.
Það er mér heiður og ánægja að þakka sérstaklega forvera mínum,  Árna Friðrikssyni fyrir hans starf sem Fjölumdæmisstjóri. Ég vil á þessum tímamótum  færa honum og fjölskyldu hans þakkir fyrir að hafa staðið í brúnni og siglt skútunni heilli í höfn. Megi mér takast á sama hátt að sneiða hjá skerjum og brimöldubrjótum.

 

Alþóðaþingið í Busan

Kæru félagar!

Ég vil byrja á að þakka öllum ferðahópnum sem sótti alþjóðaþingið, fyrir einstaka samstöðu, skemmtilegar stundir og góða vináttu á ferð okkar til Asíu. Að eiga góða ferðafélaga gerir allar ferðir ánægjulegar.

Það var nú sem alltaf einstök upplifun fyrir þá sem áttu þess kost að sitja alþjóðaþing Lions sem haldið var í Busan í Suður-Kóreu. Verðandi umdæmisstjórar okkar,  þeir Guðmundur H. Gunnarsson og Tryggvi Kristjánsson sátu í umdæisstjóraskóla dagana fyrir þingið. Ekki nóg með að þeir væru frá morgni til kvölds á skólabekk  heldur þurftu þær Hrund og Hólmfríður, eiginkonur þeirra, að mæta eldsnemma dags til að fá fræðslu og upplýsingar um Lions. Ég vil nota þetta tækifæri og óska þeim öllum til hamingju með nýtt og krefjandi embætti innan Lions. Að vera umdæmisstjóri er eitt eftirsóttasta og virðingarmesta starf sem Lionsfélagi getur tekið að sér. Það reynir á alla þætti félagsmálamannsins, stjórnun, samskipti, skipulag, umburðarlyndi  og mikla vinnu og fórnfýsi en gefur jafnframt ómælda ánægju og innsýn í einstök félagasamtök þar sem Lionshreyfingin kemur beint í æð, blóð og bragð verður litað merki Lions. 

Kæru félagar, Guðmundur og Tryggvi, innilegar heillaóskir og óskir um velfarnað í starfi (ef við værum í Busan að kvöldi dags, hefði ég sagt  ,,Skál“  fyrir ykkur).

Oft er minnst á skrúðgönguna miklu á alþjóðaþingum. Hún er einstök, þúsundir manna í skipulögðum einingum ganga undir merkjum Lions og síns lands, ótrúleg upplifun. Það var á hendi Kristins Hannessonar að skipuleggja göngu ,,Skandinavíu“ eins og við frá Norðulöndum erum kölluð. Hann hélt vel utan um allt skipulag og leysti allra vanda. Ég vil fyrir hönd Lions á Íslandi færa honum einstakar þakkir fyrir mjög gott starf sem NSR Coordinator á alþjóðaþinginu í Busan.

Annar atburður er ekki síður tilefni til þess að vera mikið stoltur Lionsfélagi frá Íslandi. Þau góðu hjón, Guðrún Björt Yngvadóttir og Jón Bjarni Þorsteinsson eru glæsilegir fulltrúar okkar Íslendinga innan alþjóðastjórnar Lions. Vel þekkt og vel metin. Þau hafa sýnt með starfi sínu og elju að með góðu fordæmi, einlægni, ástríðu og vinnusemi leggur maður inn á sjóð virðingar og vináttu sem er betri nokkru öðru og ekki verður keypt á torgum úti. Guðrún hefur nú lokið tveggja ára þjónustu í alþjóðstjórn Lions. Í alþjóðastjórn eru 34 fulltrúar, kjörnir til tveggja ára. Auk þessa fulltrúa hefur skapast sú hefð að til ráðgjafar og sem sérlegur fulltrúi alþjóðaforseta, velur hann sér átta einstaklinga til setu sem sérlega ráðgjafa. Geta það verið nánir vinir alþjóðaforseta,  jafnt sem einhver sem hann ber mest traust til. Það varð ljóst á síðasta degi þingsins að Guðrún Björt Yngvadóttir var valin ein af átta fulltrúum alþjóðaforseta og stóð valið milli fulltrúa frá öllum heiminum. Ég hneigi mig djúpt fyrir þeirri virðingu sem Guðrúnu er sýnd innan alþjóðastjórnar um leið og ég óska henni og manni hennar sem ávallt stendur fast við bak hennar, innilega til hamingju með þennan mikla heiður og virðingarvott. Það sýnir hversu einstaklega vel hún hefur unnið að öllu því sem henni hefur verið trúað fyrir.

Þingið fór fram með hefðbundnu sniði enda komin reynsla á þinghald þar sem þetta var 95. alþjóðaþing Lions. Það er með engu móti hægt að lýsa því að vera staddur meðal tugþúsunda Lionsmanna og finna kraftinn, eindrægnina og félagsandann. Þarna er samankominn hópur tugþúsunda sem vilja rétta fram hjálparhönd á sviði mannúðar, menningar- og umhverfismála. Því Lions lætur sér ekkert óviðkomandi sem getur bætt heiminn og gert líf okkar allra í heiminum betra og fegurra.

Í næsta pistli mun ég koma inn á starfið og stefnu á komandi starfsári.

Lesandi góður! 

Hafðu þökk fyrir að lesa þessar hugrenningar. Ég óska þess að allir félagar í Lions eigi framundan gott og árangursríkt Lionsár. 

Kristinn G. Kristjánsson

Fjölumdæmisstjóri  109