Frá Lionsklúbbi Laugardals, Laugarvatni

Skötuveisla á þorláksmessu. 

Það væri líklega fátt eins fjarri sanni eins og að segja að starfsemi klúbbsins hafi verið með hefðbundnum hætti það sem af er vetri. Fyrir það fyrsta var orðið ljóst þegar byrjaði að hausta að talsverð fjölgun yrði og gekk það eftir svo um munaði. Í fyrstu atrennu stækkaði klúbburinn um helming og enn er að bætast í hópinn. Eru félagar nú orðnir vel á þriðja tuginn og klúbburinn líklega aldrei verið svo fjölmennur sem hann er nú.

Ein af þeim nýjungum sem tekið var upp á í framhaldinu var að klúbburinn stóð fyrir skötuveislu fyrir sveitunga og hvern þann sem vildi. Pantanir fóru fram úr björtustu vonum miðað við að þetta sé í fyrsta sinn og á endanum voru um 80 manns á öllum aldri  sem komu í veisluna. Ljóst að við munum endurtaka þetta að ári og sennilega til frambúðar.  Klúbburinn fékk aðstöðu fyrir skötuveisluna endurgjaldslaust í húsi frá Gistiheimilinu Dalseli á Laugarvatni og eru húsráðendum þar færðar hinar bestu þakkir fyrir.