Fyrsta stóra framlagið í söfnun fyrir sneiðmyndatæki

Mynd_1521915

Í morgun veitti stjórn Hollvinasamtaka Heilbrigðisstofnunar Vesturlands móttöku fyrsta stóra framlaginu í söfnun fyrir nýju tölvusneiðmyndatæki. Það kom frá Lionsklúbbnum Eðnu á Akranesi að upphæð tvær milljónir króna. Steinunn Sigurðardóttir formaður stjórnar Hollvinasamtakanna veittu gjafabréfi viðtöku úr hendi Maríu Kristínar Óskarsdóttur formanns Eðnu. Steinunn þakkaði fyrir hönd hollvinasamtakanna rausnarlega gjöf frá Eðnukonum og María Kristín lét þá ósk í ljósi að þetta framlag yrði öðrum hvatning að veita góðu málefni lið. Steinunn sagði líka af þessu tilefni að söfnunin hefði fengið góðar viðtökur og hún vissi af fleiri framlögum á leiðinni.

Hollvinasamtök Heilbrigðisstofnunar Vesturlands voru stofnuð í janúar síðastliðnum. Stjórn samtakanna ákvað að forgangverkefni yrði að safna fyrir nýju tölvusneiðmyndatæki. Tækið sem nú er í notkun var reyndar einnig keypt fyrir söfnunarfé. Það var keypt gamalt og tekið í notkun í ársbyrjun 2007. Gert var ráð fyrir að það myndi vart endast lengur en fimm ár, þótt tölvuhluti þess væri nýuppfærður. „Því miður eru vissar tölvusneiðmyndarannsóknir aflagðar hér því þetta mikilvæga tæki er að úreldast og ræður ekki lengur við ákveðnar rannsóknir,“ segir Gróa Þorsteinsdóttir fagstjóri myndgreiningar hjá HVE.

Veita ágóða fjáraflana til samfélagsverkefna

Stjórnarkonur í Lionsklúbbnum Eðnu sem afhentu framlagið til kaupa á tölvusneiðmyndatækinu, segja það ágóða af fjáröflunum klúbbsins. Stærstu fjáraflanirnar væru útgáfa almanaks, þar sem klúbburinn nyti stuðnings félaga í Vitanum félags áhugaljósmyndara á Akranesi sem legðu til myndirnar í almanakið. Svokallaður „sveltifundur“ sem haldinn er í febrúarmánuði er líka drjúg fjáröflun hjá lionskonum. Þar njóta þær stuðnings verslana og fyrirtækja á Akranesi sem gefa veglega vinninga í happadrætti. Einnig hafa Eðnukonur séð um veitingar fyrir Verkalýðsfélag Akraness á verkalýðsdaginn 1. maí. Eðnukonur segja að ágóða að fjáröflunum sé ætíð veitt til samfélagsverkefna á Akranesi og nágrenni.

Fréttin er sótt af Skessuhorninu >>>>