Lions styrkir tjónþola á Suðurey í Færeyjum

LionsIsoÖllum er kunnugt hvernig Færeyingar hafa staðið með Íslendingum bæði í deilum við stórþjóðir og ekki síður þegar áföll hafa dunið yfir á Íslandi. Nægir þar að minna á landhelgisdeiluna við Breta, hrunið árið 2008, eldgosið í Vestmannaeyjum og síðast en ekki síst snjóflóðin í Súðavík og á Flateyri. Framlög þeirra vegna þeirra áfalla voru svo rausnarleg að vart eru finnanleg álíka fordæmi þegar jafn lítil þjóð á í hlut.

Lionsklúbbur Ísafjarðar ákvað því að beita sér fyrir söfnun fyrir það fólk sem missti heimili sitt í óveðri sem reið yfir Suðurey í Færeyjum seint á síðasta ári. Þetta voru eldri borgarar sem bjuggu í bænum Tvöroyri á Suðurey. Klúbburinn ákvað að standa myndarlega að þessu og veita eina miljón til þessa verkefnis. Bæjarstjórn Ísafjarðar hefur ákveðið að styrkja þessa söfnun með hálfrar miljón króna framlagi og eftirtaldir Lionsklúbbar hafa sameinast um fimm hundruð áttatíu og fjögur þúsund króna framlag: Lkl. Djúpavogs, Lkl. Björk Sauðárkróki, Lkl. Álftaness, Lkl. Harpa, Stykkishólmi, Lkl. Suðri Vík, Lkl. Ösp Akureyri, Lkl. Grindavíkur, Lkl. Hólmavíkur, Lkl. Reykjavíkur, Lkl. Úa Mosfellsbæ, Lkl. Skagastrandar, Hjálparsjóður Lions.

Lionsklúbbur Ísafjarðar kann öllum þessum aðilum bestu þakkir fyrir stuðninginn við málið sem gerði kleift að tvöfalda framlagið. Þessir fjármunir hafa nú verið sendir til Lionsklúbbsins á Suðurey í Færeyjum sem mun annast framhald málsins. Bæjaryfirvöld á Tvöroyri og Vågur á Suðurey hafa lagt til fjármunirnir verði lagðir í kaup á bifreið sem verði nýtt í þágu eldri borgara á Suðurey sem við trúum og treystum að muni bæta lífsgæði þessa fólks í framtíðinni.

Lionsklúbbur Ísafjarðar hefur á fimmtíu og fimm ára ferli beitt sér fyrir fjölmörgum samfélagslegum verkefnum. Mest áhersla hefur verið lögð á líknar- og menningarmál í okkar samfélagi en auk þess hefur klúbburinn tekið þátt í alþjóðlegum verkefnum eins og baráttu gegn blindu. Vill klúbburinn því þakka þá velvild sem hann hefur alltaf notið í sínu starfi.

 

Fréttatilkynning frá Lionsklúbbi Ísafjarðar.