Lionshreyfingin gefur í þjarkasöfnun og hvetur til almennrar þátttöku

Lionshreyfingin gefur í þjarkasöfnun  og hvetur til almennrar þátttöku
Á myndinni eru Eiríkur Jónsson yfirlæknir, Benjamín Jósefsson fjölumdæmisstjóri, Guðrún Björt Yngvadóttir f. alþjóðastjórnarmaður , Árni B. Hjaltason umdæmisstjóri 109A, Guðmundur Oddgeirsson f. umdæmisstjóri, Þorkell Cýrusson umdæmisstjóri 109B og Rafn Hilmarsson sérfræðilæknir. Á myndinni eru Eiríkur Jónsson yfirlæknir, Benjamín Jósefsson fjölumdæmisstjóri, Guðrún Björt Yngvadóttir f. alþjóðastjórnarmaður , Árni B. Hjaltason umdæmisstjóri 109A, Guðmundur Oddgeirsson f. umdæmisstjóri, Þorkell Cýrusson umdæmisstjóri 109B og Rafn Hilmarsson sérfræðilæknir.

Lionshreyfingin á Íslandi hefur gengið til liðs við söfnun til kaupa á aðgerðarþjarka fyrir skurðlækningasvið Landspítala með 250 þúsund króna framlagi.  Um leið hvetur hreyfingin félagsmenn og aðra til þess að leggjast á árar svo slíkt tæki komist sem fyrst í notkun á spítalanum.

Aðgerðarþjarki (róbót) er í notkun á helstu sjúkrahúsum í nágrannalöndunum en hann nýtist til margvíslegra skurðaðgerða, sérstaklega við þvagfæraskurðlækningar sem og aðgerðir á grindarholslíffærum kvenna. Inngripið verður minna en með hefðbundinni aðferð, hægt að hlífa betur nærliggjandi líffærum og viðkvæmri starfsemi og stuðla þannig að því að batinn verði skjótari. Segja má að þjarkinn sé framlenging á fingrum skurðlæknisins þannig að allar hreyfingar hans verði nákvæmari.  Sýn skurðlæknisins í aðgerðarþjarkanum er auk þess framúrskarandi góð.

Undirfarið hefur staðið yfir átak til þess að safna fé til að kaupa aðgerðaþjarka.  Framlag Lionsfólks núna og allra annarra sem gefið hafa er afar mikilvægt spor til framfara í skurðlækningum hér á landi.

Sjá um söfnun fyrir aðgerðarþjarka á vef Íslandsbanka: Við kaupum róbót (http://www.islandsbanki.is/robot)

Söfnunarsjóður: 515-14-408005  kt. 470313-1370 Upplýsingar um aðgerðarþjarkann: Eiríkur Jónsson yfirlæknir