Saga Arnardrangs

Lkl_VestmaaaLionsklúbbur Vestmannaeyja
Arnardrangi við Hilmisgötu
900 Vestmannaeyjar

Arnardrangur.

Húsið Arnardrangur er eitt sögufrægasta húsið í miðbæ Vestmannaeyja. Húsið stendur við Hilmisgötu sem er í hjarta bæjarins. Hilmisgata fær nafn sitt frá heimsókn Kristjáns 10 Danakonungs, 25. júní árið 1921. Gatan hafði þá ekkert nafn en gekk þó undir nafninu Tukthússtígur og eftir að konungur gekk um götuna var ákveðið að kalla götuna Hilmisgötu, því hilmir merkir jú konungur.

Árið 1925 komu til Vestmannaeyja hjónin Ólafur Lárusson héraðslæknir og kona hans frú Sylvía Guðmundsdóttir. Ólafur hóf störf við Sjúkrahús Vestmannaeyja í samstarfi við Pál G. Kolka lækni. Ekki gekk samstarf þeirra um rekstur spítalans hnökralaust þar sem þeir áttu ekki skap saman. Ólafur fær þá leyfi frá bæjaryfirvöldum að stofna sjúkrahús fyrir erlenda sjómenn og aðra aðkomusjúklinga. Hann ræðst í það mikla verkefni að byggja þetta stóra og vistlega hús og tekur það í notkun árið 1928. Hinn 1. janúar 1931 opnaði Ólafur héraðslæknir formlega sjúkradeild með leyfi heilbrigðisstjórnarinnar í húsi sínu sem hann nefnir Arnardrang. Á jarðhæð eru læknastofur og á miðhæðinni innlagnir fyrir erlenda sjómenn. Þar voru 12 sjúkrarúm og var oft skipað í hvert rúm. Fengu Frakkar og Þjóðverjar þar sjúkravist, en Englendingar voru í sjúkrahúsi bæjarins. Var þessi skipan í samráði við ræðismenn þessara ríkja.  Í risinu bjó ´Olafur með fjölskyldu sína.

Ólafur var ákaflega vinsæll læknir í starfi og var sæmdur heiðursmerkjum fyrir störf sín fyrir erlenda sjómenn bæði af frakknesku stjórninni 1932 og þýska Rauðakrossinum 1936. Sjúkradeildin í Arnardrangi starfaði til ársins 1940, en var ekki tekin af skrá fyrr en árið 1951. Ólafur stofnaði Rauðakrossdeild Vestmannaeyja sunnudaginn 23.mars árið 1941 og var formaður deildarinnar í mörg ár.

Árið 1954 hættir Ólafur læknisþjónustu í Vestmannaeyjum og selur Vestmannaeyjabæ húseignina Arnardrang. Arnardrangur er gerður að heilsugæslustöð og er hún starfrækt þar til ársins 1972 er hún flytur í nýja sjúkrahúsið við Sólhlíð. Íbúðin í risinu var nýtt til íbúðar fyrir lækna eða starfsfólk heilsugæslunar. Meðal annars bjó þar um hríð Einar Valur Bjarnason læknir með fjölskyldu sína. Þriggja ára dóttir þeirra fór út á svalir og var þar að príla upp á handriðið og endaði með því að falla fram af svölunum.

Frú Sylvía læknisfrú var mikil garðyrkjukona og framan við húsið hafði hún gróðursett hina svokölluðu Vestmannaeyjarós, einnig kölluð Hansarós. Nú kom vel að rósarunninn var orðin stór og þéttur og tók fallið af litlu stúlkunni sem stóð upp jafngóð eftir fallið en þó með nokkrar rósanálar til minningar um fallið.

Þegar heilsugæslan flyst úr Arnardrangi er húsnæðinu breytt í tónlistarskóla. Lúðrasveit Vestmannaeyja fékk jarðhæðina fyrir æfingaaðstöðu. En miðhæðinni og íbúðinni í risi breytt í kennslustofur fyrir tónlistarskólann. Þegar tónlistarskólinn flytur í nýtt húsnæði þá fá ýmis önnur félög afdrep í húsinu. Meðal annars er AA samtökin einhver ár og þegar Lionsklúbburinn er stofnaður 8. apríl 1974 leigði klúbburinn eitt herbergi í rishæð Arnardrangs fyrir stjórnarfundi og geymslu fyrir muni sína.

Á þessum árum drappast þetta glæsilega hús niður og er að verða hálfgerð bæjarskömm. Þá kemur fram í dagsljósið að Vestmannaeyjabær skuldar Vestmannaeyjadeild Rauðakrossins umtalsverða upphæð frá árinu 1973 er deildin lánaði bænum fyrir malbiki á bílastæði við nýja Sjúkrahúsið , sem verið var að taka í notkun á þeim tíma. Samkomulag næst um að Rauði krossinn fái Arnardrang sem skuldajöfnun og þá um leið viðurkenningu fyrir frábært starf Rauða krossins í kringum eldgosið. Árið 1998 fær Lionsklúbburinn inni á miðhæð Arnardrangs og hefur þar starfsaðstöðu svo lengi sem klúbburinn lifir. Gert var samkomulag að Lionsklúbbur Vestmannaeyja taki á sig alla vinnu við endurbætur á húsinu fyrir þessa aðstöðu sína , en Rauðikrossin kosti allt efni er til þarf.

Hafa Lionsmenn unnið mikið verk í húsinu og er það nú orðið hin mesta bæjarprýði eins og á fyrstu árum. Húsið var einangrað og múrað að utan. Skipt var um alla glugga og húsið málað í sínum upphaflegu litum að utan. Miklar endurbætur voru einnig gerðar innanhúss. Fyrsta verk okkar Lionsmanna var að gera fundaraðstöðu fyrir klúbbinn á miðhæðinni.

Skólastofurna voru fjarlægðar og öll einangrun rifin burt og fundarsalurinn sem Lionsklúbburinn nýtir í dag var vígður árið 1999. Árið 2004 var ráðist í miklar framkvæmdir á neðstu hæðinni. Þar var bókstaflega allt hreinsað út inn að steini. Gerður var glæsilegur fundarsalur, ný salernisaðstaða, skrifstofa fyrir Rauðakrossin og lítið eldhús. Þetta varð miklu meiri vinna en upphaflega var ráðgert og voru stjórnarmenn Rauðakrossins mjög ánægðir með vinnuframlag okkar Lionsmanna og borguðu klúbbnum væna upphæð fyrir verkið.

 Í desember 2005 óskaði Rauðikrossin enn eftir aðstoð okkar við gerð neyðaríbúðar í risi Arnardrangs og bauð okkur að bjóða í verkið. Innan úr risinu var allt rifið burt sem hægt var og hafist strax handa í byrjun janúar 2006. Endurbótunum lauk síðan í endaðann mars og varð okkar stærsta fjáröflun síðari ára. Neyðaríbúðin gerir ráð fyrir fullkomnri aðstöðu fyrir 8 manns að búa þar í skamman tíma. Tvisvar hefur komið til þess að þurft hefur að nota íbúðina. Lögreglan hefur lykil að íbúðinni og getur því á skömmum tíma veitt húsaskjól í neyð.

Einnig hefur íbúðin verið notuð sem aðstaða fyrir barnahús.Enn hefur Rauðikrossinn óskað eftir vinnuframlagi okkar Lionsmanna. Fundist hafa gamlar myndir af steyptum garði í kringum húsið og nú vill Rauðikrossinn koma lóðarmannvirkjum í upphaflegt horf. Nú á vordögum verður því lokaátakið við endurbætur á Arnardrangi og ætla Lionsmenn að ráðast með krafti í girðingarvinnuna og tyrfa og gróðursetja tré á lóð Arnardrangs. Með þessum punktum sem ég hef komið hér á blað vil ég halda til haga fyrir klúbbinn og varðveita sem heimildir um þetta merka húsnæði.

Sigmar Georgsson tók saman.