Saga Lions

Stofnun Lionshreyfingarinnar.

melvin jones1Aðalhvatamaður og stofnandi Lionshreyfingarinnar var Bandaríkjamaðurinn Melvin Jones, fæddur 13. janúar 1879. Þegar hann fluttist síðar til Chicago hóf hann störf sem tryggingarmiðlari og nokkrum árum seinna stofnaði hann sitt eigið tryggingarfélag.

Á þessum árum störfuðu í Bandaríkjunum klúbbar sem höfðu innan sinna vébanda menn úr viðskiptalífinu. Markmið klúbbanna var fyrst og fremst að efla tengsl milli þessara aðila. Bæði í gamni og alvöru var talað um að þeir störfuðu eftir reglunni:

„Ef þú klórar mér á bakinu, þá klóra ég þér“.

Melvin Jones gekk til liðs við einn slíkan klúbb sem hafði um það bil 200 félaga. Hann hafði ekki verið lengi í klúbbnum þegar hann var kosinn til trúnaðarstarfa og 1916 varð hann ritari klúbbsins. Honum varð fljótlega ljóst að það var sóun á verðmætum að þessi dugmikli hópur klúbbfélaga hefði ekki göfugra markmið en að hagnast eitthvað sjálfir á veru sinni þar. Ef hægt yrði að beisla þessa félaga og félaga annarra slíkra klúbba til þess að vinna að mannúðarstörfum þá myndi þar leysast úr læðingi mikið afl til góðra verka. Hann hóf því áróður innan síns klúbbs fyrir að stofnuð yrðu samtök sem hefðu það að höfuðmarkmiði að líkna öðrum, að veita öðrum líð. Hann lét ekki þar við sitja og hóf fljótlega heimsóknir til annarra samsvarandi klúbba til að vinna hugmyndum sínum fylgi.

Það sem fyrir Melvin Jones vakti var að stofna fjöldahreyfingu sem hefði mannúðarstarf að markmiði, legði sjúkum lið og öllum þeim sem bágt ættu, gömlum sem ungum, öllum þeim, sem ekki gætu annast um sig sjálfir. Eftir honum er haft:

„Mér var farið að skiljast að mönnum verður lítið ágengt,
nema þeir taki upp á því að gera eitthvað fyrir aðra.“

Árangurinn af þessu starfi Melvin Jones varð sá að fulltrúar 27 klúbba víðs vegar að úr Bandaríkjunum komu saman til fundar í Chicago. Á þessum fundi sem haldinn var 7. júní 1917 var ákveðið að stofna samtök með ofangreind markmið og skyldu þau nefnast The Association of Lions Clubs eða Samtök Lionsklúbba.

Fyrsta þing samtakanna var svo haldið í Dallas í Texas 8. – 10. október 10. 1917. Það sem þykir standa upp úr frá því þingi er að strax þá var tekin ákvörðun um að samtökin yrðu alþjóðleg og jafnframt var ákveðið að þau skyldu nefnast The International Association of Lions Clubs eða Alþjóðasamband Lionsklúbba. Á þessu þingi var kosinn forseti dr. Wood sem verið hafði forseti The Royal Order of Lions eins af klúbbunum sem stóðu að stofnun Lionshreyfingarinnar. Jafnframt var Melvin Jones kosinn ritari og framkvæmdastjóri samtakanna. Þó að Melvin Jones hafi verið hugmyndasmiðurinn og aðalhvatamaðurinn að stofnun samtakanna varð hann aldrei forseti. Hann var hins vegar ritari meðan honum entist heilsa til.

Strax í upphafi var mikil þörf fyrir starfsemi klúbbanna. Þegar Lionshreyfingin var stofnuð geisaði fyrri heimsstyrjöldin. Þá unnu Lionsfélagar ómetanlegt starf sjálfboðaliða við ýmiskonar söfnun í þágu hermanna á vígvöllum. Á þessum árum kom upp skæð inflúensa sem hér á landi gekk undir nafninu spánska veikin. Hún herjaði ekki síður í Bandaríkjunum.

Þó að hreyfingin væri stofnuð sem alþjóðahreyfing fór útbreiðslan rólega af stað og varla er hægt að segja að hreyfingin hafi orðið alþjóðleg fyrr en 1920 þegar fyrsti klúbburinn var stofnaður utan Bandaríkjanna en það var í Kanada. Enn var útbreiðslan frekar róleg og það var ekki fyrr en 1948 að fyrsti Lionsklúbburinn var stofnaður utan Evrópu. Það var Lkl. Stokkhólms.

Fyrsti Lionsklúbburinn á Íslandi, Lkl. Reykjavíkur, var stofnaður 14. ágúst 1951.

Í dag starfa meira en 45.000 klúbbar í 206 þjóðlöndum og með yfir 1,3 milljón félögum innan samtakanna. Lionshreyfingin er stærsta sjálfboðaliða hreyfing líknarfélaga í heiminum.

Lionsklúbbar eru óviðjafnanlegur starfsvettvangur fyrir sérhvern áhugasaman og framfararsinnaðan einstakling, því innan vébanda þeirra geta allir, ef nægur starfsvilji og áhugi er fyrir hendi, fundið áhugamál við sitt hæfi til að helga krafta sína í nútíð og framtíð.

Lionshreyfingin er óháð stjórnmálaflokkum og trúmálafélögum.

Skrifstofa alþjóðasamtaka Lionsklúbba er í Oak Brook, Illinois, USA.

Lions Clubs International
300 22nd Street
Oak Brook, IL
USA. 60521-8842

Sími: 1 (708) 571-5466
Fax: 1 (708) 5718890

Heimasíðawww.lionsclubs.org