Sjúkrahúsi Suðurnesja fært sjónvarp

Í desember síðastliðnum lést góður félagi okkar í Lkl. Garði hann Anton Hjörleifsson. Síðasta ósk hans til okkar félaganna var að við gæfum einhverja upphæð í sjóð til kaupa á sjónvarpstæki til sjúkrahússins, en slík söfnun hefur verið í gangi undanfarið. Þetta var borið upp á fundi hjá okkur þar sem ákveðið var að gera betur og kaupa eitt tæki sem fært yrði sjúkrahúsinu.  Tækið var svo keypt í ágúst og ákveðið að afhenda það formlega þegar fráfarandi alþjóðaforseti Sid Scruggs var í heimsókn Var það gert í móttöku í Bláa Lóninu og var það Sigríður Snæbjörnsdóttir forstjóri heilsugæslu Suðurnesja sem tók á móti tækinu.
 Scruggs_sjnvarp

Guðrún Björt alþjóðastjórnarmaður, Sid Scruggs og frú, Sigríður og Pálmi

Annars er það að frétta af Lkl. Garði að stefnan er sett á að fjölga félögum í vetur, við erum einungis 10 félagarnir í dag sem er heldur fámennt en að sama skapi góðmennt, klúbburinn er blandaður. Ein kona hefur verið með okkur frá því að konur voru samþykktar sem fullgildir félagar og mun hún vera sú fyrsta minnsta kosti á Norðurlöndunum ef ekki í Evrópu sem gerðist Lionsfélagi enda köllum við hana „The first Lady “.