Lionsklúbbur Akraness gefur tæki til liðskiptaaðgerða

Þriðjudaginn 3.apríl  s.l. afhenti Lionsklúbbur Akraness, Heilbrigðisstofnun Vesturlands að gjöf, tæki  til liðskiptaaðgerða.  Nýju tækin koma í stað tækja sem orðin eru allgömul.  Liðskiptaaðgerðir eru á sérsviði Heilbrigðisstofnunarinnar á Akranesi.   Andvirði nýju tækjanna er u.þ.b. 2.500.000. kr.  

Akranes_3_apr_2012
Jakob Jónsson formaður Lionsklúbbs Akraness og Guðjón Brjánsson framkvæmdastjóri HVE

Eins og  Jakob Jónsson formaður Lionsklúbbs Akraness komst að orði við afhendinguna:  Litla ljósið sem fólk tendrar á leiði látinna ástvina sinna á hátíð ljóss og friðar verður því að afli í höndum okkar Lionsmanna til að láta gott af okkur leiða.  Áhaldakaupasjóður Lionsklúbbs Akraness hefur starfað frá árinu 1958 og ætíð stutt Sjúkrahúsið á Akranesi, nú Heilbrigðisstofnun Vesturlands með tækjagjöfum.